Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.06.2016, Blaðsíða 36
36 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.6. 2016
L
engstu járnbrautargöng veraldar,
Gotthard-jarðgöngin í Sviss, voru
opnuð formlega síðastliðinn miðviku-
dag. Þau eru 57 kílómetra löng, mikið
þrekvirki og á bak við þau er um-
fangsmikil þekking á viðfangsefninu
og hugvit færustu sérfræðinga. Verðmiðinn er ekki af
rýrara taginu, jafnvirði 1.500 milljarða króna, en kom
einnig fram í mannslífum, því að níu manns létu lífið
við gangagerðina.
Samgöngubætur af þessu tagi geta breytt miklu
fyrir stór landsvæði, örvað hagvöxt og velmegun. Sum
samgöngumannvirki af þessu umfangi eru jafnvel svo
mögnuð að þau breyta aðstæðum í heilu heimsálfun-
um og valda titringi í heimsveldum. Súesskurðurinn á
milli Rauðahafsins og Miðjarðarhafsins er eitt skýr-
asta dæmið þar um. Menn í verslunarveldinu Fen-
eyjum höfðu strax á fimmtándu öld velt fyrir sér kost-
um þess að tengja þessi tvö höf saman og þegar
Napóleon lagði undir sig Egyptaland um aldamótin
1800 lét hann verkfræðinga meta hvernig hægt væri
að grafa skurð á milli þessara hafa. Það var svo rúmri
hálfri öld síðar, eftir að Frakkar höfðu misst aftur yf-
irráðin í landinu, sem þeir náðu engu að síður sam-
komulagi við landstjórann þar um að grafa skurðinn,
sem gert var á árunum 1859 til 1869.
Þýðingarmikill skurður
Hlutafélagið um skurðinn var að meirihluta í eigu
franskra fjárfesta og að minnihluta til í eigu Egypta,
en Bretar, sem einnig höfðu mikil ítök á svæðinu, voru
fullir efasemda um þessa samgöngubót. Þeir óttuðust
að hún kynni að skaða yfirburði breska heimsveld-
isins á höfunum. Engu að síður kom í ljós þegar
skurðurinn hafði verið grafinn að bresk skip voru í
miklum meirihluta þeirra sem sigldu um skurðinn,
enda stórbætti hann samgöngur við Indland, krúnu-
djásnið sjálft. Síðar, þegar egypsk stjórnvöld skorti
fé, ákvað breski forsætisráðherrann Disraeli að Bret-
land skyldi kaupa sig inn í Súes-hlutafélagið, sem gert
hafði 99 ára samning um reksturinn. Sá samningur
hélt þó ekki til enda, því að Nasser forseti Egypta-
lands þjóðnýtti skurðinn árið 1956, sem endaði með
átökum sem herir Ísraels, Breta og Frakka tóku þátt
í. Við bættist pólitískur þrýstingur frá Sovétríkjunum
og Bandaríkjunum, sem varð til að deilan leystist með
því að gömlu yfirráðaþjóðirnar Bretar og Frakkar
voru niðurlægðar og urðu að gefa eftir.
Saga þessa merkilega samgöngumannvirkis sýnir
vel hversu mikilvægt það er, en það þurfti raunar ekki
söguna til; menn gerðu sér strax grein fyrir þýðing-
unni þegar skurðurinn var tekinn í notkun. Til marks
um það eru hátíðarhöldin sem Egyptar stóðu fyrir
með þátttöku allra helstu fyrirmenna Evrópu, enda
var vilji til að horfa þangað og lyfta Egyptalandi upp
úr fátæktinni sem þar ríkti með þekkingu að norðan.
Meðal þess sem ætlunin var að leyfa gestunum að
njóta til að lyfta andanum var verk eftir Verdi sem
leiðtogi Egypta hafði fengið til að semja af þessu til-
efni og greitt fyrir sem svarar til á annað hundrað
milljóna króna. Verkið tafðist reyndar og var ekki
frumflutt fyrr en tveimur árum síðar í óperuhúsinu í
Kaíró. Verkið Aida er engu að síður óvenjulegur og
merkilegur afrakstur þess mikla framfarahugar sem
ríkti í Egyptalandi upp úr miðri nítjándu öld.
Egypska „frelsisstyttan“...
Annað stórvirki sem tengist gerð Súesskurðarins
stendur á háum stalli á eyju í höfninni í New York og
heldur þar á kyndli til að lýsa ferðalöngum leiðina inn
í land frelsisins; Frelsisstyttan sjálf. Hönnuður henn-
ar, franski myndhöggvarinn Auguste Bartholdi, hafði
ásamt fleiri áhugasömum listamönnum ferðast um
Mið-Austurlönd, einkum Egyptaland, enda hafði
áhuginn á menningu landsins vaxið mjög í Evrópu eft-
ir fund Rósettusteinsins og þeirra þýðinga sem hann
gerði mögulegar á fornu egypsku skrifuðu máli. Bart-
holdi varð heillaður af risavöxnum fornum styttum
Egypta og ræddi við egypsk stjórnvöld um að reisa
gríðarstóra styttu af egypskri bóndakonu, klæddri í
kjól með kyndil í hendi. Styttuna kallaði hann
Egyptaland varpar ljósi á Asíu, eða Framfarir varpa
ljósi á Asíu. Hann gerðir margar mismunandi útgáfur
af styttunni væntanlegu en þegar hann var orðinn
sáttur við afraksturinn og mætti við opnun Súes-
skurðarins, höfðu egypsk stjórnvöld hætt við að láta
reisa styttuna og létu myndarlegan vita duga. Stend-
ur sá enn í Port Said. Þeim leist ekki á kostnaðinn við
styttuna mögnuðu, enda var sjóður egypska ríkisins
farinn að láta mjög á sjá, sem endaði raunar með því
að landið missti fjárhagslegt sjálfstæði sitt, en það er
önnur saga.
... og sú bandaríska
Þrátt fyrir þetta bakslag missti Bartholdi ekki móð-
inn og náði í samstarfi við Frakkann Edouard de La-
boulaye að safna fé fyrir gerð hennar með ýmsu móti
hjá frönskum almenningi og stjórnvöldum. Á móti
tókst bandarískum áhugamönnum, ekki síst fyrir
áeggjan útgefandans Joseph Pulitzer sem beitti dag-
blaði sínu í þessum tilgangi, að safna fé fyrir stallinum
meðal efnamanna og almennings. Styttan, sem átti að
rísa á aldarafmæli stjórnarskrárinnar, var afhjúpuð
áratug of seint en stendur sem tákn um þá hugsjón
einstaklingsfrelsis og einstaklingsframtaks sem birt-
ist í stjórnarskránni bandarísku.
Frelsisstyttan hefur frá upphafi verið eitt helsta
tákn Bandaríkjanna og hver veit nema hún eigi sinn
þátt í því hversu vel hefur tekist til þar í landi að halda
í þær hugsjónir sem helst geta stuðlað að því að færa
mannkynið fram á veginn, bæði í anda og efnahag. Og
ef til vill er það einmitt einhvers konar frelsisstytta
eða ámóta áminning um hvað það er sem lönd og lýður
þurfa til friðar og framfara sem skortir í Mið-Austur-
löndum og Norður-Afríku. Ef til vill hefði verið far-
sælt ef Bartholdi hefði tekist að fá fé til að reisa ljós-
kerið við mynni Súesskurðarins. Það er að minnsta
kosti býsna drungalegt á þessum slóðum og óhætt að
segja að töluvert skorti á þá framfarahugsun sem ýtti
undir gerð hins mikla samgöngumannvirkis á
nítjándu öldinni, að ekki sé talað um margt af því
merkilega sem á þessum slóðum spratt fram fyrr á
öldum á meðan meira myrkur grúfði yfir Evrópu.
Hverju er um að kenna?
Eitthvað gerðist sem valdið hefur þeim hörðu átökum
sem einkenna þetta svæði og hefur orðið til þess að
það hefur á margan hátt dregist aftur úr þeim sem
sótt hafa fram. Olían hefur tryggt yfirgengilega auð-
legð sumra en lítið hjálpað almenningi á svæðinu í
samanburði við almenning víða annars staðar þar sem
Lausnin gæti
legið í því að
tjóðra úlfaldann
’
Bartholdi varð heillaður af risavöxnum
fornum styttum Egypta og ræddi við
egypsk stjórnvöld um að reisa gríðarstóra
styttu af egypskri bóndakonu, klæddri í kjól
með kyndil í hendi. Styttuna kallaði hann
Egyptaland varpar ljósi á Asíu.
Reykjavíkurbréf03.06.16