Skagfirðingabók - 01.01.1986, Síða 121
AF SOLVEIGU OG SÉRA ODDI
grafið niður á kistuna gömlu. Þeim bar ekki saman, og lét Lárus
grafa eftir fyrirsögn sonarins, en ekkert fannst, „þar var í
garðinum með öllu órótuð jörð.“ Sr. Lárusi þótti málum komið
í óefni, því Sigurður var farinn á brott til vörzlu við Héraðs-
vötn. En einum degi síðar eða tveimur dró til tíðinda. Þorsteinn
Björnsson á Hrólfsstöðum var í vegavinnu úti í Blönduhlíð:
Bar þá svo til, að ég lagði mig að afloknum morgunmat,
eins og ekki er í frásögur færandi. Eg veit ekki, hvort mér
hefur runnið í brjóst, en ég efast um það. En hvort sem ég
hef verið vakandi, sofandi eða mókandi, þá sá ég ekki
betur en inn í tjaldið til mín kæmi maður, hár og mikill,
með svarta skeggbrodda, sem mikið bar á. Mér fannst
hann segja við mig: „Þú gerir það sem þú verður beðinn
um“. Meira var það ekki.8
Sr. Lárus greinir frá draumnum með líkum hætti, en hnykkir
þó heldur á:
Leið svo ein nótt eða tvær. Þá dreymir Þorstein á Hrólfs-
stöðum, að til hans kemur maður hár og herðibreiður og
var festa og ró yfir svipnum. Þykir honum maðurinn vera
sr. Oddur á Miklabæ. Þorsteini finst sr. Oddur segja við
sig: „Eg sé á þér, að þú ætlar að gera þetta fyrir okkur“.
Þorsteini þótti sr. Oddur eiga við það, að hann legði lið
sitt að því, að leita beina Solveigar.
Sr. Oddur gerði sem sagt vart við sig, að mati sr. Lárusar og
víslega fleiri, til þess að bein Solveigar yrðu fundin og greftruð.
Draugurinn Miklabæjar-Solveig er horfinn, fordæðan, en stúlkan
Solveig á hugi manna, samúð og vorkunnsemi. Sökin knýr sr.
Odd til að taka þátt í leitinni, eða hvað skyldu menn hafa haldið?
8 Valgeir Sigurðsson: Gróf upp bein Solveigar d Miklabœ og kom þeim í vígða
mold. Rætt við skagfirzk hjón, sem eyða ellinni á Hrafnistu. Sunnudagsblað
Tímans, 1972, bls. 684—688. Sjá bls. 684—5. Vert er að benda á
ritgerð Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 1962, bls. 540—545,
Sagan af séra Oddi og Miklabxjar-Solveigu.
119