Skagfirðingabók - 01.01.1986, Side 11
LILJA SIGURÐARDÓTTIR f ÁSGARÐI
Þau Sigurður og Sigurlaug voru bæði af skagfirzkum ættum.
Hún var af hinni kunnu Djúpadalsætt, sögð dugleg og óvenju-
lega framtakssöm kona. Bjuggu þau rausnarbúi á Víðivöllum og
voru þekkt að gestrisni og greiðasemi. Sigurður sonur þeirra
tók við búskap 1878. Hann var kvæntur Guðrúnu Pétursdóttur
frá Reykjum í Tungusveit. Hún var röskleikakona, ákaflega
gjafmild, glaðvær og vinsæl. Hafði hún lært matreiðslu hjá
dönskum hótelhaldara á Akureyri og kunni því meira til heim-
ilisstarfa en algengt var. Sigurður var dulur í skapi, hlédrægur,
en hlýr í viðmóti. Hann var vinnugefinn og sérlega verkhygginn
maður, og virðist sá eiginleiki áberandi hjá afkomendum þeirra
hjóna. Fór mikið orð af dugnaði og höfðingsskap þeirra og
heimilið talið til fyrirmyndar jafnt úti sem inni. Mjög var gest-
kvæmt hjá þeim. Víðivellir eru í þjóðbraut, og gistu þar oft útlend-
ingar og annað langferðafólk. Húsakostur var þar meiri og betri en
víðast hvar og húsbændurnir þekktir að rausn og manngæðum.
Sigurður og Guðrún urðu fyrir því mótlæti að missa þrjú
fyrstu börn sín á ungbarnsaldri. En 26. febrúar 1884 fæddust
þeim tvíburar, Lilja, sem hér verður nokkuð frá sagt, og Gísli,
bóndi á Víðivöllum og lengi hreppstjóri í Akrahreppi. Var
fæðingardagur þeirra jafnan hátíðlegur haldinn sem hinn mesti
gleðidagur, meðan Guðrún lifði. Lilja og Gísli voru tengd
sterkum systkinaböndum og áttu mikið saman að sælda um
ævidagana. Þau voru lík í mörgu, hlýleg glettni og spaug var
þeim oft tiltækt, einkum Gísla. Þau voru hjálpsöm, heilráð og
úrræðagóð, þegar til þeirra var leitað, enda nutu þau í ríkum
mæli vinsælda samferðamanna sinna.
Næst í systkinaröðinni var Guðrún, fædd 1886. Hún varð
húsfreyja á Sleitustöðum, gift Sigurði Þorvaldssyni kennara.
Hann er nú á Héraðssjúkrahúsinu á Sauðárkróki, 102 ára að
aldri.1 Þau eignuðust sjö börn, sem upp komust, og búa margir
afkomendur þeirra á Sleitustöðum. Er þar kominn þéttbýlis-
1 Sigurður Þorvaldsson er fæddur 23. janúar 1884.
9