Skírnir - 01.01.1973, Page 139
SKÍRNIR
AÐ HUGSA Á ÍSLENZKU
137
mörgum tilvikum, láti ávallt annarlega í íslenzku eyra. Af þessu
má ráða að íslenzkir stærðfræðingar hafa erfitt verk að vinna. En
óvinnandi er það áreiðanlega ekki. I þeirri trú hverf ég aftur að
hversdagslegri reynslu minni á vettvangi dagsins.
Þá reynslu mína í ritstjórastarfi sem ég lýsti lauslega hér að fram-
an kannast að líkindum flestir við: svo algengt er það að íslenzkir
fræðimenn hliðri sér hjá að fjalla um fræði sín á íslenzku á þeim
forsendum að það sé ekki hægt. Oft tala slíkir menn í allri hógværð,
en sú hógværð er ekki öll þar sem hún er séð því jafnframt því sem
menn játa vanmátt sinn til að tala og skrifa á íslenzku gefa þeir auð-
vitað þeirri skoðun undir fótinn að þeir eigi afskaplega auðvelt
með að láta merkilegar hugsanir í ljósi á útlendu máli.
Þessi skoðun hefur mér löngum þótt tortryggileg. Alla vega þykir
mér hin trúverðugri sem ráða má af lítilli sögu sem sögð er af Svein-
birni Egilssyni. Danskur maður sem fregnað hafði að Sveinbjörn
væri hið ágætasta latínuskáld og að öðru leyti í fremstu röð lær-
dómsmanna, spurði hann einhverju sinni hvað hann kynni mörg
tungumál. Margir muna ugglaust svar Sveinbjarnar: „Ég kann ekk-
ert mál nema íslenzku!“ Og svo að annar höfuðsnillingur tungunnar
sé kallaður til vitnis, þá segir Einar Benediktsson í ritgerð um Is-
lenzka orðmyndan: „. . . ég hef heyrt ýmsa menn, sem vel hafa vit á,
segja, að þeir álitu aðalhættuna fyrir tungu vora vera þá, að menn
almennt rituðu með óíslenzkri setninga- og orðaskipan og að menn
,hugsuðu á dönsku', og má vel vera að svo sé. En ég get ekki séð, að
nein líkindi séu til þess, að þeir sömu menn, sem geta ekki skrifað
íslenzka setningu með íslenzkum orðum, muni nokkurn tíma lœra
að gera það með þeim útlendu.“8
í fæstum orðum virðist mér eina vonin til þess að Islendingur
geti hugsað og skrifað yfirleitt vera sú að hann geti hugsað og
skrifað á íslenzku. Og sú tregða margra fræðimanna til að hugsa
og skrifa á íslenzku, sem ég hef drepið á, held ég sé eitt af mörgu
til marks um það að í þessu efni sem ýmsum öðrum sé andlegu lífi
þessarar þjóðar mikilla ábóta vant. Að vísu má vera að þessi skoð-
un mín sé síður til marks um réttmætt vandlæti en óhóflega áráttu
til vandlætingar. En ef svo er ekki þá má geta þess að sama vand-
læti hefur áður átt erindi við íslendinga. Séra Jónas frá Hrafnagili
segir í fslenzkum þjóðháttum um menntunarstig presta á þessu landi