Skagfirðingabók - 01.01.1986, Page 142
SKAGFIRÐINGABÓK
aftur út að Lónkoti með hestana eins og ráð var fyrir gert og
minntist ekki á neitt, enda vissi hann ekki annað en þetta hefði
verið góður og skemmtilegur túr. Þetta gerðist sunnudaginn 13.
ágúst.
En það er ekki fyrr en mörgum dögum síðar, að bóndinn,
sem fengið hafði heimsókn þeirra félaga, tekur hnakk sinn og
hest og ríður fram að Hofi til að ráðfæra sig við bónda þar.
Síðan gerðu þeir aðvart að Bæ til hreppstjórans og kærðu mig.
Morguninn þann fæ ég vísbendingu á dulmáli, sem ég skildi
svo, að nú væri von á gestum, og síðdegis þann sama dag rennir
í hlaðið vörubíll með sýslumann og fjóra leitarmenn. Atti nú
heldur en ekki að ganga í skrokk á mér. Var leitað af miklum
krafti og öllu umturnað, en ekkert fannst. Sýslumaður var alveg
umhverfur að finna ekkert, hvernig sem leitað var. En það var
ekki von, því ég hafði borið tunnuna og tækin fram í sjó og
sökkti þeim þar niður. Það sem ég átti soðið, faldi ég í dýi suður
og upp frá bænum. En það var erfitt að koma þeim í skilning
um, að engin tæki væru til. Þeir þvældu með mig í 2 eða 3 daga
og á endanum gat ég náttúrulega ekki annað en viðurkennt
þessar tvær flöskur og eitthvað smávegis til viðbótar, en ég
reyndi að ljúga mig út úr þessu sem bezt ég gat. Eg sagðist hafa
hent pípunni í lónið, sem var fullt af sefi og öll tormerki á að
finna hana aftur.
Sýslumaður hafði fengið símskeyti frá hreppstjóranum í Bæ
kl. 11 árdegis og var kominn sjóleiðina til Hofsóss fjórum
tímum síðar. Þar setti hann rétt í málinu kl 15.20 og yfirheyrði
fyrst bóndann, sem kært hafði:
Yfirheyrður smakkaði áfengið hjá . . . og var það svipað
að styrkleika og venjulegt brennivín og mjög líkt á bragð-
ið, glært á að líta, en afkeimur af því. Þeir félagar höfðu
tvær þriggjapela flöskur með sér, og hyggur yfirheyrður,
að þær hafi verið hátt upp í það fullar.
Er réttarhaldið hafði staðið í eina og hálfa klukkustund, var
140