Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Qupperneq 12
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
12 TMM 2006 · 3
svo þegar ég stend við haf
er veröld mín þrennt:
seyðingur (vinstra megin)
og hafið fyrir augum mér
og hugarástand sem
vonlaust er að fá yfirsýn yfir:
líðan fjarri því jafn staðbundin og
verkurinn, vonlaust að skilja
hugann frá hafi eða
öðru fyrir augum manns
Þetta viðfangsefni Jónasar er öðrum þræði fagurfræðilegt og varðar sjálfa
stöðu ljóðlistarinnar í heimi þeirra sem eru arfþegar módernismans. Hið
svokallaða „frjálsa“ eða „óbundna“ form er eitt og sér ekki helsta einkenni
módernismans, heldur oft þáttur í byggingu ljóða sem túlka „innhverfi“
mannsins; taka umheiminum ekki sem gefnum heldur leitast við að
túlka þær myndir sem umhverfið tekur á sig innra með okkur, í skynjun
og hugsun. Fyrir vikið er módernisminn oft umtalaður sem svið hins
flókna eða „erfiða“ myndmáls – en list hans líka iðulega metin eftir því
hversu frumlegir myndasmiðir skáldin eru. Þegar í fyrstu bók Jónasar
mátti sjá færni hans í þessari list, en hann hefur jafnframt verið líkt og á
varðbergi, eins og hann vilji ekki ganga of langt „inn í sig“, vilji líka halda
heiminum þarna fyrir „utan“ – eða á mörkunum – sjá hann og heyra þar;
og þessu tengist sú nálgun að talmáli sem hefur sótt á í ljóðum hans.
Freistandi er að líta í fleiri bækur liðins árs með þetta í huga. Garðar
Baldvinsson hikar ekki við að sökkva sér í vitundina, en þó ekki bara
eina vitund því bók hans heitir Höfðaborg en ekki „Höfuðborg“. Ljóðið
„skjáhaftið hvíta“, þar sem brugðist er við fæðingu og aðdraganda henn-
ar, hefst svo: „löturhægt þjappast frumur og / sameindir kaótískt í leg-
köku / í kerfi lífsins á bók er opnast / einn dag sem upprás sólar / dag
sem aldrei var né verður / á ný í sigurkufli berbakt / eftir tvöþúsund tíð-
indi hins eina / einasta“.
Þetta er ljóð um tímasetningu í fleiri en einum skilningi en Tímasetn
ingar er einmitt heiti á nýjustu ljóðabók Margrétar Lóu Jónsdóttur, þar
sem lesandi hittir fyrir flæðandi „ég“ sem minnir í krafti sínum á Walt
Whitman og getur orðið margt bæði í tíma og tungumáli (setningum):
„Ég er tími, ég er setning, um leið og ég er tímalaust setningaflóð“ sem
fer um hugarheim og fer síðan með hann út í heim, meðal annars til að
nema blóð á gangstétt í framandi borg, „svo rautt og svo nýtt“.
Ljóðabókin Litbrigðamygla eftir Kristian Guttesen „gerist“ á drauga-
setri, þar sem „draumar og veruleiki verða eitt“ eins og segir á bakkápu,
en skyldu þessi húsakynni ekki vera vistarverur hugans, þar sem allt
gengur aftur: „herbergin í húsinu eru óteljandi / í hverju þeirra hitti ég
einhvern / fyrir oftast þig en líka marga / aðra / að því leyti erum við /
lík úr þessu lífi“, eins og segir í ljóðinu „húsið“.