Skírnir - 01.01.1973, Page 157
SKIRNIR
AÐ HUGSA Á ÍSLENZKU
155
Hér er enn um alþjóðlegan vanda að tefla sem varðar af þeim
sökum ekki hinar útlendu slettur einar. Ég kallaði sálarfræði frum-
stæða fræðigrein. Það er hún, jafnvel að mati sálfræðinga sjálfra.
Og ein ástæðan til þess er að líkindum einmitt áráttan til þeirrar
uppskafningar sem nefnd er vísindamál. Mörg hugtök sálfræðinga,
á borð við ,sjálf‘ og ,yfirsjálf‘, gera oft ekki annað en að slæva
skynbragð manna á þau margvíslegu blæbrigði mannlegs sálarlífs
sem mestu skipta í daglegu sálusorgarastarfi. Menn öðlast engan
mannskilning af þeim hugsunarlausa vaðli sem til að mynda læri-
sveinar Freuds láta flestir frá sér fara.39 Að vísu ber ekki að neita
því að ýmsir sálfræðingar hafi unnið umtalsverð afrek á sínu sviði,
svo sem þeir William James, Jean Piaget og Sigmund Freud sjálfur.
Samt er ekki fjarri lagi að segja að menn öðlist mun meiri skilning
á mannlegu sálarlífi af lestri góðra skáldsagna eða kvæðabóka en
öllum þorra sálfræðirita. Því gott skáld veit að ef einhver orð lifa
sínu sérstaka og fjölbreytta lífi meðal sérhverrar þjóðar, og eru
eftir því vandmeðfarin, þá eru það orð um afbrigði mannlegrar
breytni og blæbrigði mannlegs sálarlífs. Og hlutverki slíkra orða
geta engin losaraleg fræðiheiti gegnt.
Ég þykist nú hafa gert greinarmun vísindamáls og hversdagsræðu
nokkur skil, og líður þá að lokum máls míns. Ég má ugglaust þykj-
ast góður ef mér hefur tekizt að gera lesendum mínum kleift að
mynda sér nokkra skoðun, vinsamlega eða óvinsamlega, á minni
andlausu íþrótt sem ég vildi fremur kalla hugsunarfræði en heim-
speki. Þó kysi ég heldur að spjall mitt gæti orðið til þess að ofurlít-
ill áhugi vaknaði á þeim vanda sem það er að hugsa á íslenzku og
þar með fyrir okkur íslendinga að hugsa yfirleitt. Hitt þori ég varla
að vona að einhverjum lesanda verði ljóst að þessum vanda verður
að líkindum ekki velt yfir á skólana né aðrar þær stofnanir landsins
sem helgaðar eru fræðum og vísindum, stofnanir þar sem menn læra
og hafa engan tíma til að mennta sig. En sjálfum virðist mér að jafn-
vel þótt við gætum skipað málsnillinga og aðra andlega skörunga í
hverja kennarastöðu, þá sé öldungis óvíst hvort áhrif þeirra mættu
sín neins. I danska skólanum sem hér var haldinn á 19du öld áttu
þeir séra Hannes Arnason og Bjarni Johnsen rektor svofelld orða-
skipti um nemendur séra Hannesar: „Lítið á,“ segir séra Hannes,
„þeir hafa slegið mér plötu!“ Rektor glottir að og segir: „Hvernig