Tímarit Máls og menningar - 01.09.2006, Blaðsíða 20
S t e i n a r B r a g i
20 TMM 2006 · 3
Steinn var á undan mér, sótti byssuna ofan í skúffu, spennti gikkinn og
um leið opnuðust dyrnar inn í stofuna.
Gestur okkar var torkennilegt samansafn mótstæðra hreyfinga, hann
gretti sig, brosti, reyndi að tala, snörlaði, sagði „hello“, gekk við hækjur
sem hann sveiflaði yfir gólfið líkt og þreifurum, steytti hnefa, rak fram
höndina og leitaðist eftir að heilsa, allt í senn og án þess svo mikið sem
að staðnæmast – kom líkt og stormsveipur í stofuna og áður en ég vissi
var hann kominn þvert yfir herbergið og hálfdatt eða lagðist í bláa pluss-
sófann.
„Fljótt! Ilmsaltið!“ hrópaði Steinn, lagði frá sér byssuna, kraup við
hlið mannsins og hóf að losa um frakkann og skyrtuna.
„Guð hjálpi okkur öllum!“ öskraði frú Lína sem birtist í gættinni,
starði glenntum augum á manninn, rænulausan í sófanum.
„Hér er allt með kyrrum kjörum, frú Lína!“ hrópaði Steinn, augun
leiftrandi, rjóður í kinnum og virtist ekki ósáttur við innrás mannsins.
„Hafið ekki nokkrar áhyggjur!“
„En hann – “
„Loka dyrunum, frú Lína!“ hrópaði Steinn, og ég rétti honum ilmsaltið
sem hann bar að vitum mannsins, en frú Lína fór út og lokaði á eftir sér.
Brátt rankaði maðurinn aftur við sér, brjóstið þandist og svo andaði
hann hratt, næstum hysterískt, og horfði í kringum sig líkt og hann vissi
ekki hvar hann væri niður kominn.
„Þér hafið dramatískt inngöngulag,“ sagði Steinn á Eton-enskunni
sinni, og varð ísmeygilegur, pírði augun framan í gestinn, klappaði
honum því næst á kinnina, og hellti upp í hann tappa af konjakki. Gest-
urinn svaraði engu, en þegar hann virtist hafa jafnað sig, andardrátt-
urinn hægðist og farið að rofa í glýju augnanna, spratt Steinn á fætur,
skimaði í kringum sig og ég sá að hann var djúpt hugsi. Hann færði sig
út að vegg, að byssuskúffunni þar sem hann stóð þegar maðurinn kom
inn, renndi augunum eftir gólfinu, að dyrunum meðfram veggnum og
loks að lampanum á litla borðinu við sófann.
Að lokinni þessari athugun, sem var afstaðin á nokkrum sekúndum
og farið hefði framhjá flestum nema þeim sem þekktu hann vel, líkt og
ég sjálfur, settist hann í hægindastólinn andspænis sófanum, tók upp
pípuna og hóf að troða í hana.
„Jæja, herra minn,“ sagði Steinn. „Þetta lítur ekki út fyrir að vera
kurteisisheimsókn. Segið mér, hvaða órói hins myrka blóðs er það sem
rekur yður hingað?“
„Ég kom til að – að finna yður og engan annan!“ sagði maðurinn á
ensku og beindi orðum sínum að Steini, stakk svo augunum illskulega