Skírnir - 01.01.1973, Page 132
130
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
minnsta kosti einum lengra eða betur en Einari lánaðist. Rennir
ekki þelta dæmi nokkrum stoðum undir ályktanir um sjálfbirging
þess manns sem setur sér að leggja út af orðunum „að hugsa á ís-
lenzku“?
Þessar ályktanir lesenda minna sem ég bef nú getið mér til um
held ég séu ekki sanngjarnar. Að vísu lofa ég engu um það að
vangaveltur mínar á þessum blöðum reynist bera tiltakanlegri hóg-
værð vitni. Eg lofa jafnvel engu um háttvísi í garð mér betri og
merkari manna. En ég þykist þó geta vísað umgetnum ályktunum á
bug. í því skyni hlýt ég að leyfa mér að fara fáeinum orðum um
lítillæti fræða minna, þó svo þau heiti hvorki meira né minna en
,heimspeki‘ á íslenzku. Kannski þau ættu heldur að heita ,hugsunar-
fræði‘ sem lætur alla vega minna yfir sér en .heimspeki‘. En við
skulum ekki skeyta um nafngiftir. Lítillæti heimspeki eða hugsunar-
fræði hygg ég sé raunar sameiginlegt öllum fræðum eða vísindum,
hverjum nöfnum sem þau nefnast.
Hyggjum aftur að ritgerð Jóns Helgasonar sem til er vitnað.
Við lestur hennar kemur í ljós að hún er ekki eins yfirgripsmikil og
ef til vill mætti ætla af heiti hennar einu. Hún fjallar aðeins um
einn þátt braglistarinnar: hinn ytri búnað skáldskapar, einkum þá
„harðstjórn hrynjandi, ríms og stuðla“ sem íslenzk skáld eiga við
að búa, eins og Jón kveður sjálfur að orði.2 Jón víkur hvergi að
yrkisefnum sínum eða annarra, né heldur að öðru orðavali en því
sem ræðst af hljóðan orðanna einni saman. Og þessi einskorðun
efnisins ber lærdómsmanninum Jóni Helgasyni fagurt vitni: hann
veit og kannast við að sú fagurfræði sem heima á í handbókum og
leiðarvísum fræðimanna varðar hinn ytri búnað einan, andlausa
íþrótt, og dregur einatt dám af viðfangsefni sínu. Hin nytsamasta
fagurfræði fjallar ekki um fegurðina, og hún er ekki heldur fögur
nema eftir atvikum sem varða eðli hennar engu.
Hugsunarfræðin er ámóta lítillát og fagurfræði Jóns Helgasonar.
Að því leyti sem henni er í mun að teljast til fræða eða vísinda, að
minnsta kosti með einhverjum rétti, setur hún sér þröngar skorður.
í flestum tilvikum einskorðar hún sig við hinn ytri búnað mann-
legrar hugsunar: málið sem við tölum, orð sem við notum. Hún
einskorðar sig jafnvel við örlítið brot orðaforðans sem hver maður
beitir frá degi til dags í útistöðum sínum við umheiminn, og reynir