Skagfirðingabók - 01.01.1987, Blaðsíða 178
SKAGFIRÐINGABÓK
þeir sáu, að báturinn þoldi ekki mastrið, og þeir felldu það. Þá
var særokið svo mikið, að þeir sáu einungis efri hlíðar Tinda-
stóls. Nú gripu þeir til ára og sat Ingvar í afturrúmi, reri á bæði
borð og annaðist austur þess á milli, en í framrúmi reri Þórodd-
ur til hlés, en Hólmar á kulborða, og reyndu þeir að hálsa upp í
báruna. Með þessu móti komust þeir í landvar út á Reykja-
strönd og tóku land utan við Skarfasteina hjá Fagranesi. „Við
börðum upp að Fagranessandinum rétt eftir að komið var upp
fyrir Kirkjuflösina. Þar settum við bátinn, sem var talsverð
þrekraun fyrir tvo sjóhrakta unglinga. Þóroddur gekk um með
hendur fyrir aftan bak ofar á kampinum með sigurbros á vör,
sem seint gleymist," segir Hólmar Magnússon. Síðan gengu
þeir inn á Krók, og þótti sigling þeirra ganga kraftaverki næst.
„Þegar heim kom mátti sjá gleðitár í augum, því við vorum víst
af mörgum taldir af,“ segir Hólmar.
Eg bjó í Heimi, Skagfirðingabraut 1, þegar þetta var, og
þangað gekk Sveinn félagi minn Þorvaldsson, þegar veðrið skall
á og spjallaði við konu mína, sem þá gekk með fyrsta barn
okkar hjóna. Hann skrapp út öðru hverju að gá til veðurs og fá
fréttir, en sat þess í milli og felldi síldarnet, æðrulaus að vanda.
I þessu veðri fórst Maí frá Hofsós, trilla með fjórum mönn-
um, og drukknuðu allir. Formaður var Jónas Jónsson frá
Móhúsi, en hinir voru Jóhannes Jóhannesson Vatnsenda, Jó-
hann Eggertsson Osi og ungur sonur hans, Eggert. Þeir höfðu
lagt línuna vestur af Málmey, norður af Skerjagrunnshorninu
og voru lítið búnir að draga, er yfir lauk. Einn mann tók út af
bát Stefáns Jóhannessonar í Bæ. Hann var norður á Hausum,
um klukkutíma stím norður af Málmey, og mun hafa ætlað að
komast í var undir eyna, en vélin stöðvaðist, þegar þeir áttu eftir
nokkur hundruð metra. Eftir það reyndu þeir að halda bátnum
upp í á árum, en þá hrakti, og hnútur reif einn mann frá borði,
Jóhann Jónsson frá Glæsibæ.
176