Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Qupperneq 2
Frá ritstjóra
„Mig langaði bara til að þakka fyrir tímaritið,“ skrifar Ragnheiður frá Kaup-
mannahöfn. „Ég hef ekki tíma til að lesa það spjaldanna milli, en finnst það sem
ég les vera spennandi og gefa svona „udenlandsislænding“ tengingu inn í menn-
ingarumræðuna á Íslandi.“ Undir þetta tóku fleiri „udenlandsislændinge“, m.a.
Heimir í Svíþjóð sem hafði mest gaman af ljóðagrein Eiríks Arnar Norðdahl, bréfi
Friðriks Þórðarsonar og viðtalinu við Sigurð Pálsson og lét menningarrispu rit-
stjórans kveikja í sér: „Mikið assgoti held ég t.d. verði gaman í holtunum báðum,
Skál- og Reyk. …“ Það mun hafa sannast í sumar, og ekki var klaustrið Kirkjubæj-
ar síðra.
Arndís í London lét TMM létta sér vonda kvefpest í stórborginni og skrifaði
innblásin af hita og heimþrá: „… þegar mér berst TMM í hendur […] þá líður mér
alltaf eins og Hafnarstúdent frá þarsíðustu öld, sem hefur nýfengið í hendur lang-
þráð bréf að heiman …“ Í síðasta hefti varð ýmislegt til að gleðja hana, meðal ann-
ars grein Katrínar Jakobsdóttur um barnabókmenntir.
Og Przemyslaw Czarnecki skrifar frá Póllandi: „Tímaritsheftið er komið alla leið
til mín og segi ég innilega takk fyrir það! Mjög finnst mér ljóðið eftir Elías Mar
skemmtilegt og langaði mig til þess að lesa það í íslenskutímanum á morgun, en
hér hefur páfinn orðið til trafala! Hann kom í heimsókn til Póllands í dag og þess
vegna er frí á morgun.“ Przemyslaw las ljóðið bara daginn þar á eftir fyrir nem-
endur sína.
Vorhefti TMM þótti fallega ljóðrænt með fuglamálverki Jóns Reykdals framan á
og viðtalinu við ljóðskáldið Sigurð Pálsson og grein um skáldskap hans sem aðal-
efni. Jónas Sen skrifaði glaður: „Viðtalið við Sigga Páls er snilld. Ég fór á algert
nostalgíufyllerí þegar ég las það. Sérstaklega hjó ég eftir einu sem ég er að hugsa
um að nota í krítík næst þegar ég fer á of langa tónleika: „Maður sá þann merkilega
hlut gerast að áheyrendur elskuðu hann í upphafi en hefði hann ekki hætt þegar
hann hætti þá hefði einhver tekið sig til og kyrkt hann!“
Eina opinbera rýni fékk heftið frá Páli Baldvin í DV. Hann segir Tímaritið hafa
náð fullum þroska og bera aldur vel, „lýtaaðgerðir í lágmarki og ungir samferða-
menn sestir upp á farið“; honum finnst grein Eiríks Arnar Norðdahl skemmtileg
og „ljómandi viðtal“ við Sigurð Pálsson, „pakkað af upplýsingum, skortir helst í
það stökk inn í ljóðabækurnar og tilviljanakennt val á texta til frekari útlistunar,
en þá hefði viðtalið mátt taka allt heftið og umbreyst í viðtalsbók“! Páli fannst líka
grein Stellu Soffíu Jóhannesdóttur um Halldóru B. Björnsson afbragðsgóð en
skarpasta skrifið var að hans mati greining Katrínar Jakobsdóttur á Kastljósi Sjón-
varpsins – „er ánægjulegt að sjá að einhverjir hafa áhuga á að tala opinskátt um þá
heilögu kú sem Ríkissjónvarpið er.“
Enn minni ég á heimasíðu TMM, www.tmm.is, og vona að haustið verði ykkur
ljúft.
Silja Aðalsteinsdóttir
2 TMM 2006 · 3