Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 7
7
Skólavarðan 1. tbl. 2012
Á fimmta hundrað kennara og annarra
starfsmanna grunnskóla flykktist á
ráðstefnuna í Ingunnarskóla.
Guðmundur B. Kristmundsson sagði m.a. að undir íslensku féllu
greinarnar íslenska sem hefðbundið móðurmál, íslenska sem annað
mál og íslenskt táknmál. Nú væri tími mikilla breytinga og mikilvægt
að öll börn fyndu fyrir því að þau eigi þetta tungumál og hefðu gagn
af því. Hæfni barna væri mjög mismunandi og gleðilegt væri að nú
skyldi setja hana í brennidepil og virða hana. Guðmundur varpaði
fram þeirri spurningu hvort þessi námskrá væri góð og svaraði:
„Ég hef ekki hugmynd um það. En það kemur í ljós þegar fer að
reyna á hana í skólunum“. Hann lýsti yfir trausti sínu á íslenskum
grunnskólakennurum og sagði að þeir gætu gengið stoltir til verka.
Hann sagði að nýja námskráin væri eflaust ekki fullkomin en mikilvægt
væri að kennarastéttin tæki hana í fóstur.
Jónína Vala Kristinsdóttir sagði að í megináhersluþáttum
stærðfræðihlutans væri tekið mið af grunnþáttunum sjö og áhersla lögð
á að nemendur öðlist stærðfræðilega hæfni. Í henni felst að geta spurt
og svarað með stærðfræði og kunna að fara með tungumál og verkfæri
hennar.
Nemendur þurfa því að öðlast hæfni í að:
• Setja fram og leysa þrautir með hjálp stærðfræðinnar
og leggja mat á eigin lausnaleiðir og annarra.
• Nota stærðfræðileg hugtök og greina tengsl þeirra.
• Velja og nota heppilegar aðferðir við útreikninga.
• Nota tungumál stærðfræðinnar til að ræða um, færa rök fyrir og
útskýra eigin tilgátur og annarra, útreikninga og niðurstöður.
• Nýta stærðfræði sem tæki til að leysa viðfangsefni, tileinka
sér það viðhorf að það sé gagnlegt að hafa hana á valdi
sínu og að með ástundun geti þeir náð tökum á henni.
Hún tíundaði síðan menntagildi stærðfræðinnar og hvernig hæfni í
stærðfræði styður fólk til að taka ígrundaðar ákvarðanir í daglegu
lífi og taka virkan þátt í og hafa áhrif á lýðræðissamfélag sem er í
stöðugri þróun. Hlutverk stærðfræðikennarans væri að stuðla að því að
nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni í stærðfræði og að skapa
þeim aðstæður til merkingarbærs stærðfræðináms þar sem þeir eru
virkir þátttakendur í að rannsaka, setja fram og sannreyna tilgátur. Við
mat á stærðfræðinámi sagði Jónína Vala að leitast þyrfti við að finna
hvað nemandinn getur og að matsverkefni þyrfti að setja þannig fram
að nemandinn gæti sýnt þekkingu sína.
Auður Torfadóttir sagði að megintilgangur tungumálanáms væri
að nemendur öðluðust alhliða hæfni til að nota tungumálið til
framtíðar sem lifandi verkfæri í fjölbreyttum tilgangi og við ólíkar
aðstæður. Hæfniviðmiðin væru flokkuð á eftirfarandi hátt og eru
tvö þau síðustu ný: Hlustun, lesskilningur, samskipti, frásögn, ritun,
menningarlæsi og námshæfni (að læra að læra). Lögð væri áhersla á
heildstætt, merkingarbært nám þar sem hæfniþættirnir væru samþættir.
Nemandinn ætti að vera gerandi í eigin námi og öðlast sjálfstæði,
alhliða menntun og þroska, jafnframt því sem hann næði tökum á
málinu. Grunnþættina mætti auðveldlega flétta inn í viðfangsefni
námsins, skipulagið og kennsluna. Að auki væru þættir eins og læsi,
sköpun og lýðræði samofnir námsferlinu sjálfu og það sama gilti um
þætti í lykilhæfninni, s.s. tjáningu, samskipti, miðlun og ábyrgð. Til
þess að nemendum tækist að ná hæfniviðmiðunum þyrftu að koma
til kennsluhættir, vinnubrögð og aðstæður sem rímuðu við þau og þá
þyrfti vel menntaða kennara sem hefðu gott vald á tungumálinu og
þeim starfsháttum sem við eiga.
Kristín Valsdóttir sagði að flókið hefði verið að finna út hvað væri
sameiginlegt með þeim sjö greinum sem falla undir skilgreininguna
list- og verkgreinar. Þó ýmislegt tengi greinarnar saman þá sé margt
sem greinir þær að hvað varðar inntak, tækni og vinnuaðferðir.
Niðurstaðan varð sú að fjallað er um kennsluhætti greinanna allra
og unnin sameiginleg hæfniviðmið út frá því. Síðan var þeim
skipt í annars vegar listgreinar og hins vegar verkgreinar og unnin
hæfniviðmið og námsmatsviðmið fyrir hverja grein. Breytingar
á námskrá í list- og verkgreinum felast fyrst og fremst í því að
stundafjöldi er ekki eyrnarmerktur fagi heldur er það í höndum skóla
og skólastjórnenda hvernig tímarnir innan faggreinarinnar eru notaðir.
Að lokum sagði Kristín að allt nema manneskjan væri breytingum
undirorpið. Hún hefði alltaf þörf fyrir að tjá sig og skapa.
RáÐstEfnuR
Fulltrúar þeirra starfshópa sem samið hafa kafla
um einstök námssvið fjölluðu um grunnþættina,
læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og
mannréttindi, jafnrétti og sköpun, og sýndu með
dæmum hvernig mætti útfæra þá í kennslunni.