Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.06.2016, Side 37
auðlindir eru af skornum skammti. Sumir kenna olí-
unni jafnvel um, hún hafi tryggt valdhöfum yfirráð og
gert þeim kleift að halda almenningi niðri. Þetta er
ekki alveg úr lausu lofti gripið en skýrir ekki ástandið
alls staðar, auk þess sem olíu má finna víðar án þess
að þjóðirnar séu undirokaðar og framfarir skorti.
Því er einnig kennt um að fyrir um einni öld hafi lín-
ur sem ekki hafi verið miklar forsendur fyrir, verið
dregnar á blað til að tákna ríki. Þannig hafi þjóðar-
brot og trúarhópar endað í ýmsum ríkjum sem valdi
togstreitu, átökum og þaðan af verra ástandi. Eins og
með olíuna eru einhver rök fyrir þessu en á móti má
spyrja, hvar hefði átt að draga línurnar? Var það yfir-
leitt hægt svo að allir lentu með sínum líkum? Nei, því
fer fjarri. Þar að auki eru víðar dæmi um ríki þar sem
ólík þjóðarbrot og trúarhópar lifa í sátt og samlyndi.
Hér var í upphafi minnst á Sviss í öðru samhengi. Það
er prýðilegt dæmi.
Vissulega getur þó tekið tíma fyrir ríki að slípast
saman og verða ein heild. Bandaríkin fæddust ekki al-
sköpuð svo dæmi sé tekið og þar voru heiftarleg inn-
anlandsátök um tíma. Slík dæmi, þótt ólík séu eins og
gjarnt er um dæmi, gefa von um að fyrir botni Mið-
jarðarhafs geti menn einnig lært að lifa í sátt og sam-
lyndi. En til þess þurfa forsendur að vera til staðar,
svo sem umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra
og virðing fyrir lögum og rétti. Þetta næst tæplega
fram nema í lýðræðis- og réttarríkjum, en þau lönd
sem um ræðir falla almennt í hvorugan flokkinn, sem
er mikill vandi og hvorki auðleystur né skjótleystur.
Þrátt fyrir söguna
skortir áherslu á vísindin
Þó að þetta svæði og þær menningarþjóðir sem það
byggðu og byggja í meginatriðum enn hafi á öldum
áður verið uppspretta háskóla og vísindastarfs er
staðan því miður breytt. Skortur á almennri menntun
og vísindalegri framfarahugsun háir þeim ríkjum
sem þar eru. The Economist gerir rannsóknir og þró-
un í þessum heimshluta að umfjöllunarefni í nýjasta
tölublaði sínu og bendir á að í samanburði við ríki
OECD fari afar lágt hlutfall landsframleiðslunnar til
slíkra hluta. Landsframleiðsla Arabaríkjanna er 5,9%
af landsframleiðslu heimsins en ríkisframlög til rann-
sókna og vísinda eru innan við 1% og að auki illa
varið. Verra er að einkafyrirtæki verja þar nánast
engu til rannsókna og vísinda, en standa fyrir meiri-
hluta þessa þáttar víða í veröldinni. Meðal þeirra
ríkja er Ísrael, sem er framarlega á ýmsum sviðum
og sýnir að það er ekki staðsetningin sem ræður för,
heldur það umhverfi sem stjórnvöld skapa. Og það er
ekki heldur fólkið sem í eðli sínu er laust við fram-
faraþrána sem einkennir manninn. Erlendis hefur
fólk frá þessu svæði náð miklum árangri við að beita
hugvitinu til framfara. Steve Jobs, sem var hálfur
Sýrlendingur, er ef til vill þekktasta dæmið.
Trúin krefst ekki
vanrækslu hins veraldlega
Trúarbrögðin á svæðinu hafa iðulega verið nefnd sem
ástæða vandans sem þar ríkir og vissulega er mikið
til í því, en það snýst þó að verulegu leyti um
hvernig þau eru túlkuð og stunduð. Það er til
dæmis ekki líklegt til árangurs að loka þurfi versl-
unum oft á dag eins og í Sádi-Arabíu vegna bæna-
halds. Það er ekki heldur vænlegt til árangurs að
halda konum niðri í stað þess að njóta krafta
þeirra eins og eðlilegt væri, eða að láta trúarsetn-
ingar með öðrum hætti hafa óeðlileg áhrif á þjóðfé-
lagið. Eðlilegt er að menn vilji rækta trú sína og að
þjóðfélagið taki tillit til þess, en það hefur ekki
reynst farsælt að yfir öllu hvíli þungur hrammur
klerkastéttar sem setur almenningi óeðlilegar
skorður, stendur í vegi fyrir umbótum og heftir
framfarir.
Ein af dæmisögunum um Múhameð spámann
var þegar hann hitti bedúína nokkurn sem var með
úlfalda, en hafði ekki tjóðrað hann heldur lét hann
ganga lausan. Múhameð spurði bedúínann hvers
vegna hann tjóðraði ekki úlfaldann svo hann slyppi
ekki í burtu. Bedúíninn svaraði: „Ég set traust
mitt á guð.“ Þá sagði Múhameð: „Þú skalt treysta
guði, en tjóðraðu úlfaldann!“
Vandi Mið-Austurlanda og Norður-Afríku er svo
snúinn að hann virðist oft óleysanlegur með öllu.
Engu að síður verður stöðugt að leita lausnar og
smám saman hljóta þessi vandræði að leysast eins
og önnur. Fyrsta skrefið gæti verið að þeir sem
þar ráða mestu tækju tillit til þessarar ábendingar
um að vanrækja ekki það sem veraldlegt er. Hún
kemur úr átt sem þeim ætti að hugnast.
Samsett mynd/Elín Arnórsdóttir
5.6. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 37