Skagfirðingabók - 01.01.1986, Qupperneq 17
LILJA SIGURÐARDÓTTIR í ÁSGARÐI
með hvítu lérefti eða festi það á veggi, nældi svo í það blöð og
greinar, og hafði kerti í stjökum og blóm. Þó að ekki væri allt til
taks, sem hún hefði getað notað, tókst henni ætíð að prýða
Guðshúsið eins og hæfði á sorgarstund.
Eftir að Lilja kom frá Danmörku, var farið að leita til hennar
í veikindum. Ekki eingöngu vegna þess, að hún hafði lært
dálítið, heldur líka vegna þess, hvað var gott að biðja hana. Hún
var boðin og búin að hjálpa eftir beztu getu. Sjálf segir hún um
þetta: „Hef ég oft getað orðið að nokkru liði, þeim sem sjúkir
voru, og heimilum þeirra. Eg hefi verið yfir veikum á flestum
bæjum í hreppnum og staðið við marga dánarbeði, og nokkrum
börnum hefi ég tekið á móti.“ (H.B.)
Berklar voru afar skæðir hér á landi á fyrstu áratugum
þessarar aldar og fátt til varnar. Þegar Lilja var um þrítugsaldur,
var ung kona á Gilsbakka í Austurdal að berjast við þá veiki.
Hún hét Friðrika Sveinsdóttir, unnusta Hjörleifs Jónssonar,
sem þar bjó langa ævi. Þau eignuðust son 13. nóv. 1917, en
Friðrika lézt 20. des. Drengurinn, sem hlaut nafnið Friðjón, var
aðeins sjö marka þungur og mjög lasburða. Heimilishagir voru
þannig á Gilsbakka, að Hjörleifur bjó með aldraðri móður
sinni, Aldísi Guðnadóttur. Hjá þeim voru í húsmennsku með
börn sín hjónin Guðrún, yngsta systir Aldísar, og Brynjólfur
Eiríksson. Stundaði hann kennslu. Tók Guðrún þennan óburð-
uga frænda sinn að sér til að byrja með og tókst með frábærri
natni að halda í honum lífinu, en litlar voru framfarirnar. Ekki
hafði hún tök á að hafa hann til lengdar, því að hún eignaðist
yngsta barn sitt 11. júlí 1918. Tók þá Aldís það til ráða að biðja
Lilju fyrir Friðjón. Reiddi Guðrún hann út í Víðivelli, vafinn
innan í svart sjal. Tók Lilja við honum í bæjardyrunum. Var
hann þá þrjátíu vikna gamall, og enn nær dauða en lífi að því er
virtist, en við nákvæma hjúkrun og vakandi umhyggju Lilju fór
hann að dafna og ná sér á strik í lífinu. Upp frá því fylgdust þau
að. Var samband þeirra mjög gott, og hefur koma Friðjóns
valdið straumhvörfum í lífi Lilju. Meðan Friðjón var barn, tók
15