Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Síða 8
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
8 TMM 2006 · 3
skálda komu út 1958 og nú birta þau bæði sína nítjándu ljóðabók. Væri
ekki kjörið að leggja greinina bara undir þessi skáld sem sýna í nýjustu
bókum sínum að sköpunargáfa þeirra er í senn þaulreynd og vökul,
íhugul um innri hag en þó síforvitin um heiminn? Að vísu er Matthías
gjarnan talinn skáld hinnar öru tjáningar en Þorsteinn getur virst dulur
í erindum sínum og lítt gefinn fyrir að hleypa lesandanum rakleitt að
hjarta sér. En munur í mælskulist getur verið blekkjandi; í nýjustu bók
Matthíasar kemur fram að hann tengir saman þá veröld sem maður
geymir í huga sér við það „minni“ sem býr í sögunni, þar á meðal goð-
sögum og öðru arfþegnu sagna- og ljóðagóssi. Bráðlifandi tengsl af þessu
tagi hafa einmitt verið rauður þráður í skáldskap Þorsteins. Í þessum
línum úr ljóði Matthíasar, „Höfuð mitt er eldhnöttur“, sést vel hvernig
ljóðmælandinn les sig inn í gamla heimsmynd og endurnýjar hana:
Ég er með eldhnött
á herðum,
þar liggur Pompej
við grónar rætur
fjallsins
og hlið Heklu
að helju
opið upp á gátt,
þar sveima járnfuglar
og bíða eftir næsta
gosi
við Skjólkvíar hugans
hef ég löngum staðið,
horft á himininn sortna
af vikri og ösku,
fundið jörðina skjálfa
undir fótum okkar,
heyrt jörðina skjálfa.
Þótt sum ljóðin beri þess merki að skáldið eldist og mæli aldur sinn af
rósemd, eins og í hinu magnaða titilljóði bókarinnar, þá má semsé
glöggt sjá að ástríðuþunginn er samur og fyrr.
Það leiðir hugann að því að Þorsteinn frá Hamri hefur í raun alltaf
verið ástríðuskáld, hvað sem líður meitluðu ljóðmáli. Í ljóði hans „Mann-
vist“ er tilheyrandi beðinn að koma nær því neistinn „sem næst mér er
falinn“ kynni „að hrökkva í barm þér, / […] / áður en allt verður kalt.“
Þorsteinn horfir einnig á himin sortna, því: „Með stroknu fasi / ilma í
dag af dásemd / hin sjálfbirgu svör. // Á morgun dreifa þau / hatri,
sprengjum og heimsku.“ Svo segir í ljóðinu „Svör“ og hefur þetta fengist
ítrekað staðfest eftir að ljóðið gekk á prent. Andspænis hinum sjálfbirgu
svörum er það hlutverk ljóðsins að efast og spyrja og í ljóðinu „Auðnir“
má sjá að ljóðskáldið drottnar ekki yfir merkingu tungumálsins, skilur
það ekki endilega, en vinnur með því til að öðlast skilning á heiminum: