Skólavarðan - 01.09.2005, Side 14
14
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2005
... og nennti þessu bulli ekki lengur
Ég hef reyndar alla tíð verið Guðna afar
þakklátur. Hann kom mér nefnilega
í gegnum stúdentsprófið og það
þurfti tilfærslur til. Þannig var að eftir
Úlfljótsvatn vann ég í tvö sumur á alþjóð-
legri ferðamiðstöð í Sviss. Seinna sumarið
hringdi ég í Guðna og sagðist vera hættur
í skólanum þar sem ég nennti þessu
bulli ekki lengur. Guðni bauð mér þá
námssamning sem meðal annars gekk út á
að ég þurfti ekki að mæta í skólann fyrr en
á áramótum. Þetta gerði að verkum að ég
kláraði skólann sem ég hefði ella ekki gert
og án stúdentsprófs hefði ég ekki fengið
inni í Kennaraháskólanum.“
Eftir stúdentspróf vann Ólafur á
Sólheimum í Grímsnesi í rúmt ár og kynntist
þar konu sinni, Dagnýju Hermannsdóttur.
Hann hóf síðan nám í Kennaraháskólanum
og á námsárunum sat hann meðal annars
í stjórnum Æskulýðssambands Íslands og
Bandalags íslenskra sérskólanema. „Þessi
samtvinnun félags- og uppeldismála hefur
fylgt mér síðan, eins konar sambland af
uppeldi og rekstri,“ segir Ólafur.
Skuldaði sjálfum mér
að prófa að kenna
Ólafur fór ekki strax í kennslu að loknu
kennaranámi. Þau hjónin höfðu tekið þá
ákvörðun að skipta með sér verkum á
þann hátt að hann ynni úti en hún heima
á meðan börnin væru lítil. Niðurstaðan var
að kennaralaunin dugðu ekki fjölskyldunni
til framfærslu, en Ólafur og Dagný áttu á
þessum tíma tvö börn, þau Birtu sem nú
er sextán ára og Grím þrettán ára. Síðar
bættist Ásta í hópinn, fædd 1998.
Ólafur réð sig fyrst til starfa hjá
tímaritinu Uppeldi og sinnti þar markaðs-
og þjónustumálum, þá starfaði hann um
tíma sem framkvæmdastjóri Bóksölu
Kennaraháskólans og í framhaldi af því tók
hann við rekstri forlagsins Æskunnar. Loks
tók hann að sér skólastjórn skólabúðanna
á Úlfljótsvatni og segir fjölbreyttan
starfsferil dæmigerðan fyrir breytta tíma.
„Ég hef stundum haft á orði að pabbi hafi
átt þrjá bíla um ævina en ég þrjátíu og
þrjá, og meðan hann hafi sinnt einu starfi
alla tíð hafi ég ráðið mig í hundrað!“
Þegar hér var komið sögu, árið 2001,
hafði hagur fjölskyldunnar vænkast
nokkuð og því mögulegt að sinna því sem
Ólafur hafði menntað sig til. Hann réð sig
til Foldaskóla sem stærðfræðikennari á
unglingastigi. „Ég skuldaði sjálfum mér
það að prófa að kenna,“ segir Ólafur. „Ég
hafði einfaldlega ekki efni á því fyrr.“
Auðvelt að tengjast unglingum
Ásamt með stærðfræðinni kenndi Ólafur
bókfærslu og náttúrufræði í Foldaskóla
auk útivistar og félagsstarfa sem eru
valgreinar. „Mér finnst það langbesta
við kennsluna að fá tækifæri til að hjálpa
þeim sem eiga undir högg að sækja. Ég bý
auðvitað að reynslunni frá Úlfljótsvatni þar
sem við fengum ellefu hundruð kraftmikla
unglinga á hverjum vetri sem vita ekkert
skemmtilegra en að ögra þeim fullorðnu.
Ég hef átt auðvelt með að tengjast
unglingum og vinna með þeim. Kennslan
er erfitt en stórskemmtilegt starf og það
er ekkert betra en að fá að heyra löngu
síðar að maður hafi skipt nemanda máli.
Slíkt gefst ekki í hvaða starfi sem er.“
Þess má til gamans geta að útivistarvalið
sem Ólafur hefur verið með fyrir 9. og
10. bekk í Foldaskóla var tilnefnt til
Hvatningarverðlauna Fræðsluráðs og var
annað af tveimur verkefnum sem hlutu
verðlaunin. „Við höfum verið með rötun,
skyndihjálp, ferðamennsku og útbúnað
og í tengslum við það höfum við farið í
dags- og helgarferðir þar sem reynt hefur
á áðurgreinda þætti,“ segir Ólafur.
Undirbúningur kjarasamninga
Á aðalfundi Kennarafélags Reykjavíkur
vorið 2003 tók Ólafur sæti í stjórn
félagsins. „Ég hafði verið trúnaðarmaður
um nokkurt skeið og þekkti þar af leiðandi
ágætlega hvernig málum var háttað,“
segir Ólafur, „en þó kom mér á óvart
hversu lítið hinn almenni félagsmaður
vissi um félagið sitt og hafði afskipti af
því – og skiptir þá engu hvort um er að
ræða KFR, Félag grunnskólakennara eða
Kennarasambandið í heild. Menn virtust
tilbúnir til að gagnrýna Kennarasambandið
en síður til að koma og leggja eitthvað til
málanna. Okkur fannst ýmsum að KFR
ætti að hafa meira að segja um það sem
var að gerast í skólamálum og eitt af því
sem stjórn félagsins gerði á vormánuðum
var að standa fyrir vinnudegi í Viðey
fyrir trúnaðarmenn þar sem rætt var um
tilgang félagsins og fleira. Við fengum
góðar ábendingar og nokkrir ágætir hlutir
spruttu upp úr því, svo sem heimasíðan og
opnir spjallfundir í Reykjavík sem hleypt
var af stokkunum nú í vor með málstofu
undir titlinum „8-17, bylting eða bull“. Þar
sátu á annað hundrað manns að kvöldi
til við kertaljós og huggulegheit á mjög
skemmtilegum fundi.“
Í marsmánuði 2004 var Ólafur kjörinn
formaður Kennarafélags Reykjavíkur.
Undangenginn vetur voru menn að bíða
eftir kröfugerð og mikið skeggrætt um
væntanlega stefnu í kjaramálum. Í liði
grunnskólakennara gætti vaxandi vilja
til að standa af sér allar hrinur og keyra
ásættanlegar kjarabætur í gegn með
ráðum og dáð. Óánægja hafði ríkt allan
samningstímann með ýmis atriði í gildandi
kjarasamningi og félagsmenn staðfastir í
að fá leiðréttingu næsta samningstímabil.
Ólafur var bundinn í kennslu fram á
sumar en hófst þá handa við að undirbúa
hugsanlegt verkfall. „Ekki það að ég væri
að vonast til að það yrði, síður en svo!“
segir Ólafur og hlær. „En mér fannst
óábyrgt að vera ekki tilbúinn ef til þess
kæmi.“
Í bíl á fullri ferð
Ólafur segir verkfallið ekki hafa komið
félagsmönnum á óvart. „Vilji þeirra var
alveg skýr. Verkfallstíminn var ótrúlegur
að mörgu leyti, bæði í jákvæðum og
neikvæðum skilningi. Það er að sjálfsögðu
neikvætt að þurfa að grípa til þessa
örþrifaúrræðis en við vorum beinlínis
hrakin út í það. Þetta gerir enginn að
gamni sínu, hvorki gagnvart nemendum
og foreldrum né sjálfum sér. Ef menn
halda að það jafngildi fríi að vera í verkfalli
þá er það hin mesta firra. Því fylgir mikið
álag, það tekur á taugarnar og liggur
þungt á hverjum og einum. Ef hægt er
að tala um jákvæða hluti í sambandi
við verkfall þá var það órofa samheldni
kennara, sumir höfðu á orði í hálfkæringi
að samheldnin væri jafnvel um of! Ég man
til dæmis eftir fagnaðarlátum sem brutust
út snemma í nóvember þegar tilkynnt var
um niðurstöðurnar í atkvæðagreiðslu um
miðlunartillögu ríkissáttasemjara, en hún
var kolfelld. Þetta var í beinni útsendingu
og fjölmiðlar kusu að túlka þetta svo að
kennarar væru að fagna áframhaldandi
verkfalli en ekki ótvíræðri niðurstöðu og
samheldni. Þegar svona gerist, að búið er
að ákveða hvernig beri að skilja einhvern
atburð og miðla honum til þjóðarinnar,
þá er meira en að segja það að leiðrétta
túlkunina. Morgunblaðið birti einn
fjölmiðla skilning okkar á þessum fundi.”
Verkfallinu vatt fram en lítið miðaði.
„Þó þokast hafi hænufet í rétta átt um
helgina í viðræðum um vinnutímamál
er enn langt í land,“ sagði Finnbogi
Sigurðsson, þáverandi formaður FG, þann
10. október og varaði við mikilli bjartsýni.
Tveimur dögum síðar mættu á annað
þúsund manns á baráttufund í Háskólabíói.
Hvert sæti í húsinu var skipað og hundruð
manna stóðu. Á fundinum ávarpaði Eiríkur
KYNNING FORYSTUMANNA