Skírnir - 01.01.1973, Page 135
SKIRNIR
AÐ HUGSA Á ÍSLENZKU
133
að þá fyrst sé fræðigrein fullkomin þegar hún er orðin tæknin tóm,
og þá frekast alls tækni sem tölva getur beitt. Að þessari skoðun
mun ég víkja aftur síðar, en í bili skiptir hitt mestu fyrir mál mitt
að tóm tækni hefur þann umtalsverða kost að hana má kenna, oft
með ágætum árangri. Það má kenna mönnum að beita reglum við
að greina stuðla og höfuðstafi, orðflokka og setningarhluta, en
engum hefur tekizt svo ég viti að kenna manni að yrkja gott kvæði.
Eins má kenna rökfræði og stærðfræði, en gott vald manns á þess-
um greinum, á reikningstækni þeirra, er engin trygging fyrir vitur-
legri eða frumlegri hugsun. Það er ekki einu sinni trygging fyrir
almennri, heilbrigðri skynsemi.
Sá kostur tækninnar að hana má kenna ætti að verða mönnum
æ ljósari eftir því sem skólar gerast fjölskipaðri og kennarar eftir
því misjafnari að öllu öðru leyti en þeirri tækni sem þeir hafa til-
einkað sér. Með nokkurri frekju má kannski segja að skólarnir,
þær viðamiklu stofnanir samfélagsins sem helgaðar eru fræðum og
vísindum, eigi tveggja kosta völ: að starf þeirra sé annaðhvort aga-
laust kjaftæði eða andlaus íþrótt. Agalaust kjaftæði nýtur að vísu
nokkurrar hylli, til að mynda í heimspeki og fagurfræði, en flestir
fræðimenn mundu að líkindum heldur vilja skipa sér undir merki
tækninnar, svo takmörkuð sem hún er. Og margir þeirra munu
vera nógu hreinskilnir til að kannast við, fyrir sjálfum sér og öðr-
um, að tæknin sé innantóm: að aðalsmerki fræða og vísinda sé and-
leysi þeirra. Andann höfum við annars staðar að.
Sjálfur get ég ekki orðað þetta betur en gamall maður austur í
sveitum sem einn nemenda minna í Háskólanum hitti að máli á
liðnu sumri. Hann sagði við stúdentinn: „Þið, þetta skólafólk, eruð
alltaf að læra svo það er ekki von þið hafið tíma til að mennta
ykkur.“ Af þessum orðum má meðal annars ráða að enn eru til
menn sem kunna að hugsa á íslenzku. Skyldu þeir hafa lært það í
íslenzkum skóla?
II
Einhver kann að hafa furðað sig eða jafnvel lineykslazt á heiti
þessarar ritsmíðar af öðrum sökum en þeim sem ég hef þegar nefnt.
Að hugsa á íslenzku - er ekki hugsað eins á öllum málum ef hugsað
er á annað borð? Eða er ætlunin að halda því fram að mikill munur