Skírnir - 01.01.1973, Page 124
122
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
skorðaðan hversdagsheim Grétu og leggur líf hennar í rúst. Eins
og höfundur tekur á efninu, veldur þetta ekki harmrænum hvörfum
í lífi Fásts, en verður fremur áfangi á þroskabraut hans, sem
endar með sælli himnaför í leikslok. Yfirleitt er sú afstaða, sem
Goethe leyndarráð tekur til hins illa eða neikvæða í tilverunni því
marki brennd, að verkið er oft nærri því að verða skopleikur, þar
sem sjálfur myrkrahöfðinginn er uppspretta spaugsins.
Það væri því sönnu nær að nefna Fást dramatískt ljóð. Kjarni
verksins felst fremur í þeim menningarsögulegu víddum, er það
opnar, en í því, að það sé harmleikur sérstakra einstaklinga. Fást
sjálfur er því öðru fremur persónugervingur þeirrar veraldlegu
þekkingar-, athafna- og fegurðarþrár, sem í upphafi nýaldar brýzt
úr skorðum fornhelgrar setningar, og þráður verksins frá upphafi
til enda er sú spurning, hvert þessi þrá eigi eftir að leiða manninn:
hvort hann eigi eftir að glata sjálfum sér í sljórri sjálfsnautn eða
hvort hann beri í brjósti sér einhvern þann innri ljósneista sem
muni beina honum upp á við. I lokin er sem Goethe slái brú milli
húmanískrar veraldarhyggju annars vegar og platónskra og kristi-
legra viðhorfa hins vegar með því að finna hið góða í sjálfri leit
og sókn mannsins og að líta á hið stundlega sem ímynd æðri veru-
leika. Goethe vann þetta verk sitt á löngum tíma og af mikilli natni,
enda hefur það að geyma innan þessarar grindar snjöll samtöl,
sem eru mikil náma meitlaðra spakmæla og gullkorna og eru oft
krydduð með beittu háði, en einnig undurfagra Ijóðræna kafla,
hvort sem þeir lýsa náttúrufegurð eða hugrenningum manna; á
alla þessa strengi kann Goethe að slá og beitir til þess flókinni brag-
list, allt frá þríhendum, Knittelvers, stakhendu til þjóðkvæðastíls og
óbundins máls.
Slíkt verk gerir engar smáræðis kröfur til þýðandans — og er
raunar skiljanlegt, að lítið hafi orðið úr fyrri tilraunum til þess
arna - ef hið stranga ljóðform, sem þýðandi verður að fylgja, á
hvergi að þröngva að eða afbaka hinar skýru og snjöllu hugsanir
verksins eða draga úr beinni skírskotun hinna hljómmiklu setninga
Goethes. Yngvi Jóhannesson hefur að sjálfs sögn í formála kapp-
kostað „að hafa þýðinguna nærri eðlilegu talmáli, eftir því sem
ljóðbúningurinn annars leyfir“, og tel ég það mjög hyggilega stefnu.
Það skiptir auðvitað meginmáli í verki sem þessu, að áhorfandi eða