Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 4
S i g u r ð u r Pá l s s o n
4 TMM 2006 · 3
líkja má við þriðja ástandið hjá taóistum; hvorki yin né yang held-
ur hinn hverfuli tími milli þeirra félaga beggja.
Tíminn sem allt byggist á.
Tíminn sem hvorki er innöndun né útöndun heldur örstutt,
hverful dvöl, rétt eftir að öðru er lokið og hitt rétt framundan.
Þá kom ég auga á hann.
Hann gekk í áttina til mín og ég til hans. Við myndum að öðru
óbreyttu mætast eftir innan við tvær mínútur.
Ég fékk hjartslátt, mig hefði ekki grunað hvað það yrði stórkost-
leg stund að koma auga á hann, fá staðfestingu á því að hann væri
raunverulegur. Hann var undralíkur sjálfum sér á ljósmyndum, ég
sá það strax úr þessari fjarlægð. Og hann gekk nær mér og ég gekk
nær honum. Rétt bráðum myndum við mætast.
Á leifturhraða fékk ég sterka tilfinningu fyrir því hvað ég var
eitthvað bjánalegur svona spenntur og bullsveittur að vera að hitta
þennan fræga mann, þetta ídól mitt, ég hafði tekið þátt í leiklestri
á Sal Menntaskólans í Reykjavík („Vér mótmælum allir“…) á hans
fræga verki Endatafli, þar las ég hlutverk þjónsins og trúðsfíg-
úrunnar Clov. Þetta náðist á ljósmynd sem birtist í ljósmyndabók
um Reykjavík 1967 í kafla um skólalífið í borginni. Ég er þarna
skellihlæjandi, ég man það var áður en lestur á leiktextanum sjálf-
um hófst, einhver var að lesa leiklýsingarnar, „stuttur hlátur“ og
alla þá nákvæmni.
En það er sérkennilegt að á sömu opnu í þessari bók er mynd af
stúlku sem ég kannaðist við, hún var í skólanum og það er mynd
af henni á teikninámskeiði. Hún er einkar falleg og alvarleg en ég
er trúðurinn hinum megin á opnunni.
Löngu síðar kynntumst við og höfum nú verið gift lengi, hún
heitir Kristín.
Og þarna var ég, sem hafði lesið hlutverk þjónsins Clov og nú
kom Hamm á móti mér nema hann var ekki blindur og Clov var
ekki kaldur og yfirvegaður eins og í leikritinu, hann var fáránlega
stressaður.
Mér fannst allt í einu óbærilega bjánalegt að horfa á þennan
dásamlega höfund með svona túristalegu flenniviðmóti, stara slef-
andi á hinn granna og hávaxna Íra, það var bara alveg óbærilega
hálfvitalegt. Ég notaði síðustu sekúndurnar sem eftir voru þar til