Skólavarðan - 01.09.2005, Síða 18
18
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2005
Á málþingi um íslenskukennslu í
Kennaraháskólanum þann 18. ágúst
sl. hélt Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir
lektor við skólann fyrirlestur sem
hún kallaði „Snákur eða slanga?
Um lestrarnám í leikskóla“. Fyrir-
lesturinn vakti talsverða athygli og
sitt sýndist hverjum. Skólavarðan
tók hús á Önnu Þorbjörgu og spurði
hana hvort einhver akkur væri í því
að kenna litlum börnum að lesa.
„Mörg börn eru farin að sýna bókstöfum
áhuga á leikskólaaldri,“ segir Anna
Þorbjörg, „og það er sjálfsagt að svara
þessum áhuga og ýta undir hann. Það
er öllum kappsmál að lestrarnám barna
gangi vel og allt sem getur orðið til þess
ber að nýta. Í leikskóla felst þessi hvatning
fyrst og fremst í að kennarar ástundi góða
almenna málörvun og lesi mikið fyrir
börnin. Það er líka mikilvægt að börnin
hafi greiðan aðgang að barnabókum í
leikskólanum og að þær séu ekki „spari“
heldur eðlilegur hluti af umhverfi barnsins.
Í rannsóknum á snemmlæsi kemur fram að
á heimilum snemmlæsra barna er yfirleitt
góður aðgangur að bókum, foreldrar lesa
mikið fyrir börnin, svara áhuga þeirra á
prentmáli og lestri og ræða við þau um
heima og geima, meðal annars um ritað
mál. Börn sem verða snemma læs eru hins
vegar ekki endilega betur gefin en fólk er
flest og foreldrarnir hafa ekki kennt þeim
lestur og skrift með beinum hætti. Hins
vegar sjá börnin foreldra sína nota ritmál
á margvíslegan hátt.“
Anna Þorbjörg bendir á að lestrarnám
sé nýmæli í íslenskum leikskólum en
þróunarstarf hafi byrjað fyrir um áratug
með ritmálsörvun. „Fyrir nokkrum
árum mátti ekki minnast á lestrarnám í
leikskólum en þetta er að breytast. Æ fleiri
leikskólar setja markvissa málörvun og
örvun ritmáls inn í skólanámskrár sínar,“
segir Anna Þorbjörg.
Prentmál hafi
persónulega merkingu
„Óvíða er minnst á læsi í námskrám
leikskólanna en á þó nokkrum stöðum er
nefnt að ritmálið skuli vera sýnilegt eða
að unnið skuli með rím. Að minnsta kosti
tveir leikskólar hafa markvisst lestrarnám
á námskrá sinni og í öðrum þeirra er
lokatakmarkið skýrt: Að öll börn hafi
lært að lesa við lok leikskólagöngu. Mér
finnst ekki endilega að það eigi að vera
markmið, en sjálfsagt er að nota hefðir og
sérkenni þessa skólastigs, nám í gegnum
leik, til að örva þróun læsis. Sumir hafa
skiljanlega áhyggjur af að smám saman sé
verið að færa aðferðir grunnskólans yfir í
leikskólann og að settir verði merkimiðar
á börn eftir því hvort þau eru læs eða ekki.
Ég held hins vegar að þessi umræða þurfi
að vera opinská og kennarar í leikskólum
eigi að taka fullan þátt í henni og hafa
áhrif á hana. Þannig geta þeir staðið vörð
um gildi leikskólans og hugmyndafræði
hans.“
Að sögn Önnu Þorbjargar er mikilvægt í
þróun læsis að hafa ritmálsörvandi efnivið
á leiksvæðum barna og haga hlutum svo að
prentmál hafi persónulega merkingu fyrir
þau. „Til dæmis með því að hjálpa börnum
að skrifa afmæliskort, bréf, nafnið sitt
og nöfn annarra í fjölskyldunni og skrifa
niður frásagnir barnanna. Börn læra með
því að upplifa sjálf og þróun læsis hefur
verið skilgreind sem persónuleg reynsla
barns af lestri og skrift í nánasta umhverfi
sínu. Í gegnum reynslu sína og tilraunir býr
barnið til sinn eigin skilning á lestri.“
Úrræðum fjölgar
„Hljóðkerfisvitund“ er það hugtak sem
oftast ber á góma í tengslum við lestur og
lestrarkennslu,“ segir Anna Þorbjörg, „og
áhersla lögð á að lestrarerfiðleikar stafi
fyrst og fremst af vanda af heyrnrænum
toga. Við eigum námsefni sem þjálfar
hljóðkerfisvitund barna í leikskólum
og þróuð hafa verið greiningartæki til
að meta hljóðkerfisvitund. Hrafnhildur
Ragnarsdóttir prófessor í KHÍ er líka að þróa
próf til að meta hvernig börnum gengur
að nota mál í samfelldri orðræðu eða nýta
sér það í raunverulegum aðstæðum. Hún
bendir á að flestir textar sem börn fást
við í grunnskóla séu frásagnir og börn
þurfi að þekkja uppbyggingu þeirra og
samloðunaraðferðir til að brúa bilið frá
talmáli yfir í lestur og ritun. Rannsóknir
hennar á frásagnarhæfileikum barna eru
mjög spennandi og óhætt er að segja að
væntanlegt próf ásamt ýmsu öðru séu
góð tæki til að meta börn. En það þurfa
auðvitað að fylgja úrræði í kjölfarið svo
koma megi í veg fyrir óþarfa erfiðleika í
lestrarnámi.“
Anna Þorbjörg segir að kennarar í
leikskólum séu í mjög góðri aðstöðu til að
stuðla að því að lestrarnám barna gangi vel.
„Á leikskólabraut við Kennaraháskólann
fá nemendur kennslu um máltöku barna,
málþroska og málörvun, hljóðfræði og
framburð og svolitla innsýn í þróun læsis og
ritmálsörvunar. Ég tel að jafnframt þurfi að
bjóða upp á kennslu í lestrarfræði. Þetta er
ekki í boði núna en áhugasamir kennarar
geta til dæmis nýtt námskeiðsdaga til að
fá inn lestrarkennslufræðing eða haft
samband við Símenntunarstofnun KHÍ
og athugað hvað þar stendur til boða í
þessum efnum.“
keg
Bókstafir kynntir til leiks
LESTRARNÁM Í LEIKSKÓLUM
Anna Þorbjörg segir að kennarar í
leikskólum séu í mjög góðri aðstöðu
til að stuðla að því að lestrarnám
barna gangi vel.
Lestrarnám í leikskólum snýst ekki um að vera fyrstur. Teikning eftir
snillinginn Halldór Pétursson úr lestrarbókinni Lesum og lærum sem
Námsgagnastofnun gaf upphaflega árið 1962. Bókin var síðar
endurskoðuð og hefur margoft verið endurprentuð.