Skagfirðingabók - 01.01.1986, Page 77
AF SOLVEIGU OG SÉRA ODDI
er, hve stóran hluta jarðarinnar hann nytjaði. Miklibær liggur
um þjóðbraut þvera, og vafalaust hafa margir leitað þangað eftir
greiða, auk þess sem sóknarfólk átti erindi við klerk. A hinn
bóginn er næsta víst, að búskapur Odds hefur orðið fyrir
þungum áföllum af völdum fjárkláðans og móðuharðindanna,
að ekki sé fleira talið.
Sr. Oddur tók við Miklabæ vorið 1768, og innan stokks réð
ráðskona hans, Solveig. Um hana er ekkert vitað, en lausleg
munnmæli sveitfesta hana út að austan, önnur í Dölum fram. Á
þeim er ekkert að byggja, og athuganir á skýrslum presta frá 18.
öld hafa ekkert leitt í ljós um uppruna hennar eða ætt. I tæpan
áratug bjó sr. Oddur ókvæntur á Miklabæ, en árið 1777 var
hnappheldan lögð á klerk. Sr. Hálfdan mágur hans var 13. maí
um vorið í Goðdölum fram og gekk frá trúlofun þeirra Odds og
Guðrúnar Jónsdóttur prests, Sveinssonar í Goðdölum, og síðar
um sumarið var haldið brúðkaup þeirra á Hólum. Hlaut nú
Solveig að víkja úr húsmóðurhlutverki, en varð kyrr á Miklabæ
og tók fásinni mikið ef marka má sagnir, og 11. apríl vorið eftir
skar hún sig á háls. Sagnir eru um, að hún hafi áður reynt að
svipta sig lífi, en jafnan voru hafðar á henni gætur. Þess hefur
m.a. verið getið til, að Solkupyttur í Gegni heiti svo, vegna þess
að þar hafi ráðskona reynt að drekkja sér,16 en Gegnir er síki
undan landi Miklabæjar, forn farvegur Héraðsvatna. En allt er
þetta óljóst, og óvíst er um sannleiksgildi þessara sagna. Þeir
sem fóru sér sjálfir áttu ekki vísa gröf í vígðum reit, og þrátt
fyrir tilmæli, að sagt er, fékk Solveig ekki leg í Miklabæjargarði.
Og mánuði eftir sjálfsmorð hennar, þann 11. maí 1778, fæddist
fyrsta barn prestshjónanna, Gísli, sem síðar varð prestur á Ríp
og til Reynistaðarþinga. Ingibjörg Oddsdóttir fæddist um 1781,
en ekki komust upp fleiri börn þeirra. Ingibjörg átti Jón
Jónsson prest á Auðkúlu.
Án efa hefur klerkur tekið sér nærri voveiflegan dauðdaga
16 Sbr. Benedikt Gíslason frá Hofteigi: Fólk og saga (Ak. 1958), bls. 86.
75