Skagfirðingabók - 01.01.1986, Síða 120
SKAGFIRÐINGABÓK
Sr. Björn Jónsson prestur á Miklabæ bað þá Sigurð og
Jóhannes að hafa ekki hátt um kistu þessa, en þó komust á kreik
ýmsar sögusagnir, t.d. að lík sr. Odds hafi legið á grúfu ofan á
kistunni.6 — Og enn hafði Solveig ekki fengið kirkjulega
blessun.
Sr. Lárus Arnórsson tók við kalli sr. Björns árið 1921, og
vorið 1937 gekkst hann fyrir því, að bein þau, sem þeir Sigurður
og Jóhannes fundu rétt fyrir jól 1914 yrðu grafin upp og
jarðsungin. Aðdragandi þess var harla sérstæður. Þann 11. júní
1937 hringdi Pétur Zophoníasson ættfræðingur í Lárus og
spurði, hvort hann vildi veita aðstoð „til þess að jarðneskar
leifar Solveigar yrðu grafnar upp á Miklabæ og jarðaðar í
kirkjugarðinum að Glaumbæ.“7 Pétur kvað beiðni þessa efnis
hafa komið fram á miðilsfundum, bæði frá Solveigu sjálfri og
verum, „er báru hag hennar fyrir brjósti ... .“ Verur þessar
kvöddu þrjá menn til verksins, þeirra á meðal sr. Lárus og
Pétur. „Eg tjáði mig þegar fúsan til að leggja mitt lið til þessa
verks,“ segir sr. Lárus, „enda taldi ég það siðferðilega skyldu
mína að daufheyrast ekki við slíkri beiðni, en tók jafnframt
fram, að ég setti að skilyrði að leyfi biskups fengist til, enda
væri mér ókunnugt um heimild mína til þess arna.“ Pétur hafði
snör handtök syðra, og 23. júní var Zophonías sonur hans
kominn norður „að hrinda málinu í framkvæmd.“ Og þá hófst
leitin að beinunum.
Leiðisþúfurnar í Miklabæjargarði voru hver annarri líkar og
teikningar vitaskuld engar til. Sr. Lárus átti því úr vöndu að
ráða, en varð til happs, að innan seilingar var sonur konu
þeirrar, sem lá að hans mati nánast við hlið Solveigar. Auk þess
leitaði hann til Sigurðar í Stokkhólma, sem forðum daga hafði
6 Sjá t.d. Rauðskinrw hina nýrri, I (Rvík 1971), bls. 156-158.
7 Hér er stuðzt við áðurnefnda grein sr. Lárusar í Morgni 1937, og er að öðru
leyti byggð á henni frásögnin af uppgrefti og flutningi beinanna, nema
annars sé getið.
118