Skagfirðingabók - 01.01.1986, Page 161
SAMGÖNGUR Á SJÓ VIÐ HAGANESVÍK
Jörundur var í föstum áætlunarferðum að sumarlagi frá maí-
byrjun til septemberloka þau sex ár, sem skipið var hér í
notkun. Skipið lagði ávallt upp frá Akureyri, ýmist vestur til
Skagafjarðar- og Húnaflóahafna eða austur til Raufarhafnar,
Þórshafnar eða Seyðisfjarðar. Kom Jörundur jafnan við á Haga-
nesvík í vesturferðunum og hafði þá fjórtán áætlunarviðkom-
ur 1909 og 1910, hvort ár, en eftir það voru tíu viðkomur árlega
1911-14.
Annars var ferðum Jörundar hagað sem hér segir:
Árið 1909 kom hann á 24 staði milli Sauðárkróks og Raufar-
hafnar.
Árið 1910 staldraði skipið við á 31 stað milli Blönduóss og
Seyðisfjarðar.
Árið 1911 hafði skipið viðdvöl á 35 stöðum milli Lambhús-
víkur við Húnaflóa og Seyðisfjarðar.
Árið 1912 voru viðkomustaðir 36 frá Hvammstanga til
Seyðisfjarðar.
Árið 1913 kom Jörundur á 31 höfn og hafnleysu frá
Hvammstanga til Seyðisfjarðar.
Árið 1914 sigldi skipið til 22 plássa milli Kálfshamarsvíkur og
Þórshafnar. Akureyri er hér talin með viðkomustöðum.
Jörundur var nokkuð kominn til ára sinna, þegar hann var
keyptur hingað, en þrátt fyrir það entist hann til þessara ferða í
sex ár. Nokkrum sinnum varð skipið fyrir vélarbilun í þessum
ferðum, og mun það einkum hafa verið gufuketillinn, sem var
orðinn lasburða, en alltaf barst hjálp, og skaði hlauzt ekki af.
Og hvað sem því leið áttu Norðlendingar ekki annarra kosta
völ á þessum árum, eins og berlega kom í ljós á sýslufundi
Skagfirðinga árið 1914:
Að þar til gefnu tilefni lætur sýslunefnd í ljósi það álit sitt
að gufubáturinn Jörundur verði að teljast hæfur til að
halda uppi innfjarða-ferðum á yfirstandandi ári, á líkan
hátt og hingað til.
159