Skírnir - 01.01.1978, Blaðsíða 224
SKIRNIR
222 BERGSTEINN JONSSON
Engan þarf að undra, þótt þingeyingum yrði á fundum sínum tíðrætt um
skattamál. Er hvort tveggja, að slík mál hafa löngum snert kvikuna á skatt-
greiðendum, og á umræddum timum voru þau mál öll komin í svo úrelt
horf að bráðra breytinga var þörf að allra dómi. Þess er getið (bls. 124), að
sýslufundir þingeyinga hafi 1877 í aðalatriðum fallizt á nýlegt álit stjórn-
skipaðrar nefndar, sem fjallaði um frumvarp að nýjum skattalögum. Ef til
vill hefur velvild fundarins í og með stafað af því, að Jón á Gautlöndum átti
sæti í nefndinni. Meira að segja hafði komið í hans hlut að deila í blöðum
um skattamál við „sérfræðing“ eins og fornvin sinn, sr. Arnljót Ólafsson.
Umræða um frjálslyndi í lífsskoðun þingeyinga og annarra islendinga á
nitjándu öld er ekki út í hött. Sannleikurinn er sá, að eins og allur þorri
evrópskra þjóðfrelsismanna („national-liberala"), voru hinir íslenzku fyrst og
fremst þjóðernismenn, en einungis frjálslyndir, þegar það skaðaði ekki þeirra
eigin þjóð eða þjóðerni, eða eigin hagsmuni. í öðrum löndum birtist þetta
einkum i viðhorfi til þjóðabrota og þjóðernisminnihluta innan eigin rikis.
Hér sést þetta ef til vill hvað bezt í viðhorfi til kirkjumála og trúfrelsis, svo
og í afstöðu til mannréttinda vinnuhjúa, þurfamanna eða annarra fátæklinga.
Mælt á borgaralegan kvarða voru konungkjörnu embættismennirnir á Al-
þingi í mörgum málum frjálslyndari en þorri bænda, sem þó hvikuðu ekki
frá ýtrustu þjóðfrelsiskröfum.
Þar sem höfundur ræðir sérvizkulega skipulagshætti Þjóðliðsins og rekur
þá, eins og fleiri, til Einars i Nesi, kemur mér í hug að gaman væri að fá að
vita hvort Einar kunni á sínum tíma, og síðar Steinþór Björnsson og hugsan-
lega aðrir þingeyskir handverksmenn, sem sóttu nám til Danmerkur, að hafa
kynnzt leynireglum eða bræðralögum stéttarbræðra sinna. En lengi lifðu
meðal iðnaðarmanna miðaldalegar reglur og venjur, sem virðast þó að mestu
hafa horfið með tilkomu nútíma stéttarfélaga. Eða getur hugsazt að þessi
kynlega árátta til leynipukurs, sem svo víða örlar á í félagslífi þingeyinga um
eitt skeið, sé til marks um aðdáun þeirra á rússneskum níhilistum og félags-
skipun þeirra?
Ég dreg satt að segja í efa að Ameríkubréf eða heimsnúnir vesturfarar
hafi haft veruleg áhrif á lífsskoðanir heimamanna og áhugamál, og sízt held
ég að slíks hafi gætt til sveita. Sannleikurinn er sá um flest Ameríkubréf, sem
ég hef séð, að þau snúast annaðhvort um að telja viðtakanda á að flytjast
vestur — og það gera þau flest bæði leynt og ljóst — eða vara hann við fagur-
gala vesturfaraagentanna. Ritarar fyrrnefndu bréfanna höfðu sjaldnast áhuga
eða trú á að kostnaði svaraði að reyna að flytja lífshætti nýja heimsins til
átthaganna. Höfundar hinna bréfanna höfðu hins vegar allt á hornum sér
í umkomulausu óyndi sínu vestra.
Margt fleira sem um er fjallað í ritinu mætti tína til og fjölyrða um eða
drepa á. Ég vil að endingu láta þess getið, að mér þykir sérlega vel fara á
þessu samfloti héraðshöfðingjans og goðorðsmannsins Jóns Sigurðssonar á
Gautlöndum og þingmanna hans — umbjóðenda eins og nú bæri víst að
segja. Saga Jóns verður ekki sögð án þess að geti sýslunga hans, og enginn