Skírnir - 01.01.1973, Page 142
140
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
kennt, og hlutverk þeitra er nú einu sinni það að koma því sem þeir
hafa lært á framfæri við aðra. Ég sagði hér að framan að ef til vill
ættu skólakennarar og fræðimenn aðeins tveggja kosta völ: and-
lausrar íþróttar og agalauss kjaftæðis. Um andlausa íþrótt höfum
við dæmi þar sem málfræðin er og reglurnar um rétt mál og rangt.
Um agalaust kjaftæði, eða hugsunarlausan vaðal sem séra Jónas
kallar, höfum við dæmi í drjúgum hluta þess sem skrafað er og
skrifað um bókmenntir og listir og í fleirum þeim ritgerðum skóla-
fólks sem uppeldisfræðingar kenna við „frjálsa tjáningu“ og þykir
flestum fín. Og ef kostirnir eru þessir tveir og aðrir ekki þá hika
ég ekki við að skipa mér í flokk með stöglurum hinnar andlausu
íþróttar.
Ég segi ef. Af því skyldi enginn ráða að ég þykist hafa á reiðum
höndum einhverja þá tækni sem kenna mætti í skólum í því skyni
að stuðla að því að ungum Islendingum veitist ofurlítið auðveldara
en ella að hugsa og skrifa á íslenzku. Að vísu get ég ekki neitað því
að ég læt mig stundum dreyma um slíka tækni. En ég veit ekki hver
hún er eða gæti verið: slíkt er andleysi minna fræða. Hitt þykist ég
vita, og kannski geta vakið aðra til umhugsunar um, að annar vandi
íslenzks máls og íslenzkrar hugsunar sé sýnu brýnni en sá hvort
sögnin ,að brúka‘ fer vel eða illa í málinu. Ekki svo að skilja að ég
þykist fyrstur hafa komið auga á þennan vanda, enda mun ég nú
lýsa honum með orðum Einars Benediktssonar. Hann er sá hvort
okkur sem nú lifum auðnast að varðveita skapandi mátt íslenzkrar
tungu sem vísindamáls jafnt sem hversdagsrœðu,11 hvort við ber-
um gæfu til að hugsa á íslenzku handa íslendingum þá hugsun sem
oftast er kennd við vísindi og heimspeki ekki síður en hina sem við
látum í ljósi með sögninni ,að hrúka'. Vísindaleg og heimspekileg
hugsun einkennist öllu öðru fremur af sértœkum hugtökum, og
vildi ég nú snúa máli mínu að tveimur slíkum, huglægni og hlut-
lœgni, í því skyni að varpa ofurlitlu ljósi á fullyrðingar mínar
fram til þessa. Orðin ,huglægur‘ og ,hlutlægur‘ leitaði séra Arnljót-
ur Ólafsson uppi. Og leyfið mér áður en að þeim kemur að vitna til
orða sem séra Arnljótur lætur falla í Rökfrœði sinni um hin sér-
tæku hugtök vísinda og heimspeki: þau eru, segir hann, „hinn dýrð-
legasti vottr um flug og styrkleika greindaraflsins og eitt hið fagr-
asta blóm mannlegrar hugsunar.“12