Skírnir - 01.01.1973, Page 233
SKÍRNIR STÓRVELDIN OG LÝÐVELDIÐ 231
Pétur Benediktsson taldi sig einnig fróðari um afstöðu Sovét-
ríkjanna, enda væru greinar í Stríðið og verkalýðurinn „undan-
tekningarlaust „innblásnar“ frá hærri stöðum“. Um það væru ekki
skiptar skoðanir. Greinin væri skrifuð til þess að benda á löngun
Bandaríkjanna til yfirráða á íslandi. Pétur taldi ekki fjarri sanni
að ætla að Molotov hefði strax myndað sér skoðun um erindreka-
skipunina, sem hann síðar hefði ekki séð ástæðu til að breyta:
Eg efast ekki um, að Molotov hefir sagt við sjálfan sig ... Það þyrfti
engan að furða, þótt Bandaríkjamenn ætluðu að halda króanum undir skírn.
Þeirra væri faðernið, svo að þeim mætti vel renna blóðið til skyldunnar.
Ekki hefðu Bandaríkin gert erindreka út af örkinni tii að sam-
fagna Eystrasaltsríkjunum, er æðsta ráð Sovétríkjanna varð við
ósk þeirra um inngöngu í sambandið. Hví skyldu Sovétríkin þá ekki
kunna sér hóf, þegar verið væri að halda upp á nýjustu aukningu
bandaríska heimsveldisins!17
Grein Osipenkos er ekki eina vísbendingin um, að Sovétríkin
hafi með fálæti viljað tjá gremju sína vegna lýðveldisstofnunar og
aðdraganda hennar. Ef framkoma og orð Krassilnikovs eru grannt
skoðuð, bendir margt til þess, að fyrirmælaskortur hafi ekki staðið
sendiherranum fyrir þrifum. Skýrasta dæmið um þetta er samtal,
er Krassilnikov átti við Shepherd, þegar hann neitaði að láta
Dreyfus mæla fyrir munn sér í borðræðunni. Shepherd vottaði
sovézka kollega sínum samúð, vegna þeirrar erfiðu aðstöðu sem
fyrirmælaskorturinn setti hann í. Bretinn gat sparað sér samúðina:
... með augljósri tregðu gaf hann [Krassilnikov] í skyn, að hann hefði heyrt
frá Moskvu og aff honum væri frjálst aff senda persónulegar hamingjuóskir.18
Samkvæmt orðum Vyshinskys voru Krassilnikov send í júníbyrj-
un fyrirmæli um að breyta í samræmi við „siðareglur, sem venju-
lega tíðkuðust við slík tækifæri“. Krassilnikov taldi sig ekki hafa
fengið fyrirmæli, er sendiherrar stórveldanna gengu á fund Vil-
hjálms Þórs. Ef marka má orð Vyshinskys, hljóta sendiherranum
að ltafa borizt fyrirmælin á þeim tíma, sem leið fram til lýðveldis-
hátíðahaldanna 17.-18. júní. Tal Krassilnikovs við Shepherd, sem
vitnað er til að ofan, ber líka vott um, að sú hafi verið raunin.
Spurningin snýst því fyrst og fremst um efni þeirra fyrirmæla, sem
Krassilnikov fékk frá stjórn sinni. Framkoma sendiherrans var
ekki í samræmi við „venjulegar siðareglur“, enda stakk hún í stúf