Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Side 19
TMM 2006 · 3 19
Steinar Bragi
Hið stórfenglega
leyndarmál heimsins
Úti var stormur. Vindurinn gnauðaði, rigningin drundi á þakinu og
rúðunum og streymdi hvæsandi ofan í eilífa nótt holræsanna. Af og til
brá fyrir skugga villuráfandi, týndra sálna sem þröngvuðu sér milli
kaldra stálrimla rigningarinnar, pírðu augun lævíslega gegnum storm-
inn, yfir trefla, undir loðhúfur og augabrúnir, og freistuðu þess að
sleppa. Þau erindi sem knúðu þetta fólk út á göturnar í slíku veðri, gátu
einungis verið ill.
Ég hafði gefist upp á að bíða eftir að storminum slotaði og lét fara vel
um mig í hlýjunni innandyra, hafði kveikt upp í arninum, breitt yfir
mig teppi og sat niðursokkinn í Loftsteinaregnið, bók um stjörnufræð-
ing á Kanaríeyjum, sem dag einn finnst látinn með augað klemmt upp
að stjörnukíki.
Útundan mér fylgdist ég með vini mínum, Steini Steinarr, sem virtist
órólegur, stóð við gluggann, horfði yfir Laugaveginn og tottaði pípuna.
Ég vissi hvernig stöðugt bjarmandi hugur hans spólaði nú í hringi í leit
að viðfangsefni og væri í þann mund að snúast gegn sjálfum sér eftir
aðgerðaleysi undanfarinna daga.
„Þú veist að ég hef megnan viðbjóð á hversdagsleikanum, minn kæri,“
sagði Steinn, líkt og hann hefði lesið hugsanir mínar. „Hugur minn er
veðhlaupahross, teymt undir freka úthverfakrakka og sljóa foreldra
þeirra í Malasíuferð um Elliðaárdalinn, lífið er venjulegt, blöðin and-
laus, dirfska og rómantík virðast að eilífu horfnar úr heiminum.“
„En vinur minn, hvað ertu að segja!?“
„Ég er að segja eftirfarandi: á þessari stundu er bíll að renna upp að
gangstéttinni framan við húsið. Það kæmi mér ekki á óvart ef við fengj-
um heimsókn.“
Hringt var á bjölluna, og skömmu síðar heyrði ég að frú Lína opnaði
útidyrnar og vísaði gestinum inn fyrir; gengið var þunglamalega upp
stigann, svo heyrðist brothljóð og frú Lína öskraði. Ég spratt á fætur en