Skírnir - 01.01.1973, Page 227
SKÍRNIR
STÓRVELDIN OG LÝÐVELDIÐ
225
Hvað olli því, að Bretar tóku skyndilega þá neikvæðu afstöðu
sem raun bar vitni? Hvað hafði breytzt frá þeim tíma, er þeir voru
þess fýsandi, að Islendingar segðu sem bráðast skilið við Dani?
Þessum spurningum verður leitazt við að svara, enda þótt ekkert
eitt svar sé til reiðu. Fyrst ber að geta þess, að ástandið í Danmörku
var gjörbreytt frá því, sem það var veturinn 1941 og sumarið 1942.
Samvinna Dana við Þjóðverja, sem þeir Erik Scavenius og Thorvald
Stauning beittu sér fyrir, hafði runnið út í sandinn. Með árunum
hafði andspyrnuhreyfingunni vaxið fiskur um hrygg. Þjóðverjar
brugðust við starfsemi hennar með því að þrengja æ meir að frelsi
Dana. Síðla árs 1943 sagði danska ríkisstjórnin af sér, en við stjórn-
völinn settist bráðabirgðastjórn ráðuneytisstjóra, sem hafði ekkert
stjórnskipulegt vald. Kristján konungur lýsti sig fanga Þjóðverja
og gegndi ekki stjórnarstörfum. Konungur varð sameiningartákn
þjóðarinnar, og hugrekki hans ávann honum virðingu og samúð
bandamanna. Það kemur því ekki á óvart, að Bretar tömdu sér meira
tillit til danskra hagsmuna en á því tímabili, er samvinna við Þjóð-
verja réð ferðinni í Danmörku.
Stefna Breta var að forðast allt, sem móðgað gæti Islendinga eða
Dani. í skiptum sínum við Breta töldu Bandaríkjamenn sig hins
vegar komast að raun um, að þeir legðu einkum áherzlu á að móðga
ekki þá síðarnefndu. Bandaríkjamenn álitu þrjú atriði ráða af-
stöðu Breta: afar náin efnahagstengsl við Danmörku, sem yrðu
væntanlega endurvakin eftir stríð; tillitssemi sprottna af konung-
legum fjölskylduböndum; von Breta um fulla samvinnu við Dani,
ef til innrásar bandamanna kæmi í Danmörku.11 Til viðbótar er
ekki fjarri lagi að geta sér til, að erindrekaskipun Bandaríkja-
manna hafi ósjálfrátt fyllt Breta gremju í garð íslendinga. Það
særði metnað þeirra að neyðast til að fylgja í fótspor Bandaríkja-
manna öfugt við markaða stefnu. Samúð með Dönum kann að hafa
vaxið í réttu hlutfalli við reiði þeirra við íslendinga og Bandaríkja-
menn.
Viðbrögð Norðurlanda við erindrekaskipun Bandaríkjanna eru
eftirtektarverð. Eins og vænta mátti voru Norðmenn og Svíar ófús-
ir til að sýna lýðveldinu þvílíkan sóma. Er úrslit þjóðaratkvæða-
greiðslunnar um lýðveldisstofnun lágu fyrir í maílok, fóru íslend-
ingar fram á, að Noregur og Svíþjóð skipuðu sérstaka erindreka.12
15