Skólavarðan - 01.09.2005, Page 27

Skólavarðan - 01.09.2005, Page 27
27 SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 5. ÁRG. 2005 Byrjað var að vinna kerfisbundið sam- kvæmt Olweusaráætlun hér á landi haustið 2002 með það að markmiði að draga úr einelti meðal barna og unglinga. Alls tóku 43 grunnskólar þátt í áætluninni fyrsta árið en nú er um helmingur grunnskóla í landinu með í verkefninu. Góður árangur á unglingastigi Gerð var viðamikil könnun meðal nem- enda haustið 2002 sem gaf nokkuð skýra mynd af ástandinu í eineltismálum í grunnskólum. „Í þessari upphafskönnun fengust mikilvægar upplýsingar, meðal annars um það hvar einelti ætti sér einkum stað,“ segir Þorlákur H. Helgason framkvæmdastjóri Olweusarverkefnisins á Íslandi. „Margir hrukku í kút þegar þeir sáu þessar niðurstöður. Þeir réðust í að efla eftirlitskerfi í skólum og tóku að beina athyglinni að eineltisvandamálum sem þeir höfðu í mörgum tilvikum alls ekki gert sér grein fyrir að væru fyrir hendi. Skólarnir fóru með öðrum orðum að vinna í sínum málum og árangurinn lét ekki á sér standa. Haustið 2003 var gerð önnur könnun og voru niðurstöður bornar saman við þær fyrri. Kom þá í ljós að einelti í skólum sem tóku þátt í áætluninni hafði dregist saman um þriðjung. Einelti dróst saman um 31% í 4. – 7. bekk milli áranna og um 39% í 8. – 10. bekk. Við vorum mjög ánægð með þessa niður- stöðu og alveg sérstaklega árangurinn á unglingastigi. Hann er í raun einstæður og er til dæmis miklu betri en náðst hefur í Noregi. Ég held að ástæðan sé einfaldlega sú að kennarar og annað starfsfólk hafa unnið sitt starf vel. Tekist hefur að skapa skilning á þeim vandamálum sem við er að etja og taka á þeim með kerfisbundnum hætti.“ Helmingur segir að eineltið hafi staðið í mörg ár Haustið 2004 bættust 30 skólar í Olweusarverkefnið og í febrúar 2005 var eineltiskönnun lögð fyrir alla nemendur í 4. – 10. bekk. Þorlákur segir að þó að dregið hafi úr einelti á unglingastiginu sé vandinn þar engu að síður alvarlegur. Nefnir hann m.a. það sem nemendur segja um líðan sína og hve marga vini þeir eiga, en 11% sögðust aðeins eiga einn eða engan góðan vin. Helmingur unglinganna sem sætt höfðu einelti sögðu það hafa staðið í mörg ár. „Þetta sýnir að unglingum líður ekki nægilega vel í skólanum og hluti þeirra á erfitt með að standa á eigin fótum. Svörin í þessari könnun gefa til kynna að einelti meðal unglinga í efsta hluta grunnskólans sé vandamál sem bitnar á fjölda einstaklinga og getur valdið óbætanlegum skaða fyrir þá sem hlut eiga að máli, bæði gerendur og fórnarlömb.“ Taka þarf kerfisbundið á eineltis- vandanum í framhaldsskólum Hingað til hefur athyglin einkum beinst að grunnskólanum, en hvernig er ástandið í framhaldsskólum? Hefur verið tekið á eineltisvandamálum þar? „Framhalds- skólinn er gersamlega óplægður akur í þessum efnum. Þar er ekki unnið kerfisbundið að eineltismálum eins og í grunnskólum þar sem allt skólasamfélagið er lagt undir,“ segir Þorlákur H. Helgason. Allar líkur eru á því að þau börn, sem lögð eru í einelti í 9. og 10. bekk, hafi sætt einelti lengi, jafnvel árum saman, að sögn Þorláks. „Halda menn að þessum börnum fari allt í einu að líða vel þegar komið er í framhaldsskóla? Þannig er það örugglega ekki. Mörgum þeirra á eftir að líða áfram illa. Það þarf að taka kerfisbundið á þessum vanda í framhaldsskólunum eins og gert hefur verið í fjölda grunnskóla.“ Hingað til hefur aðeins einn fram- haldsskóli haft samband við Þorlák til að afla upplýsinga um Olweusaráætlunina. „Ég er mjög hissa á því að framhaldsskólarnir skuli ekki gefa eineltismálum meiri gaum og vinna að þeim með kerfisbundnum hætti. Þó að kennarar í framhaldsskólum séu allir af vilja gerðir að forðast og koma í veg fyrir einelti þá geta þeir engu að síður verið að kynda undir það án þess að gera sér grein fyrir því.“ Tengsl milli eineltis og brottfalls í framhaldsskólum Um þriðjungur nemenda sem hefur nám í framhaldsskólum hverfur á braut án þess að ljúka prófi. Þorlákur telur fullvíst að tengsl séu á milli mikils brottfalls úr framhaldsskólum og eineltisvandamála. Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir nokkrum árum sögðu 29% svarenda úr hópi brottfallinna að þeir hefðu sætt einelti meðan þeir voru í skóla. „Ég held að þetta sé mjög mikill áhættuhópur,“ segir Þorlákur. Einelti birtist með ýmsum hætti og það liggur ekki alltaf í augum uppi hve alvarlegt það er. Þorlákur segir að bregðast verði við því jafnvel þó að það virðist sakleysislegt við fyrstu sýn. „Við megum aldrei álykta að þetta sé svo saklaust að ekki sé ástæða til að eyða miklu púðri í það. Hér er of mikið í húfi fyrir þúsundir einstaklinga. Ekki má heldur gleyma því að um leið og dregur úr einelti fylgir annað með; skemmdarverkum fækkar og það dregur úr skrópi svo að eitthvað sé nefnt.“ Heilsufarsleg og félagsleg vanda- mál eru oft afleiðingar langvarandi eineltis Þorlákur veltir einnig upp ýmsum öðrum félagslegum og heilsufarslegum áhrifum sem einelti getur haft í för með sér. Hann segir að samkvæmt rannsóknum sem Dan Olweus hefur gert séu margfalt meiri líkur á að þeir, sem beita aðra einelti þegar þeir eru fjórtán ára, verði komnir á sakaskrá áratug síðar en þeir sem ekki beita eða taka þátt í einelti. Hann bendir jafnframt á að þunglyndi, kvíða og ýmis önnur sjúkleg einkenni meðal framhaldsskólanema megi oft rekja til eineltisvandamála sem þeir hafa átt við að stríða í mörg ár. Þorlákur segir að stórauka þurfi kennslu í eineltismálum í íslenskum skólum sem útskrifa kennara en enginn þeirra veiti kennaraefnum nægilega fræðslu um eineltismál. „Þetta er ótrúlegt þegar haft er í huga að helmingur allra grunnskólanemenda er þátttakendur í Olweusarverkefninu. Þessu þarf að breyta ef árangur á að nást í viðleitni okkar til að bæta líðan barna og unglinga í skólum landsins eins og að er stefnt,“ segir Þorlákur H. Helgason að lokum. Helgi E. Helgason en framhaldsskólinn er óplægður akur segir Þorlákur H. Helgason framkvæmdastjóri Olweusaráætlunar á Íslandi Dregið hefur úr einelti í grunnskólum EINELTI Ljósmynd: Keg

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.