Skólavarðan - 01.03.2010, Blaðsíða 23

Skólavarðan - 01.03.2010, Blaðsíða 23
23SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 10. ÁRG. 2010 LæSI Þrep 3. Nemendur sem ekki taka framförum á 1. og 2. þrepi þurfa hnit- miðaðri námsáætlun. Kennsla þeirra getur farið fram innan bekkjar eða utan. Útfærslan í Flataskóla Haustið 2009 var könnuð stafaþekking nemenda sem voru að hefja nám í 1. bekk. Börnin þekktu heiti að meðaltali 74% íslensku stafanna sem eru 64 talsins, stórir og litlir. Börnunum mátti í grófum dráttum skipta í þrjá hópa á grundvelli stafakunnáttu og upplýsinga frá leikskóla (sjá Snemmtæk íhlutun hér að framan). Tafla 4: Grunnur að skiptingu í lestrarfærnihópa Umsjónarkennarar og sérkennari sjá um stafainnlögn og lestrarkennslu og nota til þess sex stundir á viku, tvær stundir í senn. Kennararnir skiptast vikulega á að kenna hópunum. Með því móti kynnast allir kennararnir mismunandi námsþörfum hópanna. Tvo daga vikunnar eru hóparnir í lestrarkennslu hjá umsjónarkennurum. Námsefni og aðferðir Bókin „Fimm vinir í leik og lestri“ er notuð í 1. bekk fyrir alla hópana en á mismunandi hátt. Markmið bókarinnar er stafakennsla, lestrartækni og sérstök atriði íslenskunnar í tal- og ritmáli. Athygli nemenda er fyrst tengd efni og orðaforða hverrar síðu. Síðan er henni beint að stöfum, hljóðum og lestrartækni. Bókin býður upp á paralestur sem glæðir skilning barnanna á tengslum talmáls og ritmáls. Hraði í stafakennslu. Að öllu jöfnu eru kenndir tveir stafir á viku, stundum einn (t.d. þegar stafir hafa fleiri en eitt hljóð: Ll, Ff, Gg, Kk). Fjölbreyttar aðferðir við lestur. Eftirfarandi aðferðum er beitt eftir því hvar nemendur eru staddir í lestri: • Raddlestur. Nemandi les upphátt. • Skiptilestur. Kennari og nemandi lesa til skiptis. • Paralestur. Tveir nemendur lesa til skiptis. • Endurtekinn lestur. Sami texti lesinn aftur. • Kórlestur. Hópur nemenda les texta upphátt saman. Mat á lestri í 1. bekk Í dagsins önn er fylgst með tökum sem nemendur hafa náð í hljóðkerfisvitund, umskráningu/tæknilestri, lesfimi, hlustunar/lesskilningi, orðaforða og ritun. Mat á stafakunnáttu er gert eftir hverja 10-12 kennda stafi. Kannað er hvort sjálfsnám hafi átt sér stað, hvort börnin þekki „gráu stafina“, þ.e. þá sem koma fyrir í orðum án þess að hafa verið kenndir (sjá í bók t.d. á bls.12-13). Í lok 1. skólaárs er stuðst við markmiðin í „Fimm vinir...“ og kannað hvort þau hafi náðst. Þau eru þessi: Að börnin séu örugg á öllum stöfum, stórum og litlum, og þeim hljóðum sem þeir standa fyrir. Það merkir að þau geti borið fram hljóð stafanna hiklaust, stök, í orðum og bullorðum. Á sama hátt þekki þau tvíhljóðana au, ei og ey. Jafnframt er stefnt að því að börnin geti notað hljóðaaðferð af öryggi við lestur bullorða og tengt saman af öryggi a.m.k. þrjú hljóð, þau þekki í sjónhendingu stutt algeng orð og orðhluta, geti notað lesbútaaðferð við lestur og geti greint sérhljóða frá samhljóðum. Þeir nemendur sem farnir eru að lesa eru hraðaprófaðir og árangur nemenda skoðaður í samhengi við Flataskólaviðmiðin. Árangur í Læsi I.2 í 1. bekk 2010 Nýlegar niðurstöður úr Læsi 1.2 eru þær bestu í sögu Flataskóla síðan það var notað í fyrsta skipti árið 2000. Yfir 65% árangur hefur verið túlkaður þannig í Flataskóla að nemendur séu komnir vel á veg í lestri. Þessum árangri náðu 24 nemendur af 26. Meðal þeirra eru fjórir sem tilheyrðu slakasta hópi að hausti (sjá í töflu 4). Tveir sem voru í slakasta hópi náðu báðir yfir 50% árangri. Þeir eru að ná tökum á lestri þótt fylgjast þurfi vel með þeim. Ekki verður aðgreint hvað hefur áhrif á þennan árangur umfram annað. Árgangurinn er sterkur, kennararnir hafa öðlast reynslu í að kenna eftir skipulagi Byrjendalæsisins og í kennslubókinni Fimm vinir í leik og lestri er athygli barnanna beint markvisst að grunnþáttum lesturs. SkIpULAG Í 2. BEkk Börnunum er skipt í þrjá færnimiðaða hópa eftir stafa- og lestrarkönnun sem gerð er að hausti. Hópar eru reglulega endurmetnir með tilliti til framfara. Umsjónarkennarar og sérkennari annast hver sinn hóp í lestrarkennslunni þrisvar í viku og nota til þess sex stundir, tvær í senn. Tvo daga vikunnar eru hóparnir í lestrarkennslu hjá umsjónarkennurum. Ein stund á viku er nýtt fyrir einstaklinga eða litla hópa hjá sérkennara. Kenndar eru mismunandi aðferðir sem börnin geta nýtt við heimalesturinn. Áhersla er jafnframt á tækni við að stafsetja. Tafla 5: Grunnur að skiptingu í lestrarfærnihópa LESTRARÞjÁLFUN Í 3. oG 4. BEkk – MARkMIð oG LEIðIR Við lok 4. námsárs á nemandi að geta lesið sér til gagns og gamans, hátt og í hljóði (sjá Aðalnámskrá grunnskóla 2007, íslenska). Lokamarkmið í leshraða er að sem flestir nái að lesa að lágmarki um 200 atkvæði á mínútu í lok 4. bekkjar. Sá leshraði hefur frá fyrri hluta 20. aldar verið talinn tryggja að íslensk börn geti lesið sér til gagns, þ.e. námsbækurnar í 5. bekk. Sumir skólamenn telja 200 atkvæða markmiðið úrelt, það sé of lágt, aðrir telja að færri börn nái því nú en áður fyrr og því sé það óraunhæft. Engar rannsóknir eru til sem sýna hvað rétt er um þróun leshraða í íslensku ritmáli. Þess vegna könnuðum við hvað hæft er í málinu hvað varðar nemendur Flataskóla. Tafla 6. Hlutfall nemenda í 4. bekk sl. fimm ár sem náðu 200 o.fl. atkvæðum á mínútu, þ.e. einkunninni 8,0 Tafla 6 sýnir að rúmlega helmingur nemenda nær 200 atkv. o.fl. og um 20% til viðbótar eru nálægt því. Markmiðið, 200 atkvæði við lok 4. bekkjar, er því ekki óraunhæft. Þessar upplýsingar gera kleift að setja markmið um að fleiri rjúfi 200 atkvæða múrinn í lok 4. bekkjar en hingað til. Spurningin er hvort snemmtæk íhlutun, byrjendalæsið, upplýsingar um árangur fyrri árganga skólahverfisins í lestri, öflug hvatning og eftirfylgni við börn og heimili skili bættum árangri í framtíðinni. Upplýsingar í töflu 6 undirstrika mikilvægi þess að fylgja eftir framförum á eldra aldursstigi skólans, þ.e. hjá þeim sem ekki rufu 200 atkvæða múrinn. Lítill leshraði er algengur námsvandi á unglingastigi og í framhaldsskóla. Í stöðlun á leshraðaprófi fyrir 9. bekk (GRP 14e) kom í ljós að 200 atkvæði á mínútu telst fremur hægur raddlestur fyrir þann aldur. Þess vegna álíta greinarhöfundar að fylgjast þurfi með leshraða allra nemenda á miðstigi um leið og lesskilningi.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.