Skólavarðan - 01.06.2009, Qupperneq 30
30
SMIÐSHöGGIÐ
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 9. ÁRG. 2009
Aðalþing er nýr 120 barna leikskóli í Kópa-
vogi sem tók til starfa í byrjun mars. Skólinn
er rekinn af fyrirtækinu Sigöldu ehf. sam-
kvæmt þjónustusamningi við Kópavogsbæ
en Sigalda er fyrirtæki sem stofnað var í
nóvember 2008 af hjónunum Guðrúnu Öldu
Harðardóttur leikskólakennara og Sigurði
Þór Salvarssyni blaðamanni. Meginmark-
mið og tilgangur fyrirtækisins er rekstur
leikskóla, rannsóknar- og fræðslustarfsemi
auk útgáfu og miðlunar ýmiss konar. Við
fengum Guðrúnu Öldu, sem einnig er skóla-
stjóri, til að segja okkur frá Aðalþingi í
stuttu máli, markmiðum, skólastefnu og
skólastarfi.
Skólinn stendur við götuna Aðalþing í
Þingahverfi við Elliðavatn, skammt frá
íþróttahúsinu Kórnum. Þörfin fyrir nýja leik-
skóla í þessum nýju hverfum bæjarins er
augljós eins og sést best á því að Aðalþing
verður fullsetinn leikskóli þegar í ágúst.
Í Aðalþingi er starfað líkt og í öðrum leik-
skólum Kópavogs samkvæmt Aðalnámskrá
leikskóla og námskrá leikskóla Kópavogs.
Skólastarfið tekur mið af ítölsku skóla-
starfi sem kennt er við borgina Reggio
Emilia á Norður-Ítalíu og byggist meðal
annars á lykilorðunum: Ígrundun – lýðræði
– náttúra – upplýsingatækni. Þetta eru
hugtök sem unnið er með á markvissan
og skapandi hátt í Aðalþingi. Þar er litið á
börn sem hæfileikaríka einstaklinga og horft
á þekkingu og nám í heild – heildarsýn á
nám, það er að allt tengist og vinni hvert
með öðru. Önnur einkunnarorð skólans eru:
Gleði – vellíðan – undrun – ævintýraljómi,
en andi þessara orða mun svífa yfir vötnum
í leikskólanum, námsumhverfið hannað á
þann hátt að það veki upp löngun hjá börn-
unum til að leika sér og rannsaka.
Leiðarljós í leikskólastarfinu eru eftirfar-
andi þættir, sem taldir eru vera hvað mikil-
vægastir í leikskólanámi, en þeir felast í að:
• Hvetja börnin.
• Mikilvægara sé að kenna börnum að
spyrja spurninga en að fræða þau með
svörum.
• Hjálpa barninu að finna hvað veki áhuga
hjá því, hvað því finnist skemmtilegt,
þetta á að vera á forsendum barnsins
ekki neinna annarra.
• Kenna barninu að takast á við hið
óþekkta.
• Kenna barninu að taka ábyrgð á sjálfu
sér.
• Kenna barninu að mikilvægasta umb-
unin er oft sú sem er í einu og öllu - í
verkinu sjálfu.
• Kenna barninu að setja sig í spor
annarra.
Leik- og námssvæði
Átakapunkturinn í leikskólastarfi er að tengja
fræði og framkvæmd. Í Aðalþingi er leitast
við að leiða leikskólastarfið með því að
skapa ákveðin viðhorf og fagkunnáttu innan
leikskólans. Áhersla er lögð á lýðræði og í
slíkri menntun minnkar bilið milli kennara
og barna. Leikskólakennararnir eru ekki
eingöngu kennarar, heldur kennarar sem
meðal annars athuga og rannsaka hvernig
börnin læra. Rými leikskólans er fyrst og
fremst leik- og námssvæði, þar sem ung
börn hafa aðstöðu til að rannsaka og gera
tilraunir og uppgötvanir. Leik- og námsrými
eru hönnuð á þann hátt að þau séu opin og
aðgengileg börnum.
Í takt við náttúruna
Leikskólinn stendur á miklu náttúrusvæði
með Elliðavatn og Heiðmörk í næsta
nágrenni. Hluti af skólastarfinu miðar að því
að nýta náttúrukostina og -fegurðina sem er
allt í kringum leikskólann með reglulegum
vettvangs- og rannsóknarferðum. Segja má
að hesthúsin við Heimsenda séu við „skóla-
dyrnar“ og eru þau heimsótt reglulega. Virð-
ing fyrir náttúrunni og umhverfinu endur-
speglast einnig í innra starfi skólans en þar
er unnið á umhverfisvænan máta, sorp er
flokkað, efniviður endurnýttur, matjurtir
ræktaðar o.s.frv.
Í takt við lýðheilsu
Í Aðalþingi ríkir ákveðin matarmenning,
byggt er á hollustu og hreinleika þar sem
hráefnið er unnið frá grunni. Hreyfirými er
fastur hluti af yngri deildum leikskólans en
þar býðst börnunum að stunda hreyfingu
daglega bæði ein og sér og/eða í hópi
annarra barna.
Í takt við tækni
Upplýsingatækni verður notuð í leikskóla-
starfinu í Aðalþingi á fjölbreyttan hátt, allt
eftir því sem hentar hverju sinni. Tölvur eru
hafðar í leikrými barnanna en þannig nýtast
þær bæði sem leikfang og verkfæri. Allar
tölvur leikskólans eru nettengdar, þannig
skapast rými fyrir kennara til að vinna hvar
sem þeir eru staddir í húsinu hverju sinni.
Ígrundun
Í leikskólanum við Aðalþing er lögð áhersla á
ígrundað leikskólastarf kennara sem barna.
Í stjórnskipulagi skólans er lögð áhersla á að
starfsfólk hafi möguleika á að þróast í starfi.
Öflug símenntun er í skólanum og hefur
starfsfólki frá öðrum leikskólum boðist að
sækja valda fyrirlestra innan skólans.
Kaup og kjör
Kennarar skólans þiggja laun samkvæmt
kjarasamningi Kennarasambands Íslands,
ákvæði hans gilda bæði um laun og önnur
launakjör eins og orlof, lífeyrisrétt, upp-
sagnarfrest, fæðingarorlof, vinnutíma og
veikindarétt. Starfsmenn skólans eru um
tuttugu en verða nær þrjátíu þegar skólinn
verður fullsettur í haust.
Guðrún Alda Harðardóttir
Ígrundun – lýðræði – náttúra – upplýsingatækni
Öflugt leikskólastarf
Gleði - vellíðan - undrun -
ævintýraljómi, andi þessara
orða mun svífa yfir vötnunum í
leikskólanum, námsumhverfið
hannað á þann hátt að það veki
upp löngun hjá börnunum til að
leika sér og rannsaka.
Guðrún Alda Harðardóttir
Lj
ós
m
yn
d
ir
f
rá
h
öf
un
d
i