Skagfirðingabók - 01.01.1986, Side 173
FÁEIN ORÐ UM SÍÐASTA FÖRUMANNINN
þegar hann skar sig í höndina, djúpan skurð í lófann. Hann var
að raka gærur. Það var strax sóttur læknir, sem tók hann með
sér inn í Hofsós, en hvort ígerð fór í það veit ég ekki. En eins og
allir vita eru svona skurðir lengi að gróa, og þurfti enga ígerð til,
þó full ástæða væri fyrir hendi þar sem hráinn var. En eftir þetta
varð höndin máttlaus. Samt baslaði hann við heyskap eftir þetta
frammi í Arnarstaðahlíð og á Þverá og hingað og þangað, eftir
því sem honum þótti gott í það og það skiptið og vinveittir bæir
voru til staðar. Maðurinn minn fóðraði t.d. fyrir hann kindur
og sótti svo að vetrinum heyið. Þetta voru smáfúlgur, sem
eðlilegt var.
Sveinn vildi vera einhvers staðar þar sem hann gat verið í
friði. Sjálf heyrði ég hann ekki blóta eða tala illa um fólk, þótt
ég vissi að hann gerði það sums staðar. Hann var fréttafróður,
og var þá ekki gott að fá fréttir, hvaða nafni sem þær nefndust.
Þegar hann fór síðustu hringferðina, kom hann til okkar að
Róðuhóli, sárlasinn og illa til reika. Eg þurfti að láta hann fara
úr öllu og hátta ofan í rúm, og hafði ég ekki annað rúm en
húsbóndans, því húsplássið var lítið. Eg varð að brenna sumt af
fötum hans, það sem ekki var hægt að þvo eða hreinsa á annan
hátt. Þegar hann er búinn að vera tvær nætur og er að hugsa um
að fara á kreik, treystir hann sér ekki til að klæðast. Segir hann
þá: „Kristján minn, viltu ekki lofa mér að vera eitthvað
lengur?“ Það var auðvitað sjálfsagt. Svo er það morguninn, sem
hann ætlar að fara. Þá eru yngstu börnin eitthvað á stjái í kring
um hann og hefir honum þá komið til hugar að gleðja þau eitt-
hvað, en eins og gefur að skilja hefir líklega lítið verið til. En
hann gat ekki betur gjört, gaf öðru þeirra tvær myndir af sér, en
hinu budduna sína.
Það voru margar góðar konur í Sléttuhlíð, sem hlynntu að
Sveini, þegar hann átti erfitt, t.d. tengdamóðir mín, Valgerður
Jónsdóttir, sem bjó í Keldnakoti og á Syðsta-Hóli með Katli
syni sínum. Oft þurfti hún að þrífa hann hátt og lágt, og var
hann þakklátur fyrir.
171