Skagfirðingabók - 01.01.1986, Page 32
SKAGFIRÐINGABÓK
lét hún lítið bera. Það var þakklæti, sem mest kom fram í
þessum einföldu vísum. Upphafið var þannig:
Færa vildi ég fyllstu þakkir
fyrir allt mér veitt og hlotið,
áttatíu ára ylinn,
er ég hér á jörð hef notið.
Borin var ég barn á örmum
bezta föður, kærrar móður.
Lék ég mér með ljúfum systrum,
leidd var ég af einkabróður.
Tvær síðustu vísurnar voru mest til Friðjóns:
Með ástarþökkum alla kveð ég
og enda bind á fátæk ljóð,
en fóstra mínum færa vildi ég
fyrst og síðast þakkaróð.
Hve títt ég sá þig, sjálfum gleymdir,
en sækja reyndir mömmu ljós.
Einhvern tíma elsku vinur
eflaust færðu mikið hrós.
Fóstursonurinn var sá, sem hún bar mest fyrir brjósti. Hann
veitti henni mesta gleði og gaf lífi hennar fyllingu. Þau voru
bundin hvort öðru óslítanlegum böndum. Sannarlega var
Friðjón Lilju eins og bezti sonur, hugsunarsamur og eftirlátur.
Friðjón var ágætisdrengur, glaðlyndur að eðlisfari og sérlega
orðheppinn. Manni verður glatt í geði að rifja upp sumt, sem
hann sagði, þegar honum tókst vel upp að lýsa einhverjum
atburði. Friðjón hafði mikið yndi af ljóðum. I föðurætt hans er
margt um góða hagyrðinga, og þó að hann fengizt ekki við að
yrkja, svo vitað sé, kunni hann ógrynni af kvæðum og vísum.
Hann var mikið náttúrubarn, hefur trúlega sótt það til föður
30