Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 14
14
Skólavarðan 1. tbl. 2012sIÐAREgLuR
Siðareglur Kennarasambands Íslands voru fyrst lagðar fram til sam-
þykktar á öðru þingi hins nýja Kennarasambands árið 2002. Þá voru
reglurnar þrettán en frá því hafa þær verið endurskoðaðar reglulega og
þróaðar. Núna eru þær tólf. Fyrirsögnin hér að ofan er 11. siðareglan.
Siðareglurnar kallast á við lög og reglugerðir sem varða skóla
og aðrar samfélagslegar stofnanir en eru ekki lög í sjálfu sér. Þær
eru leiðbeiningar kennara í daglegu starfi , eins konar leiðarljós til
að meðhöndla og bregðast við aðstæðum sem upp kunna að koma í
samskiptum aðila innan skólans.
Kennarasambandið hefur lagt sig fram við að kynna siðareglurnar
vel og vandlega fyrir félagsmönnum og minna oft á þær. Þær eru
aðgengilegar á vef KÍ, þær hafa verið gefnar út í vönduðum bæklingi
og Skólavarðan hefur gert þeim skil og fjallað um þær af og til.
Síðastliðið vor fengu t.d. allir félagsmenn sendingu frá KÍ þar sem
bæklingurinn var meðal efnis.
Skólavörðunni barst til eyrna saga sem ungur kennari sagði úr starfi
sínu. Hann sagðist hafa lent í útistöðum við samstarfskonu sína sem
leiddu til þess að þau rifust og létu orð falla sem bæði sáu eftir. „Ég var
svo reiður og svo misboðið að mér var skapi næst að pakka saman og
hætta. Ég vissi ekki hvernig ég átti að snúa mér eða hvernig ég ætti að
bregðast við. Þá, fyrir algera tilviljun, blasti við mér bæklingurinn með
siðareglunum. Ég tók hann upp og las. Skyndilega höfðu siðareglurnar
nýja merkingu fyrir mér. Eftir stutta stund var mér runnin mesta
reiðin og þá sá ég málið í öðru ljósi og víðara samhengi. Það er svo
gott að láta minna sig á góð gildi og gömul sannindi. Ég sá líka að
ég hafði ekki, frekar en samstarfskona mín, verið algerlega faglegur
og ég hafði ekki sýnt henni fulla virðingu. Ég varð fyrri til að biðjast
fyrirgefningar, það var gott og við gátum leyst málið.“
Eiríkur Jónsson, fyrrverandi formaður KÍ, sagði í 5. tbl. Skóla-
vörðunnar 2010: „Inntak siðareglnanna er víðtækt og í þeim er komið
inn á marga hluti sem sjálfsagt er að hafa í heiðri í daglegum störfum
kennara. Reglurnar snerta með beinum hætti samstarf kennara innan
skóla svo og samstarf við foreldra og aðra hagsmunaaðila í skólastarfi .“
Kennari sýnir öðrum fulla
virðingu í ræðu, riti og framkomu
Siðareglur Kennarasambands Íslands 10 ára.
Texti: GG
Mynd: Ingi Jenson
VIÐ MENNTUM ÍSLAND!
SIÐAREGLUR KENNARA
Kennari:
1. Menntar nemendur.
2. Eflir með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir
sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu.
3. Sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.
4. Skapar góðan starfsanda og hvetjandi námsumhverfi.
5. Hefur jafnrétti að leiðarljósi.
6. Vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem
nemendur verða fyrir.
7. Kemur vel fram við nemendur og forráðamenn og
virðir rétt þeirra.
8. Gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn og
þagmælsku um einkamál þeirra sem hann fær
vitneskju um í starfi sínu.
9. Viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.
10. Vinnur með samstarfsfólki á faglegan hátt.
11. Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
12. Gætir heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.