Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 30
30
Skólavarðan 1. tbl. 2012sAmRæÐAn
Skóli á
tímamótum
Texti: GG
Myndir: JS og fleiri
Hver eru brýnustu verkefni
skólanna fram til 2020?
Nú er annar áratugur 21. aldar kominn vel á veg. Nýjar
kynslóðir verða til og byltingarkenndar breytingar hafa
átt sér stað á mörgum sviðum mannlífsins undanfarna
áratugi. Nýjar námskrár hafa nú litið dagsins ljós fyrir
leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og ákveðið
hefur verið að efla og lengja kennaranám. Það er því
engum vafa undirorpið að skólasamfélagið á Íslandi
stendur á tímamótum. Í öðrum kafla námskránna segir
að almenn menntun stuðli á hverjum tíma að aukinni
hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir
daglegs lífs og að hún miði að því að efla skilning
einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum
og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu
samfélagi. Skólavarðan spurði nokkra félagsmenn KÍ
hvað þeir sæju þegar þeir litu til framtíðar og veltu
fyrir sér hver væru brýnustu verkefni skólanna á
Íslandi fram til ársins 2020. Svörin þeirra hljóða svona:
„Það sem mér dettur fyrst í hug er að gera nemendur virkari í
námi sínu með því að veita þeim greiðan aðgang að hvers kyns
upplýsingum og nýta upplýsingatæknina til hins ýtrasta. Það kallar
á breytta kennsluhætti og annan hugsunarhátt. Hlutverk kennarans
ætti að vera að kenna nemendum að læra og veita þeim aðhald í
þekkingarleit sinni. Við búum í upplýsingasamfélagi og skólinn þarf
að taka mið af örri þróun og fylgja henni eftir.“
„Brýnasta verkefni skólanna verður enn sem fyrr að mennta nem-
endur. Ekki er lengur víst að nemenda bíði eitt ákveðið starf eða
hlutverk. Vissulega þarf áfram að bjóða upp á undirbúning fyrir
sérhæft framhaldsnám en jafnframt þarf að undirbúa nemendur
til að vera sveigjanlega og tilbúna til að takast á við margslungin
verkefni. Ég held að í takt við þetta muni samskipti og samvinna
innan veggja jafnt sem út fyrir veggi skólans aukast og það verður
líka mikilvægara en áður að vera skapandi og úrræðagóður í
skólastarfinu.“
„Mikilvægasti þátturinn í að gera skóla að góðum skóla er starfs-
fólkið. Fullkominn tölvukostur eða þaulhugsaðar námskrár geta
gert sitt gagn en jákvæðir, vinnusamir og samheldnir starfsmenn
hafa úrslitaáhrif. Því þarf starfsandi innan veggja skólans að vera
góður og svo þurfa laun að vera mannsæmandi eftir fimm ára
háskólanám. Það er því brýnt verkefni allra sem vinna í skólanum
að bæta starfsandann því ef starfsmenn eru jákvæðir, ánægðir
og vinnusamir þá smitast það til nemenda sem verða jákvæðari,
ánægðari og duglegri í allri sinni vinnu og þegar öllu er á botninn
hvolft þá hlýtur það alltaf að vera markmiðið.“
Alma Hlíðberg,
grunnskólakennari
Hörðuvallaskóla
Bjarnheiður Kristinsdóttir,
framhaldsskólakennari
í Menntaskólanum við
Hamrahlíð
Haraldur Bergmann Ingvarsson,
grunnskólakennari í Hagaskóla