Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 3
TMM 2006 · 3 3
Sigurður Pálsson
Örskotsstund
í marsmánuði 1968
Og þarna var ég mættur í fjórtánda hverfinu í París. Kom til
Frakklands í október, nýorðinn nítján ára og stúdent um vorið.
Fram að jólum var ég í þeirri góðu borg Toulouse en þá mætti ég
til leiks í París. Eitthvað magnað lá í loftinu.
Í byrjun febrúar fékk ég svo inni á nýlegum stúdentagarði í
fjórtánda hverfi. Ártalið var 1968. Þetta var mikil bygging, einar
fjórtán hæðir, ópersónuleg að því leyti að mannleg vera varð lítil í
samanburði.
Ég fór oft í gönguferðir um hverfið. Strangt og kaldranalegt sum-
part á þessum slóðum, blessað fjórtánda hverfið. Óhreinir veggir,
metróstöðin Saint Jacques dapurleg, köld og virtist á einhvern
undarlegan hátt alltaf vera skítug. Fangelsið stóra, Prison de la
Santé, á næstu grösum.
En hverfið verður hlýlegra, blómlegra og bjartara þegar nær
dregur Port Royal. Breiðar götur með sífrandi umferð allan dag-
inn alla daga. Handan við stóru gatnamótin hjá metróstöðinni
Port Royal glitti í magíska veitingahúsið Closerie des Lilas. Á þess-
um tíma gerði ég ekki annað en horfa inn og skoða fyrir dyrum úti
matseðil sem ég réð ekki við.
Dag einn var ég nýbúinn að lesa matseðilinn hjá þeim Closerie-
bændum, úti fyrir var maður með bláa seilorhúfu að vinna hörð-
um höndum að opna harðvítugar ostrur, þetta sérstæða sambland
ýtrustu hörku og stökustu mýktar, í loftinu voru drög að vori,
þetta var í marsmánuði, framundan var frægur maímánuður.
Ég var á leiðinni heim á Dareau, stúdentagarðinn minn. Hug-
urinn var í þessu væra og sérlega þægilega millibilsástandi sem