Skagfirðingabók - 01.01.1987, Blaðsíða 140
SKAGFIRÐINGABÓK
Vorið 1941 réðst Sveinn bróðir minn að Flatatungu. Hafði ég
milligöngu þar um og sótti málið allfast, enda mátti segja, að
ekki væri knýjandi þörf fyrir hann. En ég hugsaði gott til
félagsskaparins. Við unnum iðulega saman, sváfum saman í
rúmi í baðstofunni í Flatatungu, og nú höfðu gömlu konurnar,
Ingibjörg og Veiga, fengið nýjan mann til að nöldra í, en Sveinn
tók öllu með jafnaðargeði. Við styttum okkur oft stundir við að
tefla og gátum að síðustu stundað þá íþrótt við vinnu okkar,
höfðum taflið aðeins í huganum. Sjaldan bar ég sigurorð af
Sveini í skákíþróttinni, en þó voru úrslit aldrei alveg ráðin
fyrirfram. Eins atviks vil ég geta frá þessum árum, en þá tók
ég upp á að kveða Númarímur í matartímunum, en hlustendur
mínir voru hjónin Sigríður og Oddur, og höfðu þau einhverja
ánægju af þessu, svo og ég sjálfur. Þarna voru ýmsir hættir, og
ég varð víst stundum að semja lögin jafnharðan.
Flatatunga er landmikil jörð og smalamennska því allerfið,
einkum á svokölluðum Tungudal. Féll það jafnan í hlut okkar
Sveins og Þorsteins Einarssonar í Tungukoti að smala hann á
haustin. Fórum við þá gjarnan ofan um miðjar nætur og riðum í
svartamyrkri af stað fram dalinn, sem var frekar seinfarinn á
hestum. Ungur og duglegur hundur, Valur að nafni, fylgdi mér
jafnan í þessum ferðum. Þegar fram í dalbotninn kom, skildu
leiðir. Eg gekk upp í Skálar, en hlutverk okkar Vals var að
stugga öllu fé niður, sem á vegi okkar yrði, og dáðist ég að elju
hundsins í þessum ferðum. Hann virtist óþreytandi. Aldrei man
ég að neitt óvænt bæri til tíðinda í þessum gangnaferðum, en oft
var ég þreyttur, þegar þeim lauk. Og svo hófst hin leiðinlega
sláturtíð. Það fór alltaf í taugarnar á mér, þegar verið var að
velja líflömbin, mér fannst þau aldrei vera nógu mörg. Eitt sinn
sem oftar unnum við Oddur saman við heimaslátrun. Oddur
rotaði, notaði til þess hnall og grímu og skar síðan höfuðin af,
en ég hrærði í blóðinu. Gekk þetta verk allt samkvæmt áætlun
þar til kom að gömlum stórhyrndum hrút. Þá taldi Oddur, að
hnallurinn myndi ekki duga og greip stóra haglabyssu, sem
138