Skírnir - 01.01.1973, Side 251
SKÍRNIR
SÍLDARSAGA
249
sínum frá seinni árum situr höfundurinn sig ekki úr færi að senda
marxismanum sneið. „Jehóva já, og Harmageddon, það er sjálfur
marxisminn sagður með guðdómlegum orðum“ (129), hljóðar ein
athugasemd sögumanns. En í samtali við áðurnefndan formann
kemst hann svo að orði:
Eg er ekki nógu vel að mér í marxisma; stundum finst mér þessi kenníng
vera endurleysa frá rótum; einhverskonar blendíngur af geðveiki úr biflíunni
og bulli úr þjóðverjum; en svei því, - ef hún getur betrumbætt heiminn þá er
alt í lagi, og ég held áfram að vera einn af þeim hliðhollu sem eru kallaðir
meðreiðarsveinar. (195)
Slík ummæli, slíkt hlutleysi veitir líklega meiri innsýn í afstöðu
höfundarins í dag heldur en hugsanir hans og andrúmsloft þjóð-
félagsins um 1938.
En aldarspegill Guðsgjafaþulu lýsir ekki aðeins ákveðnu tíma-
bili. Hversdagslegir hlutir eru allt í einu orðnir ævintýralegir, í
miðri frásögninni erum við skyndilega komnir á annað svið, ein-
hvern veginn ofar stund og stað. Þar er t. d. „apótekarahúsið“.
Þau eru orðin mörg, hin merkilegu hús í skáldskap Halldórs. En
í þeim flokki á vissulega apótekarahúsið í Djúpvík heima. Frá kjall-
ara þess gýs upp „apótekaralykt og er eina hámenníngarlyktin á
Djúpvík“. Þar ræður yfir lyfjum og reseftum virðulegur maður,
sá eini sem kann latínu á þessum stað, „með hvítt skegg sem er
nákvæmlega einsog öldúngar hafa einlægt látið sér vaxa síðan
Drottinn með hvítt skegg skapaði himin og jörð“. En þetta hús er
fjölþættara en svo. Á aðalhæðinni milli kjallara og lofts er nú Góða
Bíó, en á loftinu eða rishæðinni, í fyrrverandi svefnherbergi apó-
tekarahjónanna, er hænsnabúið Eroica; hænsnin „fara út að gánga
á svölunum þegar vel viðrar“.
Slíkt hús - apótek-bíó-hænsnabú í einu, undir stjórn elskulegs
ekkjumanns og gyðings úr Suðurjótlandi - er e. t. v. að nokkru
leyti mynd af þjóðfélagi þar sem ýmsu ægir saman, án venjulegra
takmarka. En framar öllu er þetta líklega táknrænt hús í heiminum,
eða jafnvel handan við heiminn. „Heimsins bíógestur mun sofna
vært á þessum stað, því skammbyssuskothríðin á léreftinu er þögul;
og með þessari þögn er verið að hæða og forsmá göfuga skothríð
heimsins, hið æðsta sem mennirnir þekkja. / ... / Uns stefið úr
Eroica upphefst með básúnustyrk skært og sigurstránglegt á loftinu: