Dagblaðið Vísir - DV - 05.06.2015, Side 22
Helgarblað 5.–8. júní 201522 Umræða
Björn Jón Bragason
bjornjon@dv.is
Fréttir úr fortíð
„Staðarákvörðun
ókunn, allir á lífi“
n Í haust eru liðin 65 ár frá Geysisslysinu n Björgunarvél festist á Vatnajökli
G
eysir, millilandavél Loftleiða,
átti að lenda á Reykjavíkur-
flugvelli tíu mínútum eft-
ir miðnætti föstudaginn 15.
september 1950, en vélin
hafði haldið frá Lúxemborg klukk-
an 16.30 að íslenskum tíma. Engir
farþegar voru um borð, aðeins sex
manna áhöfn. Eðlilegt loftskeyta- og
talsamband var við vélina frá Reykja-
víkurflugvelli er hún var í nánd við
Færeyjar. Þá var klukkan 21.30. Tæpri
hálfri klukkustund síðar náðist aft-
ur samband við vélina og taldi flug-
stjórinn hana nærri landi. Flugvélin
yrði á undan áætlun og myndi lenda
í Reykjavík klukkan 23.30.
Ekkert bólar á vélinni
Áætlað var að Geysir yrði við Vest-
mannaeyjar klukkan 23.10 og þá kall-
aði flugturninn í Reykjavík til vélar-
innar en fékk ekkert svar. Kallað var
nokkrum sinnum en það bar ekki ár-
angur. Töldu flugumferðarstjórar lík-
legast að senditæki vélarinnar hefðu
bilað. Þegar komið var fram yfir mið-
nætti og ekkert bólaði á vélinni þótti
sýnt að slys hefði orðið. Lýst var yfir
neyðarástandi og öllum flugumferð-
arstöðvum á Norður-Atlantshafi gert
viðvart. Þá voru leitarflokkar ræstir út
víðsvegar um Suðurland.
Leitarflugvélar héldu í loftið í
birtingu, alls níu vélar. Einnig var leit-
að á sjó og landi fram eftir föstudeg-
inum og alla helgina, en án árangurs.
Íbúar í Álftafirði höfðu heyrt í flugvél
að kvöldi fimmtudagsins og var talið
fullvíst að þar hafi Geysir verið á ferð.
Var talið að vélin hefði þá flogið inn
yfir landið norðar en ráð var fyrir gert
og líklega rekist á fjall. Ekkert sást til
vélarinnar þrátt fyrir mikla leit.
„Allir á lífi“
Klukkan 13.55, mánudaginn 18. sept-
ember, nam Kristján Júlíusson, loft-
skeytamaður á varðskipinu Ægi, veikt
neyðarkall frá Geysi, en skipið var þá
statt út af Skálum á Langanesi. Fyrsta
skeytið var svohljóðandi: „Staðar-
ákvörðun ókunn, allir á lífi.“ Síðar
bárust fleiri skeyti þar sem sagði að
flugvélin hefði lent á jökli og að flug-
vélar hefðu flogið yfir daginn áður í
þoku. Flugturninum í Reykjavík var
þegar gert viðvart og áhöfn leitar-
vélarinnar Vestfirðings ræst út. Há-
bunga Dyngjujökuls var nú heið og
komu leitarmenn fljótt auga á Geysi
og áhöfnina við flakið. Fljótlega komu
fleiri vélar á vettvang og varpað var
niður matvælum og skjólfatnaði, auk
betra senditækis.
Mikill fögnuður braust út er greint
var fundi vélarinnar, en næsta mál á
dagskrá var að bjarga áhöfninni nið-
ur af jöklinum. Ógerlegt var að lenda
flugvél þar, svo ekki var um annað að
ræða en senda leitarflokk landleiðina
og hélt hópur manna frá Ferðafélagi
Akureyrar suður yfir öræfin frá Mý-
vatni. Leitarflokkurinn kom að Kistu-
felli seint að kvöldi þriðjudagsins 19.
september. Þaðan var haldið á jökul-
inn að morgni næsta dags.
Björgunarvél festist
Um hádegið á þriðjudeginum bárust
af því fregnir að þrjár vélar hefðu verið
sendar hingað til lands til björgunar-
starfa á jöklinum. Um var að ræða
Dakota-vél á skíðum og þyrlu, sem
flutt var inn í Skymaster-vél, en þessar
vélar voru sendar frá Blue West-flug-
vellinum á Grænlandi. Með í för voru
læknar, hjúkrunarlið, fallhlífarmenn
og sleðahundar. Hugmyndin var sú
að skíðavélinni yrði lent á jöklinum og
áhöfninni flogið til Reykjavíkur. Áhöfn
Geysis var gert viðvart um komu
björgunarliðsins og markaði hún flug-
braut á jöklinum með svörtum krossi
við hvorn enda. Skíðavélin lenti giftu-
samlega á jöklinum, en þegar hún
ætlaði að hefja sig til flugs sat hún
föst í snjónum. Áhöfn Geysis varð því
að gista enn eina nótt á jöklinum, en
hafði fengið næturgesti að þessu sinni,
sem var áhöfn skíðavélarinnar.
Áfram var reynt að koma björg-
unarvélinni í loftið daginn eftir, en
það bar engan árangur. Brátt bar að
hjálparliðið frá Akureyri og hélt áhöfn
Geysis niður af jöklinum fótgang-
andi í fylgd með þeim. Áhöfn skíða-
vélarinnar hélt nokkru síðar einnig
niður af jöklinum fótgangandi í fylgd
nokkurra björgunarmanna frá Ak-
ureyri. Niðurgangan reyndist erf-
ið í nístingskulda og þoku. Í birtingu
næsta dag voru þó allir komnir heilu
og höldnu að Kistufelli. Þar í næsta
nágrenni fann Björn Pálsson flug-
maður nothæfan lendingarstað og
þangað var mannskapurinn sóttur.
Á ellefta tímanum að morgni
fimmtudagsins 22. september lentu
tvær flugvélar Loftleiða í Reykjavík
með áhafnir vélanna. Mikill mann-
fjöldi hafði safnast saman á flugvell-
inum þennan morgun. Áhöfn Geysis
bar sig vel en var bersýnilega illa leik-
in eftir slysið og vistina á jöklinum.
Dagfinnur Stefánsson flugmaður var
særður í andliti og Ingigerður Karls-
dóttir flugfreyja meidd í baki. Þá var
öll áhöfnin illa brunnin í andliti eft-
ir sól og frost. Aðrir í áhöfninni voru
Bolli Gunnarsson loftskeytamaður,
Einar Runólfsson vélamaður, Magn-
ús Guðmundsson flugstjóri og Guð-
mundur Sívertsen siglingafræðingur.
Erfiðar aðstæður á jöklinum
Magnús flugstjóri skýrði blaðamönn-
um svo frá tildrögum slyssins: „Við
töldum okkur vera í 8000 feta hæð og
á réttri leið með stefnu á Vestmanna-
eyjar. Flugveður var illt, hvasst, þoka,
snjókoma og myrkur. Loft var ókyrrt
og uppstreymi og niðurstreymi á víxl.
Mikil ísing var farin að setjast á vél-
ina og við vorum að búa okkur undir
að setja ísvarnartækin á þegar klukk-
an var 22.30.“ Vélin hefði þá allt í einu
rekist á og hann ekki fyllilega gert
sér ljóst hvernig það gerðist en hann
taldi að vélin hefði „fyrst rekið niður
vinstri vænginn, síðan tekið hátt loft-
kast, rekið næst niður skrúfurnar og
steypst yfir sig og runnið eftir jökl-
inum á hvolfi uns hún staðnæmdist.
Fremsti hlutinn var þá að hálfu brot-
inn frá og lá á hliðinni“.
Eftir brotlendinguna braust
áhöfnin út úr vélinni með því að
brjóta rúðu á glugga. Enginn var telj-
andi meiddur nema Dagfinnur flug-
maður, sem fengið hafði höfuðhögg.
Þegar út var komið var stormur og
snjókoma. Grípum aftur niður í frá-
sögn Magnúsar: „Hið fyrsta, sem ég
gerði var að fara aftur með vélinni,
því að þar heyrði ég köll Ingigerðar,
sem hafði verið í næsta klefa fyrir aft-
an flugmenn. Sat hún þar rígskorðuð í
samanbeygluðum klefanum, og tókst
okkur með herkjum að draga hana út
um op, sem þar hafði myndast.“
Því næst bjó áhöfnin um sig aftast
í farþegarýminu. Ekki var þó skjólgott
þar og lítið sofið fyrstu nóttina. Tals-
vert var af vefnaðarvöru um borð í
vélinni, sem nú kom að góðum not-
um til að skýla áhöfninni í kuldanum.
Matarvistir voru litlar, en ekki náð-
ist til gúmmíbáta vélarinnar þar sem
matarforði var geymdur. Það var ekki
fyrr en á fjórða degi sem tókst að kom-
ast að gúmmíbátunum þar sem finna
mátti lítið handsnúið senditæki. Það
var hægt að nota til að senda út boð
um að allir væru heilir á húfi.
Skíðavélinni bjargað
Í apríl árið eftir héldu Loftleiðamenn,
ásamt félögum, upp á jökulinn með
tvær stórar beltisýtur og fjóra sleða.
Skyldi þess freistað að bjarga skíða-
vélinni af jöklinum. Á næstu vikum
var unnið það þrekvirki að grafa vél-
ina upp og draga hana niður af jökl-
inum milli Skaftár og Hverfisfljóts.
Flugvélinni var lent í Reykjavík hinn
5. maí 1951 að viðstöddum mikl-
um mannfjölda. Í vélinni voru flug-
mennirnir Alfreð Elíasson og Kristinn
Olsen, auk Hrafns Jónssonar bifvéla-
virkja. Loftleiðamenn seldu vélina og
varð afraksturinn mikil lyftistöng fyrir
rekstur félagsins á næstu árum. Þessi
björgunarafrek eru enn í hávegum
höfð nú tæpum 65 árum síðar, enda
kraftaverk að öll áhöfn Geysis skyldi
komast lífs af.
Heimild: Frásagnir blaðanna og
Öldin okkar. n
„Mikill fögnuður
braust út er greint
var fundi vélarinnar, en
næsta mál á dagskrá var
að bjarga áhöfninni niður
af jöklinum.
Forsíðufrétt Morgunblaðsins 22. september 1950 Áhöfn Geysis var illa leikin eftir
slysið en bar sig vel.
Björgun Þrjár vélar voru sendar hingað til
lands til björgunarstarfa á jöklinum.
Hótel Saga, Hagatorgi • 107 Reykjavík • Sími: 511 2111 og 862 0822 (utan opnunartíma)
Láttu þér líða vel
meccaspa.is
Opnunartími
Virka daga frá kl. 7.00 - 20.00
Laugardaga frá kl. 9.00 - 18.00
Sunnudaga frá kl. 10.00 - 14.00
Tökum vel á móti hópum af öllum stærðum, einnig utan hefðbundins opnunartíma. Dekur í boði.