Skírnir - 01.01.1973, Síða 88
86
HELGA KRESS
SKÍRNIR
rétt ort, en hún er ekki list. Hún er full af klifunum og ber merki
stöðnunar, í henni er engin fersk myndræn lýsing né heldur hefur
hún skírskotunargildi út fyrir gefinn ramma. En í ljóðagerð þarf
að fara fram sífelld endursköpun til að hún í senn megni að tjá sam-
tíma sinn og ná til hans.
I þeim Ijóðabókum, sem hér verður fjallað um, virðist mér hins
vegar viðleitni til slíkrar listrænnar sköpunar. Þar með er ekki sagt,
að alltaf takist sem skyldi. Aðferðir skáldanna eru mismunandi,
sum byggja að meira eða minna leyti á íslenzkri Ijóðhefð, önnur á
nútímaljóðagerð (módernisma).
Uppistaða hefðbundinnar ljóðagerðar eru fyrst og fremst hljóm-
rænir eiginleikar tungumálsins, reglubundinn kliður þess, svo sem
taktur fastrar hrynjandi, rím og stuðlasetning með ákveðnu milli-
bili og regluleg erindaskipan. I nútímaljóðagerð er hins vegar byggt
á merkingareigindum málsins. Formið er frjálst, en það sem bind-
ur, eru myndir, einkum myndhverfingar, endurtekningar orða eða
orðasambanda og þau hugsanatengsli (association), sem felast í
samþjöppun málsins eða hnitmiðun.
Ólafur Jóhann Sigurðsson fer troðnar slóðir í /lð laufferjum og
byggir flest ljóð sín á íslenzkri ljóðhefð. Algjörlega hefðbundið er
Hlógu þau á heiði:
Kyrrlátur blær á heiöi hrærir
hrímsilfurstrá og fífu dána,
hvíslar í víði, bliknuÖ bærir
blómin við ána.
Flókar á himni, hljótt á jörðu,
haustleg úr vestri nálgast gríma.
Leikur þó skin um lága vörðu
liðinna tíma.
Blásköruð áin, blærinn stillti,
blómin og stráin hug vorn túlka:
Eitt sinn gekk hér með ungum pilti
örlagastúlka.
Hrynjandin er taktbundin, erindaskipan regluleg, rím og stuðla-
setning eftir bragfræðilegum reglum. En það sem skilur ljóðið frá
dauðri hagmælsku, er einstæður hæfileiki skáldsins til myndrænn-
ar tjáningar, blómin og stráin hug vorn túlka gætu verið einkunn-