Skólavarðan - 01.09.2005, Page 22
22
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2005
Á síðari árum hefur athygli fagfólks
beinst æ meira að vægi málþroska
hvað varðar nám. Ásthildur Bj. Snorra-
dóttir og Bjartey Sigurðardóttir hafa
þróað heildstætt málörvunarefni fyrir
leik- og grunnskóla sem þær segja frá
í þessari grein.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni
málþroska við námsárangur (Stackhouse
og Wells, 1997, Catts og Kamhi, 1999,
Snowling, 1999, Guðrún Bjarnadóttir,
2004). Málþroskafrávik geta verið af
ýmsum toga og orsakast af ýmiss konar
frávikum í þroska, mismunandi fötlunum
eða langvarandi veikindum. Stærstur
er þó sá hópur barna er greinist með
málþroskafrávik án þess að um önnur
þroskafrávik eða sjúkdóma sé að ræða og
er þá talað um að börn séu með sértækar
málþroskaraskanir. Gera má ráð fyrir
að u.þ.b. 300 börn í hverjum árgangi
íslenskra barna séu með sértækar mál-
þroskaraskanir.
Eins og áður var nefnt hafa margar
rannsóknir sýnt fram á fylgni málþroska
við námsárangur. Málið er verkfæri
hugsunarinnar og undirstaða fyrir allt
nám. Því er mikilvægt að finna börn með
málþroskafrávik sem allra fyrst og veita
þeim viðeigandi málörvun. Nauðsynlegt er
að brúa bilið á milli leikskóla og grunnskóla
þannig að niðurstaða úr málþroskaprófum
og áherslur í málörvun í leikskóla skili sér
í áframhaldandi vinnu í grunnskólanum.
Fram til þessa hefur hins vegar skort
heildstætt, íslenskt málörvunarefni sem er
aðgengilegt og auðvelt í notkun fyrir leik-
og grunnskóla. Málörvunarefnið Tölum
saman bætir úr þessari brýnu þörf.
Sýnt hefur verið fram á með rann-
sóknum að skilgreind málörvun dregur
úr námsörðugleikum og kemur til góða
bæði börnum með málþroskafrávik og
tvítyngdum börnum. Börn með málþroska-
raskanir eru iðulega lengi að ná valdi á
lestrartækni og auk þess glíma þau oftast
við annars konar vanda eftir að þau hafa
náð tökum á sjálfu lestrarferlinu. Þessi
vandi kemur upp á yfirborðið þegar fer
að reyna á málskilning við lestur flóknari
texta, en þá dregur úr framförum og
erfiðleikar tengdir málskilningi koma í ljós.
Hætt er við því að þessir nemendur glími
við námserfiðleika alla sína skólagöngu og
margir þeirra hrökklist úr námi fljótlega
eftir að grunnskóla lýkur. Því er mikilvægt
að koma til móts við þarfir nemenda með
málþroskaraskanir með kerfisbundinni
málörvun í leikskóla og við upphaf skóla-
göngu.
Málörvunarkerfið Tölum saman er
einkum ætlað elstu nemendum leik-
skólans og yngstu nemendum grunn-
skólans. Meginhugmynd okkar með
þessu námsefni er að búa til aðgengilegt
málörvunarkerfi þar sem greining á vanda
nemandans er lögð til grundvallar þeirri
einstaklingsnámskrá sem unnið er eftir.
Við uppbyggingu náms-efnisins er einnig
tekið mið af þörfum tvítyngdra barna þó
að orsakir námserfiðleika þeirra séu aðrar
en hjá börnum með málþroskafrávik.
Uppbygging málörvunarkerfisins
Í inngangi er vitnað í rannsóknir og upp-
setning bókar og notkun skýrð. Þar er
einnig fjallað um helstu próf og matslista
sem notuð eru fyrir börn á leikskóla-
aldri. Málörvunarkerfið inniheldur ellefu
kafla þar sem m.a. er unnið með eftir-
farandi þætti: Heyrnræna úrvinnslu,
orðaforða, setningauppbyggingu, mál-
fræði, frásagnir, viðeigandi boðskipti
og hljóðkerfisvitund. Hver kafli hefst á
stuttri skilgreiningu, markmiðslýsingu,
einföldum leiðbeiningum um vinnu-
aðferðir og upplýsingum um ítarefni. Mál-
örvunarkerfinu fylgir skráningarblað til
að auðvelda kennurum að finna út hvaða
þætti ber að leggja áherslu á í vinnu með
barninu.
Málörvunarefnið er stutt fjölda mynda
eftir Ingibjörgu Eldon Logadóttur.
Útgáfan er mjög vönduð, prentuð staf-
rænt og kemur út í fallegri möppu. Mál-
örvunarkerfið er gefið út af höfundum og
selt með ljósritunarrétti fyrir viðkomandi
skóla/stofnun.
Ásthildur Bj. Snorradóttir
talmeinafræðingur (tal@simnet.is)
Bjartey Sigurðardóttir
talmeinafræðingur og sérkennari
(bjarteys@isl.is)
Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur Bj. Snorradóttir
eru höfundar málörvunarefnisins Tölum saman
Tölum saman
Málörvunarkerfi fyrir börn með málþroskafrávik og tvítyngd börn
MÁLÖRVUN
Lj
ós
m
yn
d
fr
á
hö
fu
nd
iu
m