Morgunblaðið - 18.07.2015, Side 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. JÚLÍ 2015
ilvægur hlekkur í ungu stjórnun-
arteymi Fjarðaáls. Hann færði
liðinu festu og ró, hokinn af
reynslu sem stjórnandi, úrræða-
góður og snjall.
Það var Guðmundur Bjarnason
sem tók á móti mér þegar ég kom
fyrst í heimsókn til Fjarðaáls árið
2009. Mér varð þegar ljóst að þar
fór maður með hjartað hjá fyrir-
tækinu og hjá samfélaginu fyrir
austan. Ég var á leiðinni með fjöl-
skylduna austur og Guðmundur
rúntaði með mér um nágrennið til
að sýna mér bæina. Guðmundur
reyndist mér þannig vel frá því ég
steig mitt fyrsta skref inn í
Fjarðaál. Vinátta hans var mér
mikils virði. Hann var góður leið-
beinandi og góður félagi.
Þrátt fyrir erfið veikindi und-
anfarin ár hélt Guðmundur áfram
að sinna verkefnum fyrir fyrir-
tækið. Það var honum ástríða og
Fjarðaáli ómetanlegt. Fundirnir
með Guðmundi færðust heim til
hans og Klöru á Þiljuvelli og það
var ekki bara rætt um vinnuna.
Við töluðum um menn og málefni,
veiði, fótbolta og fjölskyldurnar.
Gummi hafði einlægan áhuga á
öllu. Hann var mikill húmoristi og
alltaf léttur í lund og það var mikið
hlegið.
Ég á eftir að sakna góðs vinar
og vinnufélaga sárt og fyrir hönd
starfsfólks Fjarðaáls þakka ég
Guðmundi fyrir hans ómetanlega
framlag sem við náum vonandi að
halda á lofti um ókomna tíð. Klöru,
börnum og barnabörnum færum
við innilegar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Alcoa Fjarðaáls,
Magnús Þór Ásmundsson.
Genginn er mikill höfðingi,
Guðmundur Bjarnason, fyrrver-
andi bæjarstjóri Neskaupstaðar
og síðan Fjarðabyggðar, tæpra 66
ára að aldri. Hann hafði lengi
glímt við illvígan sjúkdóm sem að
lokum lagði hann að velli, langt
fyrir aldur fram. Hans verður
lengi minnst vegna forgöngu sinn-
ar um sameiningu byggðakjarna á
Mið-Austurlandi og stofnun
Fjarðabyggðar sem síðan leiddi til
samninga um byggingu álvers
Fjarðaáls við Reyðarfjörð. Sú
framkvæmd sneri við byggðaþró-
un svæðisins og var án alls vafa
landsfjórðungnum mikið fram-
faraspor. En þrátt fyrir alla bar-
áttu hans í þeim málum var það,
að mínu áliti, stolt Norðfirðinga,
Síldarvinnslan hf., sem stóð hjarta
hans næst og alltaf spurði hann
frétta af því hvernig gengi á þeim
bænum allt til hinstu stundar.
Kynni okkar Guðmundar hóf-
ust fyrir tæpum 30 árum þegar ég
hóf störf hjá Síldarvinnslunni þar
sem hann var þá starfsmanna-
stjóri, en hafa verið mjög náin síð-
astliðin 10 ár sem ég hef starfað
hjá Samvinnufélagi útgerðar-
manna Neskaupstað, SÚN. Hann
sat í stjórn þess félags í yfir 30 ár
og stjórnarformaður síðastliðin 10
ár. Hann átti stærstan þátt í að
marka þá stefnu sem félagið hefur
fylgt, sem er í fáum orðum sagt að
verja skuli stærstum hluta þess
arðs sem það hefur af eign sinni í
Síldarvinnslunni til góðra mála
innan fjallahrings Norðfjarðar.
Þess sjást nú glögg merki að sam-
félagið í Norðfirði, skólarnir,
íþróttafélögin, golfið, reiðhöllin-
,sjúkrahúsið, flugvöllurinn,
íþróttamannvirki, útihátíðir,
björgunarsveitin, ferðaþjónusta
og svo mætti lengur telja þá sem
notið hafa fjárstuðnings í ríkum
mæli frá SÚN, bæjarfélaginu og
íbúum til heilla. Mjög góð sam-
vinna hefur verið í stjórn SÚN um
þessi málefni sem Guðmundur
leiddi af sanngirni og réttsýni.
Að leiðarlokum kveð ég Guð-
mund Bjarnason, vin minn, og ylja
mér við minningar um góðan
dreng, Norðfirðing í húð og hár
sem alltaf vildi heimabyggð sinni
það besta. Hafðu þökk fyrir allt og
allt.
Klöru Ívarsdóttur, eiginkonu
Guðmundar, börnum og allri stór-
fjölskyldunni sendi ég og eigin-
kona mín, Ingibjörg, okkar inni-
legustu samúðarkveðjur og
biðjum almáttugan guð að leiða
þau og styrkja.
Freysteinn Bjarnason.
Fallinn er frá vinur minn Guð-
mundur Bjarnason, fyrrverandi
bæjarstjóri Fjarðabyggðar, eftir
hetjulega baráttu við illvígan sjúk-
dóm sem hann laut í lægra haldi
fyrir að lokum. Hans verður sárt
saknað.
Leiðir okkar Guðmundar lágu
saman fyrst á vettvangi sveitar-
stjórnarmála hér í Neskaupstað
þar sem hann var bæjarstjóri frá
árinu 1991 og fram að sameiningu
þess byggðarlags við nágranna
sína í sveitarfélagið Fjarðabyggð
árið 1998. Varð Guðmundur þá
fyrsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar
og gegndi því starfi til ársins 2006.
Ég hóf þátttöku mína á þessum
vettvangi með setu í fræðslunefnd
Neskaupstaðar og þar hófust góð
kynni okkar sem aldrei bar
skugga á.
Sem bæjarstjóri lagði Guð-
mundur mikið upp úr því að þrátt
fyrir að hann væri pólitískt kjör-
inn eða ráðinn þá væri hann bæj-
arstjóri allra bæjarbúa óháð
flokkslínum og allir íbúar hefðu að
honum óheftan aðgang. Vildi hann
vanda allra leysa og hag síns sveit-
arfélags sem mestan. Í eðli sínu
var Guðmundur mikill mannvinur
og varð maður þess vel var í hans
störfum. Hann gat haft hrjúft yf-
irborð á stundum en oftar sneri
mjúka hliðin upp og væntumþykja
fyrir fólki og samfélaginu í sem
víðustum skilningi. Hann var
leiftrandi húmoristi sem gat alltaf
séð spaugilegar hliðar á öllum
málum og þótti gaman að gleðjast
á góðum stundum og var þá oft
hrókur alls fagnaðar. Þá var hann
einnig mannasættir og skildi vel
að taka þarf tillit til fleiri skoðana
en sinna eigin.
Miklar samfélagsbreytingar
áttu sér stað í bæjarstjóratíð Guð-
mundar sem hann var í forystu
fyrir. Bæði fyrri og seinni samein-
ing sveitarfélagsins Fjarðabyggð-
ar og öll sú mikla uppbygging sem
átti sér stað í kringum byggingu
Fjarðaáls. Þar birtust hvað best
mannkostir hans sem stjórnanda.
Víðsýni og vilji til að takast á við
breytingar sem myndu skila
sterkara og betra samfélagi hér á
Austurlandi íbúum þess til heilla
var hans leiðarljós. Vitandi það að
ef á að vera hægt að skapa velferð
þá þarf atvinnulífið að vera sterkt
til að standa undir slíku. Þetta vita
allir sem eru aldir upp á Norðfirði
að fara þarf saman til að gera gott
samfélag. Leiðarljósið í öllu hans
starfi var hvað væri samfélaginu í
Fjarðabyggð, og Austurlandi öllu,
fyrir bestu og fyrir það verður
hans best minnst.
Ég var líka svo heppinn að sam-
starf okkar var ekki bara innan
stjórn- og sveitarstjórnarmála
heldur einnig í kringum annáls-
gerð fyrir kommablótið svokall-
aða. Þar naut Guðmundur sín sem
æðsti marskálkur og var mikið líf
og fjör í kringum hann. Mottó
hans var að næstum því ekkert
væri svo alvarlegt að ekki mætti
gera eitthvað skemmtilegt úr því.
Fyrir hönd bæjarstjórnar
Fjarðabyggðar vil ég þakka Guð-
mundi Bjarnasyni hans góðu störf
fyrir sveitarfélagið í gegnum tíð-
ina og færi fjölskyldu hans okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Nú kveð ég góðan vin og sam-
starfsmann í gegnum árin hrygg-
ur í huga en um leið þakklátur fyr-
ir allt gott sem hann til mín lagði í
orðum og gjörðum. Sendum við
Hildur Vala fjölskyldu hans hug-
heilar samúðarkveðjur.
Minning um góðan mann lifir í
huga okkar allra sem hann
þekktu.
Jón Björn Hákonarson,
forseti bæjarstjórnar
Fjarðabyggðar.
Guðmundur Bjarnason var
einn allra besti og skemmtilegasti
maður sem ég hef kynnst. Leiðir
okkar lágu fyrst saman árið 1990
þegar ég hóf afskipti af sveitar-
stjórnarmálum þá 20 ára gutti.
Guðmundur fór fljótlega að kalla
mig nafna og þótti mér vænt um
það. Þetta ár varð Guðmundur að-
almaður í bæjarstjórn Neskaup-
staðar og ári seinna var hann orð-
inn bæjarstjóri. Ég tók strax eftir
því að Guðmundur var leiðtogi í
húð og hár, fæddur til að stjórna
og gerði það vel alla tíð. Sem ung-
um manni fannst mér gott hvað
hann var tilbúinn að taka mark á
okkur yngra fólkinu í starfinu og
aldrei fann ég annað en hann liti á
okkur sem jafningja. Árið 1997 fór
ég að reka Egilsbúð ásamt félaga
mínum og þá urðu samskipti okk-
ar Gumma enn nánari því skrif-
stofa mín var undir skrifstofu bæj-
arstjóra. Ég heyrði oft þegar
lyklinum var snúið og Gummi kall-
aði á mig: „Nafni minn, ertu
þarna?“ Þá fór ég upp til hans og
við fórum yfir málin. Ekkert endi-
lega málefni bæjarstjórnar því
Guðmundur hafði sannkallaðan
innri áhuga á að allt innan fjalla-
hringsins gengi vel. Hann hvatti
mig til dáða í Egilsbúð, hafði
brennandi áhuga á tónlistinni hjá
Brján og SúEllen, var reyndar
heilmikill rokkari inni við beinið
þó að hann hafi hvorki sungið né
spilað. Reyndar söng hann á
Kommablótunum en bara í upp-
hafs- og lokasöng, hann var ann-
álsritarinn í nærri hálfa öld. Það
var árið 2003 sem mér var boðið að
koma í þennan hóp sem skrifaði og
flutti annálinn á þorrablótinu.
Upphaf þessarar vinnu var alltaf
eins. Gummi og Smári Geirs komu
til mín á milli jóla og nýárs og við
tókum rúnt um bæinn. Í þessum
bíltúrum var alltaf mikið hlegið og
mest að því sem ekki var hægt að
nota í annálinn. Guðmundur var
alveg ótrúlegur húmoristi og er
vinnan við þorrablótin eitt það
allra skemmtilegasta sem ég geri
á hverju ári. Nú síðastliðin tvö
skipti var Gummi ekki með okkur
vegna veikinda en hann kom með
hugmyndir og sló á puttana á okk-
ur þegar honum fannst við á
rangri leið.
Árið 2006 veiktist Gummi al-
varlega, barðist hetjulega og virt-
ist sigra, átti mörg góð ár. Faðir
minn veiktist af samskonar sjúk-
dómi árið 2007 og þá leitaði ég
mikið til Gumma sem reyndist
bæði mér og pabba vel. Gummi
var mér stoð og stytta þegar pabbi
dó, því gleymi ég aldrei.
Gummi vann síðustu árin hjá
Alcoa Fjarðaáli. Þar lágu leiðir
okkar aftur saman og í raun finnst
mér eins og við Gummi höfum
unnið saman síðan ég var tvítugur.
Okkar samband var þó fyrst og
fremst vinasamband og get ég
ekki lýst því með orðum hversu
sorgmæddur ég er nú þegar hann
hefur kvatt. Ég fékk fréttina þar
sem við Gunna mín stóðum í dynj-
andi rigningu á Eistnaflugi. Tár
okkar streymdu eins og rigningin
og enn gráta himnarnir þegar
þetta er skrifað, mér finnst það
eðlilegt.
Elsku vinur, eins og við rædd-
um um daginn þá eru bara tveir
möguleikar að loknu þessu jarðlífi
og við vorum sammála um að báð-
ir væru bara ágætir. Á þessari
stundu kýs ég að trúa þeim seinni
og segi bara bless í bili, nafni
minn.
Innilegar samúðarkveðjur til
allra frá okkur Guðrúnu Smára og
dætrum.
Guðmundur Rafnkell
Gíslason.
Hann stóð við litla eldhúsglugg-
ann í litla eldhúsinu í Egilsbúð
dreyminn á svip, matmaðurinn, og
sagði: Mikið djöfull er þetta góður
þrumari hjá þér, Sigga.
Hann kallaði út af litlu skrif-
stofunni á Reyðarfirði og sagði:
Okkur líkar vel það sem þú ert að
gera. Það er víst í tízku að hrósa
fólki.
Hann stóð og hallaði sér, á sinn
einstaka hátt, í hornið á litlu skrif-
stofunni minni á Hafnarbrautinni
og sagði: Það er svolítið verið að
kvarta undan þér. Þú þykir stund-
um hryssingsleg.
Hann svaraði í síma á sviðs-
stjórafundi í Egilsbúð: Ég er upp-
tekinn á fundi og Sigríður Stefáns-
dóttir færði okkur fulla ferðatösku
af ólöglega innfluttum mat sem
við erum að éta. Það er seigt í okk-
ur gömlu kommunum, sagði hann
eitt sinn þegar veikindi hrjáðu
okkur.
Minningarnar um hinn mæta
mann, Guðmund Bjarnason, eru
óendanlegar. Hann hafði einstaka
yfirsýn yfir það samfélag sem
hann lifði í og var í forsvari fyrir
sem bæjarstjóri. Hann vissi nán-
ast á hverjum tíma hvernig fólki
vegnaði og jafnvel hvernig hvaða
veigar höfðu farið í hvern á
Kommablóti. Hann var maður
þeirrar gerðar sem er ómetanleg
fyrir samstarfsfólk. Hafði gert
það sem hann ætlaði sér, skilað
sinni heimabyggð góðu dagsverki
og var ekki í samkeppni við einn
né neinn. Þess vegna gat hann
gjöfull miðlað af reynslu sinni,
kennt og leiðbeint af stakri snilld.
Hann stjórnaði gjarnan í boðhætti
en sá boðháttur var blanda af
mannviti, hlýju og kerskni.
Það er mikið lán fyrir Neskaup-
stað og Fjarðabyggð að hafa átt
leiðtoga eins og Guðmund Bjarna-
son, að ógleymdum þeim sem
ruddu veginn og stóðu með honum
í baráttunni fyrir samfélagið fyrir
austan. Á engan er hallað þótt ég
nefni í nútímanum Smára Geirs-
son og að sjálfsögðu Klöru.
Persónulega er ég afar þakklát
fyrir samstarfið, samræðuna,
stuðninginn og vináttuna og sendi
hugheilar samúðarkveðjur austur.
Sigríður Stefánsdóttir.
Um þetta leyti árs fyrir all-
nokkrum árum hefðum við Guð-
mundur ásamt fleirum verið að
koma úr veiði í Selá í Vopnafirði
eftir að hafa átt þar gleðiríkar og
gefandi stundir í góðum fé-
lagsskap.
Iðulega var mikil stemning í
kringum þær samverur og þess
ríkulega notið þegar sagnamaður-
inn Guðmundur fór á kostum. Yfir
andlit húmoristans breiddist
gjarnan tvírætt glettnifullt bros
og stutt í innilegan og dillandi
hlátur.
Ógleymanlegir annálar sem
þeir félagar og tvíeyki Smári
Geirsson og Guðmundur sömdu
og sá síðarnefndi flutti ásamt góðu
listafólki á þorrablótum Alþýðu-
bandalagsins. Ekki laust við að ég
fái enn tak í hryggvöðvana þegar
hugsað er til þeirra stunda.
En samfundir voru margir í
gegnum tíðina og tengdust gjarn-
an sameiginlegu hugðarefni að
gera byggðarlögunum á Austur-
landi til góða. Í því var Guðmund-
ur ötull, heill og óskiptur, óragur
við að brjóta upp og breyta sam-
félagsskipan, ef verða mætti til
hagsbóta fyrir fólk og framtíð
fjórðungs.
Framsýni og fyrirhyggja dró ef
til vill dám af forverum hans,
frammámönnum í Neskaupstað,
sem spöruðu ekki við sig fyrirhöfn
og fjármuni og lögðu allt undir til
þess að reisa nýjar undirstöður og
styrkja stoðir byggðar.
Á vakt Guðmundar sem bæjar-
stjóra urðu gríðarleg umskipti á
stöðu sveitarfélaganna og átti
hann með víðsýni sinni og atorku
drjúgan þátt í þeirri breytingu.
Nefna má sameiningu sveitarfé-
laga er mynduðu Fjarðabyggð,
uppbyggingu álvers Alcoa, göngin
milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðs-
fjarðar, eflingu innviða samfélaga
með margvíslegum hætti. Sá Guð-
mundur sem var, að allt var betra
en að horfa upp á þverrandi byggð
og atvinnulíf.
Að kveikja áhuga Guðmundar á
góðum hugmyndum var næsta
auðvelt verk. Þegar sveitarfélagið
Fjarðabyggð varð að veruleika
var hann opinn fyrir því að vinna
stefnu í málefnum þess og í fram-
haldi sett á laggirnar nokkurs
konar grasrótarhreyfing þar sem
hópur íbúa lagði í því efni sín lóð á
vogarskálar.
Í kjölfarið stefnumótun skilað
af sér er nefndist Framtíðarsýn
Fjarðabyggðar 2010. Hún síðan
samþykkt í bæjarstjórn og eftir
henni unnið. Enn fremur þegar
hugmynd kom fram um að setja á
laggirnar menningarhús í lands-
hlutum í samstarfi við ríkið tók
hann óhikað virkan þátt í þeirri
umræðu. Sú vinna leiddi svo af sér
tilurð menningarmiðstöðva á
Austurlandi og þar af Tónlistar-
miðstöð Austurlands staðsetta á
Eskifirði.
Ég tel að farsælt hafi verið að
Guðmundur tók á sínum tíma að
sér það hlutverk að vera tengiliður
álversins við ríki og samfélag.
Hann var sér rækilega meðvitað-
ur um þýðingu þess enda slíkt
samráð hagur allra. Guðmundur
var ekki einasta góður mann-
þekkjari og glöggur á samfélags-
mynstur heldur var hann viljugur
að hlusta eftir ábendingum og
læra af. Þeir eiginleikar ásamt
öðru gerðu hann jafn öflugan fyrir
Austurland og raun varð á. Hug-
sjónamaður lagði sig fram og dró
ekki af sér, trúr í verkum og fyrir
það minnst.
Þakklátur er ég fyrir einlæga
og gefandi vináttu þar sem aldrei
féll skuggi á. Guð blessi og styrki
eftirlifandi eiginkonu og ástvini
alla.
Davíð Baldursson.
Guðmundur Bjarnason, fyrr-
verandi bæjarstjóri í Neskaupstað
og síðar Fjarðabyggð, stórvinur
minn, stuðnings-, hvatningarmað-
ur og félagi er látinn langt um ald-
ur fram.
Ég tók vel eftir Guðmundi á
fundum á sveitarstjórnarárum
mínum. Alltaf flottur, rökfastur,
mikill diplómat og landsbyggðar-
maður fram í fingurgóma. Snill-
ingur á sviði sveitarstjórnarmála
og vissi allt um þau mál þannig að
margir kollegar leituðu oft ráða
hjá honum.
Þegar ég fór svo í framboð í
hinu víðfeðma NA-kjördæmi
kynntist ég Guðmundi enn betur
og fann þá strax við nánari kynni
að þar fór einnig heiðursmaður
mikill. Með okkur tókst góður vin-
skapur sem varði alla tíð.
Guðmundur var baráttumaður
fyrir sitt bæjarfélag og minnist ég
alveg sérstaklega baráttu hans og
samstarfsmanna fyrir uppbygg-
ingu stóriðju í Reyðarfirði. Það
var unun að fylgjast með þeim fé-
lögum Guðmundi, Smára Geirs og
Þorvaldi Jóhannssyni sem, að öðr-
um ólöstuðum, báru hitann og
þungann af mikilli vinnu sem
leiddi til niðurstöðu sem allir
þekkja vel. Stóriðja á Austurlandi
með fjölda starfa sem hefur breytt
miklu til batnaðar á því svæði.
Guðmundur var líka baráttu-
maður fyrir gerð Norðfjarðar-
ganga og ófáa fundi og mörg sím-
töl áttum við um gerð þeirra
meðan ég var samgönguráðherra.
Við vorum á sömu línu hvað þau
varðar eins og svo mörgu öðru í
landsmálunum.
Sem ráðherra sveitarstjórnar-
mála var ég svo heppinn að fá
Guðmund til að gegna þýðingar-
miklu ábyrgðarstarfi sem var for-
mennska í jöfnunarsjóði sveitarfé-
laga. Það verkefni leysti
Guðmundur afar vel, og svo vel að
aldrei var neinn ágreiningur um
úthlutanir eða úthlutunarreglur.
Yfirburðaþekking hans á mál-
efnum sveitarfélaga og kynni hans
við sveitarstjórnarmenn nýttist
honum vel í þessu ábyrgðarstarfi
sem hann leysti með sömu prýði
og annað sem hann tók að sér.
Innlit Guðmundar á skrifstofu
mína að loknum stjórnarfundum
jöfnunarsjóðs var alltaf sérstakt
tilhlökkunarefni og alltaf kom
hann á sama hæverska háttinn,
fékk leyfi hjá ritara, bankaði, leit
inn og sagðist bara ætla að kasta á
mig kveðju en nú viðurkenni ég
kæri félagi að alltaf tók ég frá tíma
fyrir spjall okkar og beið eftir því
að fá fregnir af fundum stjórnar-
innar. Heimsókn og spjall við Guð-
mund var eins og að tengjast
orkuveitu til að hlaða batterí. Allt-
af var hann ráðagóður og hvetj-
andi.
Oft bar fyrirhuguð nauðsynleg
Norðfjarðargöng á góma og við
fögnuðum vel og innilega öllum
áfangasigrum í því máli og alveg
sérstaklega þegar skrifað var
undir verksamning um gerð
þeirra 14. júní 2013. Þar tók ég
mynd af Guðmundi við að fagna
langþráðu markmiði og minnist
fallegra orða hans við mig á þess-
um hátíðisdegi. Þá mynd munum
við Stefán Þorleifsson taka með
okkur í löngu ákveðinni ökuferð
um Norðfjarðargöng 18. ágúst
2016.
Öllum ættingjum Guðmundar
sendi ég mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur. Góður og farsæll
leiðtogi og heiðursmaður er fallinn
frá. Hvíl í friði kæri vinur og hafðu
þökk fyrir samstarf okkar og vin-
áttu.
Kristján L. Möller
alþingismaður.
Í dag er til moldar borinn kær
vinur okkar Guðmundur Bjarna-
son eftir langa og hetjulega bar-
áttu við illvígan sjúkdóm. Lífið er
oft á tíðum svo óútreiknanlegt og
ósanngjarnt. Sérstaklega finnur
maður til þess á stundu eins og
þessari þegar kær vinur fellur frá
þegar hann hefði átt að sjá fram á
rólegri daga. Við sem eftir sitjum
getum þó glaðst yfir ljúfum minn-
ingum um vin sem gott var að eiga
að og minningum um góðan dreng
sem lagði alla sína krafta í að
styrkja og efla sína heimabyggð,
þar munu verkin lifa manninn.
Það var ekki stíllinn hans Gumma
að gefast upp þrátt fyrir allt mót-
lætið, en nú er hvíldin komin.
Vinátta okkar hófst þegar við
fluttumst til Neskaupstaðar 1984
og ég tók að mér starf bæjar-
stjóra. Gummi var þá starfs-
mannastjóri Síldarvinnslunnar, en
kom inni í bæjarstjórnina 1986 og
lét þar strax til sín taka á mörgum
sviðum. Það þótt því sjálfgefið
þegar ég lét af starfi bæjarstjóra
SJÁ SÍÐU 28
HJARTAVERND
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800
www.uth.is -uth@uth.is Stapahrauni 5, Hfj. - Sími 565 9775
Frímann
s: 897 2468
Hálfdán
s: 898 5765
Ragnar
s: 772 0800
Ólöf
s: 898 3075
ÚTFARARÞJÓNUSTA
HAFNAFJARÐAR
FRÍMANN & HÁLFDÁN
ÚTFARARÞJÓNUSTA