Skírnir - 01.01.1973, Side 207
SKÍRNIR
STÓRVELDIN OG LÝÐVELDIÖ
205
ar stæðu nú fyrir dyrum. Þetta væri kjörið tækifæri til að útkljá
sambandsmálið. Æskilegt hefði verið að fylgja sambandslögum um
tímasetningu sambandsslita. En það gæti ekki skipt Dani miklu,
hvort málið yrði afgreitt nokkruin mánuðum fyrr eða síðar.6
Bandaríkjamenn höfðu, er hér var komið, haft hlutverkaskipti við
Breta á Islandi, tekið við vörnum landsins og viðskiptin beinzt
vestur. ísland átti tvímælalaust meira undir velvilja Bandaríkjanna
en nokkurs annars ríkis. Viðhorf Bandaríkjanna til sambandsmáls-
ins höfðu því svipaða þýðingu fyrir landið og afstaða Breta fyrrum.
Afskipti Bandaríkjamanna af sambandsmálinu eiga upptök sín í
skýrslu, sem bandaríski sendiherrann,Lincoln MacVeagh,reit í júní-
lok 1942. MacVeagh taldi málið komið á dagskrá vegna flokkspóli-
tískrar hagsmunastreitu og yfirboða. Jónas Jónsson frá Hriflu væri
upphafsmaðurinn. Aðrir flokksleiðtogar hefðu séð sitt óvænna. Þeir
fylgdu Jónasi eftir vegna ótta um atkvæðamissi. Jónas kynni auk
atkvæðavonar að stjórnast af persónulegu hatri á Kristjáni konungi,
sem hann teldi hafa lítilsvirt sig. Aðalheimildarmaður MacVeaghs
var augsýnilega Fontenay, danski sendiherrann. Fyrirferðarmikl-
um hluta skýrslunnar varði MacVeagh til að koma á framfæri sjón-
armiðum dönsku stjórnarinnar. í augum Fontenays voru sambands-
slit lagabrot og „löðrungur í andlit konungs í nauð“. MacVeagh
sagði, að danska sendiherranum hefði verið það mikið áhugaefni,
að Bandaríkin fengju vitneskju um framvindu málsins. Við brott-
för til Bandaríkjanna hefði Fontenay einnig beðið sig að gera
danska sendiherranum í Washington, Henrik Kauffmann, viðvart
um lýðveldisfyrirætlanirnar. MacVeagh ráðlagði Fontenay að skrifa
Kauffmann frásögn, sem bandaríska utanríkisráðuneytið kæmi á
framfæri og hefði not af. Að lokum tók MacVeagh fram, að Fon-
tenay hefði margsinnis fært sambandsmálið í tal við brezka starfs-
bróður sinn. Smith segðist enn engin fyrirmæli hafa í málinu.7
Nokkru eftir að MacVeagh afhenti skýrslu sína í Washington,
barst utanríkisráðuneytinu boðskapurinn til Kauffmanns. Þar sagði
Fontenay, að sambandsmálið hefði orðið að pólitísku bitbeini í
hita kosningabaráttu um kjördæmaskipun. Hann hefði varað Islend-
inga alvarlega við samningsbroti. Fontenay taldi „nauðsynlegt að
vera við öllu búinn og íhuga í tíma, til hvaða ráðstafana beri að
grípa“. Afrit af bréfinu var sent til Reventlows í London.8