Skagfirðingabók - 01.01.1986, Síða 31
LILJA SIGURÐARDÓTTIR í ÁSGARÐI
um frábæran dugnað og kjark konu, sem á sjötugsaldri leggur í
það stórvirki að reisa af grundvelli nýjan bæ, nýtt býli. Þó er
annað umtalsverðara. Liljusporin eru víðar en á Hvanneyri.
Hún hafði kynni af mörgum börnum og lét sig þau miklu
varða. Fræ, sem sáð er í barnssál, getur borið margfaldan ávöxt
um ófyrirsjáanlegan tíma.
Þegar ég var að skrifa þetta, spurði ég Snorra Ingimarsson,
hvernig honum hefði fundizt að vera barn hjá Lilju. Hann
svaraði því svo, að hann hefði ekki áttað sig á því fyrr en hann
var fullorðinn maður, hvað áhrif Lilju á þroska hans og mótun
hefðu verið mikil. „Þessi kona hefur gífurlega sterk tök í mér
ennþá“.
Ég sá Lilju fljótlega eftir að ég fluttist hingað í Akrahreppinn
1951. Hafði þó heyrt hennar getið, því jafnvel barn austur í
Þingeyjarsýslu heyrði talað um Víðivallagarðinn og Skagfirð-
ingabúð á Þingvöllum.
Ég kynntist Lilju, þegar hún var um sjötugt, orðin lúin af
erfiði lífsins, en þó í raun og veru í fullu fjöri. Hún var ákaflega
sterk persóna, viljasterk, kjarkmikil, hafði skarpa dómgreind og
eflaust góðar gáfur, var frjálslynd og mjög hreinskilin. Hún tók
sér aldrei í munn ómerkilegt tal um fólk og viðmót hennar
gagnvart öðrum var því líkt, að hún hefði sífellt í huga orðin
„aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Lilja var skrafhreifin og sagði
vel frá. Mér þótti alltaf skemmtilegt að hlusta á hana, hvort sem
hún ræddi um menn eða málefni.
A áttræðisafmæli Lilju hafði Kvenfélag Akrahrepps boð
henni til heiðurs í félagsheimilinu Héðinsminni. Var þar margt
fólk saman komið, börn og fullorðnir. Margir ávörpuðu Lilju
úr ræðustóli, og var auðfundinn sá hlýi hugur, sem allir báru til
hennar. Mér fannst hann anda um húsið þennan dag. I veizlulok
talaði Lilja og flutti þá hundrað vísur, eins og mæltar af munni
fram. Rakti hún þar minningar sínar í fáum dráttum. Ekki
nefndi hún nein þau verk, sem hún hafði komið í framkvæmd.
Hún hafði þó verið sæmd riddarakrossi fyrir störf sín, en á því
29