Skagfirðingabók - 01.01.1986, Síða 113
AF SOLVEIGU OG SÉRA ODDI
skyggja tók, og fólk þorði ekki í milli bæja nema fleiri
væru saman. Séra Oddur, sem áður hafði verið hinn mesti
kjarkmaður, gerðist nú svo lítilsigldur, að hann gat aldrei
einn verið eftir að skyggja tók. Hafði hann orð á því við
vini sína, að sennilegast þætti sér að Solveigu mundi takast
að efna á sér hótun sína. Sóknarfólk séra Odds vissi um
þann veikleika hans, að hann óttaðist að vera einn á ferð,
er skyggja tók, og var það orðinn fastur siður að bjóða
honum fylgd, hvar sem hann var á ferð, og jafnvel að láta
fylgja honum, þótt hann teldi þess enga þörf. Hafði og
kona hans beðið menn um það. Mátti því kalla, að hann
væri aldrei einn á ferð og allra sízt, er skyggja tók. Liðu
svo fram tímar. Kallað var hjónaband þeirra séra Odds og
Guðrúnar gott, og eignuðust þau nokkur börn saman, en
þunglyndi prests ágerðist því meir sem lengra leið . . . .16
„Guð varðveiti oss“ segir sr. Magnús á Höskuldsstöðum
þegar hann færir til bókar frásögn sína af sjálfsvígi Solveigar. Af
orðanna hljóðan verður ráðið hver ógn mönnum stóð af slíkum
atburðum, enda er ekki einleikið, að dauða Solveigar er hvergi
getið í opinberum gögnum. Sr. Oddur hefur ekki fært stafkrók í
kirkjubók sína um þennan atburð, enda fékk Solveig engan
yfirsöng. Hins ber að geta, að skemmdarverk hefur verið unnið
á kirkjubókinni. Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður segir,
að úr henni
hefur vandlega verið klippt ferhyrnt stykki úr einu blað-
inu einmitt í árinu 1778 og á þeim stað, þar sem láts
Solveigar hefði átt að vera getið, og hefur skemmdarverk
þetta unnið einhver sá, er viljað hefur afmá nafn Solveigar
úr tölu heiðarlegs fólk[s] þar í prestakallinu, ekki viljað
láta það sjást þar (!) en hefur áunnið það eitt, að föðurnafn
Solveigar þekkist nú ekki.17
16 Sama heimild, bls. 7—8.
17 Blanda, IV, bls. 71.
111