Skagfirðingabók - 01.01.1986, Síða 106
SKAGFIRÐINGABÓK
ráð hennar. En það sér Guðlaug að rauð rák var á hálsinum á
Þorsteini þar sem Solveig hafði myndað til skurðarins. Síðan
spyr hún Þorstein hvað hann hafi dreymt; hann sagði að sér
hefði þótt Solveig koma til sín og segja að ekki skyldi sér
þetta duga og aldrei skyldi hann vísari verða hvað hefði
orðið um séra Odd, þar með hefði hún lagt á sig hendur og
ætlað að skera sig á háls með stórri sveðju og kenndi hann
enn sársaukans er hann vaknaði. Eftir það hætti Þorsteinn
þeim ásetningi sínum að grafast eftir hvar prestur væri niður
kominn.
Lítið hefur borið á Solveigu síðan. Þó hafði séra Gísli sem
síðast var prestur að Reynistaðarklaustri (1829—1851), sonur
séra Odds, sagt frá því að fyrstu nóttina sem hann svaf hjá
konu sinni hefði Solveig ásótt sig ákaflega svo hann hefði
þurft að hafa sig allan við að verjast henni, en hann var
heljarmenni til burða sem faðir hans. Aðrar sögur hafa ekki
farið af Solveigu.15
Þjóðsöguna hefur í mörgu borið frá þeirri atburðarás, sem
lesin verður úr heimildum. Aðdragandi atburða er óljós og
framvinda mála hröð; sagan gerist öll á einu hausti. Persónulýs-
ing Solveigar er til þess fallin að skýra, hver fordæða hún verður
síðar. Okunnugleiki skrásetjara veldur því, að Guðlaug Björns-
dóttir er sögð systir séra Snorra á Húsafelli, hins þjóðkunna
klerks, en í raun réttri var hún systir séra Snorra á Hjaltastöð-
um.16 I heimildum hverfist frásögnin um séra Odd, en hér er
hlutverkum snúið við. Stúlkan Solveig, sturluð, og draugurinn,
fordæðan Miklabæjar-Solveig er kjarni sögunnar, ásókn hennar
og illska er mögnuð með endurtekningum, þegar Þorsteinn
vinnumaður reynir að grafast fyrir um örlög húsbónda síns.
15 íslenzkar þjóðsögur og œvintýri, I (Rvík 1980), bls. 284-286. Árni Böðv-
arsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna.
16 Sbr. ritgerð Guðna Jónssonar í Skírni 1940 (Rvík), Sannfrxði íslenzkra
þjóðsagna, bls. 38. Sjá einnig Blöndu, IV, bls. 71.
104