Skírnir - 01.01.1973, Page 213
SKÍRNIR
STÓRVELDIN OG LÝÐVELDIÐ
211
Danir áttu ekki upp á pallborðið í brezka utanríkisráðuneytinu
um þetta leyti. Sir Orme Sargent aðstoðarráðuneytisstjóri reit:
Eg lít svo á, að það sé okkur eindregið til hagsbóta, að eítir styrjöldina
verði Island algjörlega skilið frá Danmörku. Sambandið við Danmörku í
þessu stríði hefur eingöngu valdið öllum hlutaðeigandi vandræðum, og það
sama er líklegt að gildi um framtíðina.7
Rétt um það bil, er Bandaríkj amenn hófu afskipti af sambands-
málinu, reyndi Reventlow greifi að fá Breta til að beita sér gegn
lýðveldisstofnun. Greifinn brýndi fyrir Bretum að grípa í taumana
við Islendinga. Reventlow taldi að það yrði „hræðilegt áfall fyrir
Kristján konung, ef Island brygði trúnaði við hann ..Bretar
hristu af sér „ástríðufullar áskoranir“ Reventlows og sögðust engan
rétt hafa til afskipta af málinu.8
Bretar voru því fylgjandi undir niðri, að Islendingar réðust í
lýðveldisstofnun. En þeim var einnig umhugað að halda sínu gagn-
vart Dönum. Þessi tvöfeldni kom fram í smáatviki. Brezka utan-
ríkisráðuneytið tók að sér að koma skýrslu um sambandsmálið frá
Fontenay til Danakonungs og Vilhelm Buhls forsætisráðherra. Talið
var líklegt, að þessi greiði gæfi Dönum til kynna, að „við erum
ekki að hvetja til þess, að Island slíti tengsl sín við Danmörku“.9
Kristján konungur var þakklátur fyrir skýrsluna, sem send var eftir
leynilegum leiðum. Haft var eftir kóngi, að hann væri „ekki þess
megnugur að gera neitt, þar eð hann væri sambandslaus við ís-
land“.10
Eftirtektarverð eru viðbrögð Breta við þeim tíðindum, að ís-
lenzkir stjórnmálamenn hömpuðu herverndarsamningnum til fram-
dráttar lýðveldisstofnun. Bretar höfðu gengizt undir sömu skuld-
bindingu og Bandaríkjamenn um viðurkenningu á „algjöru sjálf-
stæði íslands“. Winston Churchill hafði ítrekað þetta í ræðu á
svölum alþingishússins. En í brezka utanríkisráðuneytinu voru
menn á eitt sáttir um, að skuldbindingin gilti ekki um tengsl ís-
lands og Danmerkur. Hún væri einungis fyrirheit um að ganga ekki
á sjálfstæði Islands og flytja þaðan á brott herafla í stríðslok. Ekki
var þó talin ástæða til að leiðrétta meinta mistúlkun íslendinga á
þessari skuldbindingu. Leiðrétting gat aðeins orðið til þess að
letja íslendinga, og eins og Sir Orme benti á: .. það kann að
þjóna okkar hagsmunum, að skilnaður fari fram44.11