Skólavarðan - 01.09.2006, Page 20

Skólavarðan - 01.09.2006, Page 20
20 SKOÐUN SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 6. ÁRG. 2006 Skömmu fyrir kosningar skrifaði Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskóla- kennara, pistil í Skólavörðuna, málgagn Kennarasambands Íslands, þar sem hann hvatti kennara til þess að tryggja opna og virka umræðu um skólamál í kosningabaráttunni. Þar sagði hann meðal annars: „Margir kennarar söknuðu þess í verkfallinu haustið 2004 að fá ekki skýr svör frá sveitarstjórnarmönnum um hver væri stefna þeirra í málefnum grunnskólans.” Síðar í greininni segir Ólafur: „Við kennarar verðum að tryggja að skólamálin, þar með talin kjaramál okkar, verði eitt af kosningamálum komandi vors. Við verðum að krefja umbjóðendur svara: Hver er stefna þín í málefnum grunnskólans ágæti sveitarstjórnarmaður?“ Sjálfur tók ég þátt í umræddu kennara-verkfalli og þekki því ágætlega til þess þegar stjórnmálamennirnir fóru í felur. Hvatning Ólafs til kennara fyrir síðustu kosningar var mjög brýn í ljósi þess að stjórnmálamenn eru æðsta valdið í málefnum skólanna. En hvernig skyldi málið horfa við þeim sem bæði tekur þátt í kosningum og er kennari? Í borgastjórnarkosningunum í vor skipaði ég sæti á framboðslista og fékk því gott tækifæri til þess að heimsækja skóla og ræða við kennara ásamt meðfram- bjóðendum mínum. Voru það mjög gagnlegar heimsóknir. Fengum við sem vorum í framboði að kynnast starfsemi skólanna og sjónarmiðum kennara og einnig fengu kennarar tækifæri til þess að ræða við okkur og heyra sjónarmið okkar frambjóðenda. Í flestum skólum var okkur vel tekið og greinilegt að margir kennarar sáu ríka ástæðu til þess að ræða við stjórnmálamenn um skólamál. En því miður sáu ekki allir kennarar og skólastjórnendur ástæðu til þess að taka undir sjónarmið Ólafs um að ræða við frambjóðendur og fá frá þeim skýr svör. Einkum eru mér minnisstæð við- brögð tveggja skóla í Reykjavík þar sem skólastjórnendur vísuðu frambjóðendum frá og kærðu sig hvorki um að gefa kennurum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri né að fá að kynnast frambjóðendum og sjónarmiðum þeirra í skólamálum. Ekki mátti heldur láta kynningarefni frá flokkunum liggja frammi á kennarastofum. Viðbrögð þessara tveggja skóla eru fyrst og fremst sorgleg. Það er meira en lítið undarlegt að fólkið sem vinnur við að ala upp æskufólk sem ábyrga þegna í lýðræðislegu samfélagi skuli ekki átta sig á skyldu sinni þegar kemur að því að velja til ábyrgðarstarfa í samfélaginu. Hvers virði er lýðræðið? Hvað felst í því að vera þátttakandi í lýðræðislegu samfélagi? Þessar spurningar vakna þegar staðið er frammi fyrir umræddu skeytingarleysi skólanna tveggja þegar lýðræðið og samfélagsleg ábyrgð eru annarsvegar. Spyrja má fulltrúa þessara skóla hvort þeir geti ætlast til þess að stjórnmálamenn ræði við þá þegar þeim hentar ef þeim er meinað að koma í heimsókn og kynna sig og málefni sín? Kennarar velflestir eru virkir þegar kemur að umræðum um samfélagsmál og er það vel, en þið hin sem teljið þetta ekki skipta máli megið líta í eigin barm og spyrja sjálf ykkur hvers virði lýðræðið er og hversu mikilvægt er að bjóða skeytingarleysinu birginn. Einn mesti háski sem steðjar að æsku landsins er almennur doði yfir samfélagslegum verðmætum, flatneskja og skeytingarleysi. Kennarar og aðrir sem sjá um uppeldi æskunnar ættu að líta í eigin barm og spyrja hvort það geti verið að þeir gefi ungu fólki fordæmi með afstöðu sinni. Við kennarar erum jú fyrirmyndir unga fólksins. Viljum við virkilega ekki virka umræðu um það hvernig samfélagið á að vera? Jóhann Björnsson Höfundur kennir við Réttarholtsskóla í Reykjavík. KENNARAR OG KOSNINGABARÁTTA Einn mesti háski sem steðjar að æsku landsins er almennur doði yfir samfélagslegum verðmætum, flatneskja og skeytingarleysi. Jóhann Björnsson LJ ó sm yn d f rá h ö fu n d i

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.