Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 29
29
Skólavarðan 1. tbl. 2012sKóLInn
bætir við. „Oft er farið í leiki en frjálsi leikurinn er í hávegum hafður
og nestisstundin er ómissandi hjá Fjörulöllunum. Á meðan börnin
borða nestið er spjallað saman um upplifun þeirra í fjörunni og rifjað
upp í sameiningu hvað þau hafa fundið og séð,“ segir Ingibjörg. „Við
fengum svo formlega aðild að Fuglavernd Íslands á Degi náttúrunnar
þann 16. september 2011. Það finnst okkur sýna að leikskólabörn eru
virkir þjóðfélagsþegnar sem taka þátt í að vernda umhverfi sitt og þá
fiðruðu vini sem deila því með okkur.“
Upplýsingatækni og alþjóðleg samskipti
Rakel G. Magnúsdóttir er verkefnisstjóri í upplýsingamennt á
Bakkabergi og fer hún á milli stöðva. Verkfærin sem hún notar í sinni
kennslu eru Ipad-tölvur. Hún kennir börnunum á Ipad og notagildi
hans. Þau nota tölvuna m.a. til að taka ljósmyndir og vinna þær, þau
læra á tölvupóst og stofna netfang fyrir sig sem hóp þannig að þau geti
sent póst á milli starfsstöðva og til foreldra. Einnig læra þau ýmislegt
sem tengist þeirra daglega lífi í gegnum verkefni í Ipad og Smartskjá.
Síðast en ekki síst geta þau kynnst börnunum á hinni starfsstöðinni
í gegnum tölvupóst og FaceTime. Aðspurð sagði Ingibjörg að mesti
ávinningurinn af þessu verkefni væri að sjá hvað börnin blómstruðu
í þessari vinnu. Það væri ótrúlegt að sjá hvað þau lærðu margt og
væru snögg að því. Margs konar smáforrit eru notuð í Ipadinum og
eru börnin snögg að tileinka sér þau. „Áður en við vissum af voru
mörg farin að mynda sig við að reyna að lesa og reikningur varð mjög
vinsæll. Svo höfum við heyrt að börnin útskýri Ipadinn fyrir afa og
ömmu þegar heim er komið,“ segir Ingibjörg og hlær við. Árið 2001
fékk Bakkaberg styrk úr Sprotasjóði til að þróa þetta verkefni. Til
gaman má geta þess að Rakel fékk Hvatningarverðlaun Skóla- og
frístundaráðs Reykjavíkurborgar fyrir frumkvöðlastarf.
Bakkaberg er nú í fjórtánda sinn þátttakandi í eTwinning-verkefni
og í þetta sinn er það veðurfræðilegt. Börnin fylgjast með veðrinu á
hverjum degi og læra þannig um veðráttuna. Síðan skoða þau með
hjálp tækninnar hvernig veðurfar er í samstarfslöndunum, það er þó
bara gert einstöku sinnum. Öll löndin búa til svokallað veðurtré og
fylgjast með veðrinu á virkum dögum. Síðan setja þau laufblöð með
ákveðnum lit á tréð og eru þau tákn fyrir veðráttuna. Gult laufblað er
fyrir sólina, grátt þegar er skýjað, blátt fyrir rigninguna og hvítt fyrir
snjóinn. Á hverjum degi er eitt barn fengið til að vera veðurfræðingur
og fer hann ásamt kennara og athugar hitastigið, veðurskilyrði og síðan
eru vangaveltur um það hvernig er best að klæða sig miðað við veður.
Sameining til að efla faglegt starf
Ingibjörg segir að sameining Bakka og Bergs hafi gengið vel fyrir
sig en hafi auðvitað verið geysimikil vinna. Hún segir að ferlið allt
hafi verið mjög lærdómsríkt fyrir sig og aukið víðsýni sína. „Bakki
og Berg voru sameinaðir til þess að efla hið faglega starf en ekki í
sparnaðarskyni,“ segir Ingibjörg. „Leiðarljósin okkar á Bakkabergi
eru leikur, samvinna og virðing og því segjum við eftirfarandi um
sameininguna: Við leikum okkur að því að rúlla sameiningunni upp
með góðri samvinnu á milli starfsstöðva sem byggir meðal annars á
því að bera virðingu fyrir starfi okkar, mannauði og umhverfi.” Þegar
Ingibjörg er spurð um verri hliðar sameiningarinnar þá taldi hún að það
hefði verið auðveldara ef styttra væri á milli starfsstöðva. „Þó má segja
að verstu hliðar sameiningarinnar hafi hins vegar verið hin neikvæða
umfjöllum sem fjölmiðlar birtu af sameiningum skóla almennt.“
Ingibjörg talar mjög fallega um starfsfólkið sitt og leggur mikla
áherslu á að það vinni afar gott og metnaðarfullt starf. Heimasíða
Bakkabergs er sérstaklega efnismikil og fróðleg. Þar má lesa nánar um
hið blómlega starf sem fram fer á þessum kraftmikla leikskóla beggja
megin við Kollafjörðinn.