Morgunblaðið - 13.09.2016, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 13.09.2016, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. SEPTEMBER 2016 Láttu okkur ráða Elja starfsmannaþjónusta 4 150 140 elja.is elja@elja.is Þarftu að ráða? Iðnaðarmann Bílstjóra Bifvélavirkja Þjónustufólk Öryggisvörð Lagerstarfsmann Matreiðslumann BAKSVIÐ Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Í kjölfar þess að íslenska ríkið tók yfir Landsbankann, Kaupþing og Glitni í október 2008 með neyðarlögum, var Fjármálaeftirlitinu (FME) falið að hafa umsjón með endurreisn þeirra. Fljótlega upp úr áramótum 2009 hóf þáverandi fjármálaráðherra, Stein- grímur J. Sigfússon, hins vegar samn- ingaviðræður við erlenda kröfuhafa og gekk með því í berhögg við ákvæði neyðarlaganna svokölluðu. Þetta er fullyrt í nýrri skýrslu sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur lagt fram opinberlega og ber yfirskriftina „Einkavæðing bankanna hin síðari.“ Formaður nefndarinnar, Vigdís Hauksdóttir, og varaformaðurinn, Guðlaugur Þór Þórðarson, kynntu efni hennar á blaðamannafundi síð- degis í gær. Ásamt þeim í meirihluta nefndarinnar sitja þau Valgerður Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Ásmundur Einar Daðason og Harald- ur Benediktsson. Í skýrslunni er því meðal annars haldið fram að með samningunum hafi íslenska ríkið fært íslensku bankana í fang erlendra kröfuhafa ásamt tug- milljarða meðgjöf frá skattgreiðend- um. Hins vegar hafi áhættunni ekki verið létt af ríkissjóði og hafi hún sam- anlagt numið tæpum 300 milljörðum króna. Áhættan af Arion banka hafi verið 117 milljarðar, Íslandsbanka 57,3 milljarðar og Landsbankanum 122 milljarðar króna. Þar segir enn- fremur: „Enginn vafi leikur á því að ríkið bar alla áhættu af rekstri bank- anna og ef illa hefði gengið hefði tapið lent á ríkissjóði og þar með skatt- greiðendum. Ávinningur af rekstri bankanna var hins vegar í tilviki Arion og Íslandsbanka ekki hjá sama aðila og áhættan.“ Í fréttatilkynningu sem nefndin sendi frá sér í tengslum við birtingu skýrslunnar segir: „Útkoma þessara samninga varð sú að kröfuhafar eignuðust tvo bankanna nánast að fullu án þess að leggja fram eðlilegt fjármagn af sinni hálfu. Samn- ingamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir almennings. Um leið afsöluðu þeir meira og minna mögulegum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð sem það tók á sig frá hruni bankanna.“ Fengu 44 milljarða gefins Skýrsluhöfundar benda á að þegar Arion banki og Íslandsbanki komust í hendur kröfuhafa þá hafi það verið gert án þess að eigið fé þeirra hafi ver- ið reiknað upp. Þannig hafi kröfuhaf- arnir fengið 44 milljarða króna „gef- ins“ án þess að eiga tilkall til þeirra fjármuna. Er þar vísað til uppsafnaðs hagnaðar bankanna frá stofnun og fram til þess tíma þegar þeir voru af- hentir en hagnaður Arion banka á árinu 2008 nam tæpum 5 milljörðum og tæpum 13 milljörðum árið 2009 en hagnaður Íslandsbanka 2,4 milljörð- um árið 2008 og tæpum 24 milljörðum árið 2009. Þá er einnig bent á að þegar afhending bankanna átti sér stað hafi verið látið ógert að reikna upp áfallna vexti á RIKH 18 ríkisskuldabréfum sem bankarnir höfðu fengið frá rík- issjóði til fjármögnunar. Þannig hafi kröfuhafar fengið ríkisskuldabréfin afhent ásamt áföllnum vöxtum og að uppgjör vegna þeirra vaxtagreiðslna hafi farið fram löngu síðar þar sem ríkissjóður hafi staðið uppi með millj- arðatap. Mikil gagnaöflun liggur að baki Vigdís Hauksdóttir, formaður fjár- laganefndar, segir að skýrslan varpi nýju ljósi á þá atburðarás sem leiddi til þess að tveir af þremur nýstofn- uðum viðskiptabönkum færðust úr höndum ríkisins og til erlendra eig- enda. „Alþingi Íslendinga barst erindi í ársbyrjun 2014 er varðaði hugsanleg brot í tengslum við einkavæðingu bankanna og í kjölfarið fór af stað gagnaöflun og athugun á þessum mál- um hjá meirihluta fjárlaganefndar. Niðurstöður skýrslunnar sem við leggjum nú fram eru að miklu leyti byggðar á þeirri vinnu. Hún sýnir svo ekki verður um villst að ríkið tók á sig 296 milljarða áhættu af stofnun bank- anna en á sama tíma fengu erlendir kröfuhafar næstum allan ávinning af rekstri þeirra árin á eftir.“ Guðlaugur Þór segir að það hafi komið sér verulega á óvart hversu há- ar upphæðir var um að tefla í þessu efni. „Ég hafði gert mér grein fyrir því að ríkið hefði tekið á sig mikla áhættu en mig grunaði ekki að þetta hefðu verið upphæðir af þessari stærðar- gráðu. Það er þó jákvætt í þessu öllu að sá árangur sem núverandi ríkis- stjórn náði með samningum um stöð- ugleikaframlög slitabúa föllnu bank- anna, hefur nú tryggt ríkinu það sem því bar allan tímann. Það var þó alls ekki sjálfsagt að það yrði niðurstað- an,“ segir Guðlaugur Þór. Þá segir Guðlaugur að það hafi komið sér mjög á óvart hversu erfitt það hafi reynst að fá gögn afhent varð- andi þessi mál og segir hann að skýrslan hefði verið komin út fyrir löngu ef ríkisstofnanir þær sem fyr- irspurnum var beint að hefðu brugðist við með eðlilegum hætti. Hluti af Icesave-fléttu? Í skýrslunni er bent á að ríkið hafi lagt fram hlutafé í Landsbankanum sem nam 122 milljörðum króna en kröfuhafar gamla bankans 28 millj- arða. Ríkið greiddi gamla Lands- bankanum 2 milljarða fyrir kauprétt að þeim hlut sem svaraði til 17% hlutafjár í nýja bankanum. Því hafi tapsáhætta ríkisins numið 122 millj- örðum en ríkið hafi getað eignast all- an ávinninginn af starfsemi bankans eftir að 92 milljarða króna skilyrt skudlabréf hafði verið greitt upp. Þá segir: „Kauprétturinn sem nam 2 milljörðum átti að tryggja endur- kaup á 17% hlutnum sem kröfuhaf- arnir fengu án endurgjalds. Það er fróðlegt að skoða þá verðlagningu því fyrir 92 milljarða króna fékk ríkið til baka 17% hlut. Jafngildir það verðmati á Landsbankanum að fjár- hæð 541 milljarði króna, langt um- fram raunvirði.“ Þar segir ennfrem- ur: „Ekki fæst betur séð en að þessi flétta hafi verið gerð til þess eins að færa Icesave-skuldbindingar yfir á skuldara nýja Landsbankans.“ Hvorki Vigdís né Guðlaugur Þór vildu kveða upp úr um hver næstu skref yrðu í málinu önnur en þau að kynna skýrsluna fyrir minnihluta fjárlaganefndar. Spurð hvort til greina kæmi að stofnuð yrði sérstök rannsóknarnefnd á vettvangi Alþing- is sögðu þau að það yrði að koma í ljós en að erfitt yrði fyrir núverandi fjárlaganefnd að fylgja málinu sér- staklega eftir því umboð hennar rynni út samhliða þingkosningum nú í október. Tók á sig 300 milljarða króna áhættu við endurreisn bankanna Morgunblaðið/Eggert Kynning Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir kynntu skýrslu um einkavæðingu bankanna hina síðari.  Meirihluti fjárlaganefndar segir kröfuhafa hafa fengið bankana með tugmilljarða meðgjöf frá skattgreiðendum Steingrímur J. Sigfússon segir það þvætting að stjórnvöld hafi látið spila með sig af ótta við málsókn vegna neyðarlaga við uppgjör föllnu bankanna. Orð Vigdísar Hauks- dóttur, formanns fjárlaganefndar, um að stjórnvöld hefðu látið spila með sig, segir Steingrímur vera ögurmæli enda hafi neyðarlögin verið grunnurinn að vinnu stjórnvalda í tengslum við uppgjör bankanna. „Allir gerðu sér grein fyrir því að það myndi reyna á neyðarlögin fyr- ir dómstólum og EFTA,“ segir Steingrímur. „Það voru allir bjart- sýnir á að neyðarlögin myndu halda og öllum málflutningi var hagað þannig.“ Þá bendir Steingrímur á að ef ekki hefði náðst samkomulag um uppgjör milli nýju og gömlu bank- anna hefði komið til málaferla og það hefði reynst Íslandi þungbært. Þegar rætt var við Steingrím hafði hann ekki kynnt sér efni skýrslunnar ítarlega en sagði að í fljótu bragði virtist sem ekkert nýtt kæmi þar fram. Hann gagnrýnir þó „einkaframtak“ þeirra Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og segir augljóst að það sé maðurinn sem leiðangurinn sé á eftir. Hins vegar hafi mikið af færu fólki komið að þessari vinnu á sínum tíma og honum þyki það mið- ur að það fólk þurfi að sitja undir linnulausum tilefnislausum árásum. Spurður út í þá gagnrýni að ís- lenska ríkið hefði tekið á sig veru- lega áhættu við endurreisn banka- kerfisins segist Steingrímur ekki skilja hvar skýrsluhöfundar séu staddir í heiminum. „Stóðu menn í röðum og buðust til að taka áhættu?“ spyr Steingrímur og bend- ir á að Brynjar Níelsson hafi verið öllu sanngjarnari þegar hann tók málið fyrir hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. ash@mbl.is Segir ekk- ert nýtt koma fram Steingrímur J. Sigfússon Samandregin niðurstaða skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, Einkavæðing bankanna hin síðari, er svohljóðandi: „1. Rétturinn til að taka allt yfir í ís- lenskum krónum og greiða fyrir í ís- lenskum krónum var gefinn eftir. 2. Heimtur af yfirfærðum eigna- söfnum voru gefnar til gömlu bank- anna: a. með skuldabréfum tengdum heimtum, b. með því að gefa eftir ávinning af rekstri bankanna fram til þess tíma er hlutabréf voru afhent gömlu bönk- unum, c. með því að afhenda hlutafé til gömlu bankanna. 3. Ríkið tók áfram á sig meginþorra áhættunnar af rekstri bankanna: a. í formi hlutafjárframlags sem í al- vöru var greitt, b. vegna víkjandi lána sem voru langt frá því að verða verðlögð eðlilega og í tilviki Arion með breytirétti að kröfu skuldara, c. í formi lausafjárfyrirgreiðslu á kjörum sem voru mun betri en mark- aðskjör sem klárlega hefði verið dregið á að fullu ef illa hefði árað í rekstri nýju bankanna. Öll áhætta á því sem miður hefði getað farið var því ríkisins. 4. Ríkið gaf út skuldabréf til bank- anna á gengi stofnefnahagsdags en ekki gengi samningsdags og færði þannig gengismun frá nýju bönkunum til þeirra gömlu. 5. Ríkið samþykkti að greiða vexti til bankanna á hlutafjárloforð frá stofn- degi en krafðist ekki hlutdeildar í hagnaði þeirra fyrir sama tímabil. 6. Ríkið gaf eftir veðkröfur Seðla- bankans á gömlu bankana og afhenti þannig a.m.k. í tilviki Arion verðmæti til gamla bankans sem voru umfram yfirteknar veðkröfur nýja bankans og skildi Seðlabankann eftir með almenna veðkröfu í bú Arion. 7. Ríkið samþykkti að taka á nýju bankana og þar með ríkið ýmsan kostnað tengdan gjörningum þessum. 8. Ríkið var áfram með megnið af áhættunni af rekstri bankanna þrátt fyrir að hafa gefið eftir meginþorrann af mögulegum ávinningi af heimtum til gömlu bankanna. Hugsanlegt tap af rekstri bankanna átti að lenda á rík- issjóði en hagnaðurinn átti að verða eftir í bönkunum.“ Tap átti að lenda á ríkissjóði Morgunblaðið/Eggert Skýrslan Varpar ljósi á málið.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.